Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir

Safnanótt á Bókasafni Seltjarnarness

Vísinda-Villi - Tilraunasmiðja - Djass-tríó -  Ljósmyndasýningin Slab City - Kórperlur  Föstudag 7. febrúar kl. 19-24

3.2.2014

Friðrik Örn Hjaltested, Slab CityStarfsmenn Bókasafns Seltjarnarness hafa í nógu að snúast þessa dagana við undirbúning Safnanætur sem verður með glæsilegasta móti að þessu sinni í tilefni af 40 ára afmæli bæjarins. 
Dagskráin hefst kl. 19 með sýningaropnun ljósmyndarans Friðriks Arnar Hjaltested, en Friðrik tókst að fanga ógleymanleg augnablik í einskinsmannslandinu Slab City í eyðimörk Suður-Kaliforníu, þar sem engar reglur gilda og allt er leyfilegt. Í þessu villta vestri nútímans, með engu aðgengi að vatni eða rafmagni, safnast fólk saman í leit að frelsi frá hefðbundnu skipulagi nútímasamfélagsins. Ferðalangar, hippar, listamenn, ellilífeyrisþegar og utangarðsmenn hreiðra um sig í óhefðbundnum hjólhýsum sínum og njóta skrautlegs lífsstíls á hjara veraldar. Gamlir hlutir öðlast nýtt líf og hvarvetna má sjá merki um hugmyndaauðgi í endurnýtingu, bæði í formi híbýla og listaverka. Friðrik verður með leiðsagnir um sýninguna kl. 20:45 og 22. Sýningin stendur til 28. febrúar en auk þess að vera opin á hefðbundnum opnunartíma Bókasafnsins verður hún opin laugardaginn 8. og sunnudaginn 9. febrúar kl. 13- 18. 
Vísinda Villi, SafnanóttFáir eða engir eiga sér jafnmarga aðdáendur yngri kynslóðarinnar og hinn ástsæli Vísinda-Villi eða Vilhelm Anton Jónsson. Nýleg, samnefnd bók hans rataði í jólapakka allmargra barna á landinu og tilraunir voru viðhafðar upp úr þeim. Kl. 19:30 á Safnanótt kemur Vísinda-Villi í heimsókn á Bókasafnið þar sem hann mun fara á kostum með fyrirlestri og fróðleik um heiminn okkar auk þess að gera einfaldar tilraunir. Þegar Villi hefur pakkað saman gefst börnum tækifæri á að framkvæma eina tilraun sem leiðbeinendur og foreldrar hjálpa til við. 
Söngur grunnskólakóranna Litlu snillinganna og Meistara Jakobs hefur jafnan vakið mikla athygli. Nú hafa þau enn á ný sett saman nýtt prógramm sem þau syngja undir stjórn kórstjórans Ingu Bjargar Stefánsdóttur. Atriði þeirra hefst kl. 20:30. 
Upp úr kl. 21 töfrar tríó Hauks Gröndals klarínettuleikara fram seiðandi djasstónlist en tríóið skipa auk hans Ásgeir Ásgeirsson á tamboura, bouzouki og saz baglama og Kristófer Rodriguez á slagverk. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Tónstafir sem er samstarfsverkefni Bókasafnsins og Tónlistarskóla Seltjarnarness þar sem Haukur kennir. 
Fleira verður hægt að gera sér til gamans í Bókasafninu fyrir utan að kíkja í bækur og blöð og taka virkan þátt í skemmtiatriðum. Í tímaritadeildinni geta allir bæjarbúar lagt sitt af mörkum við að prjóna trefil sem vefja á utan um Gróttuvita á fjölskyldudeginum í Gróttu í byrjun maí. Markmiðið er að hafa hann sem lengstan, en nú þegar hafa fjölmargir lagt verkefninu lið. 
Á vegum Safnanætur verður Safnanæturleikurinn í gangi þar sem vegleg verðlaun eru í boði og minnt er á að Safnanæturstrætó gengur út á Sefgarða með viðkomu á Eiðistorgi allt kvöldið. 

Safnanæturgestir á Nesinu eru einnig hvattir til að skoða hina óvenjulegu leiksýningu SAD sem fram fer í safnhúsinu (áður Lækningaminjasafni) þar sem Eivør Pálsdóttir söngkona er meðal þátttakenda. 
SAD er óvenjuleg leiksýning sem fjallar þau áhrif sem vetrarmyrkrið hefur á sálarlíf okkar, íbúa norðurhvelsins. Hér er á ferðinni samstarf norrænna sviðslistamanna sem þekkja vel barninginn við skammdegisrökkrið. Í sýningunni fara áhorfendur í ferðalag um heim ljóss og myrkurs. Takmarkaður fjöldi gesta kemst að á hverja sýningu, en þær eru sjö talsins og panta þarf miða fyrirfram. Sýningin er samvinnuverkefni listamanna úr ólíkum áttum. Um tónlistina sér hin færeyska Eivør Pálsdóttir og er hún sérstaklega samin fyrir sýninguna. Sjá nánar um þennan viðburð á heimasíðu Seltjarnarness: http://www.seltjarnarnes.is/frettirogutgefidefni/vidburdir/2014/02/07/eventnr/2176
Senda grein

Um safnið