Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Listavika

Listavika

Listavika Bókasafns Seltjarnarness 2012 var 1.-5. október.
Hún markar jafnframt upphaf vetrarstarfs bókasafnsins. 

Húsfyllir var þegar í upphafi vikunnar þegar tríóið Tvær á palli með einum kalli.... Helga Þórarinsdóttir á víólu, Edda Þórarinsdóttir leikkona sem söng og kynnti dagskrána og Kristján Hrannar Pálsson á píanó flutti kvikmyndatónlist bæði innlenda og erlenda.  Sérstakleg skemmtilegt var að þau fluttu ,,Vegir liggja til allra átta“ úr 79 af stöðinni í ljósi þess að Indriði G. Þorsteinsson var kynntur sem Skáld mánaðarins á fimmtudeginum. Þar fluttu erindi Kári Jónasson fréttamaður og Gunnar Stefánsson útvarpsmaður og sögðu frá Indriða á ólíkan hátt þar sem Kári vann með honum en Gunnar kynntist honum ekki persónulega heldur hefur skrifað um Indriða. Sett var upp sýning í tengslum við Indriða og þar er meðal annars að finna handrit hans af 79 af stöðinni, bréf til föður hans, minnibækur og fleira smálegt. Sýndar eru nokkrar forsíður Tímans sem Kári taldi einkennandi fyrir stíl Indriða sem blaðamanns. Sýningin verður opin út október.

Bókmenntafélag bókasafnsins hélt fund á þriðjudagskvöldið. Þar var rætt um sjálfsævisögur fjögurra kvenna sem uppi voru í byrjun 20. aldar. Félagsmenn lesa næst bók að eigin vali eftir Indriða G. þannig að hann er rauði þráðurinn í vikunni.  Fyrsta prjónakaffið haustsins var þetta sama kvöld.

Á sögustund fyrir yngstu börnin var boðið uppá brúðuleikhúsið – Minnsta tröll í heimi sem flutt var af Sögusvuntunni og Hallveigu  Thorlacius. Fullt var á sýninguna og fóru börnin glöð heim.

Málverk Óla Hilmars Briem Jónssonar prýða Eiðissker – sal bókasafnsins. Sýningin stendur til 26. október og er opin á opnunartíma bókasafnsins.

Bókasafnið tók þátt í Menningar- og listahátíð Seltjarnarness sem haldin var 1. til 6. október 2011. Á bókasafninu voru þrjár sýningar: Írskur pilsaþytur þar sem Georg Douglas sýndi  9 olíumálverk. Nemendur Valhúsaskóla sýndu Stólafjör - verkefni sem þau höfðu unnið við að endurnýta gamla stóla. Í Tímaritadeildinni sýndi Guðný Hrönn Antonsdóttir myndverk. Sýningarnar opnuðu 1. október og voru opnar um helgina.
Á mánudeginum var Te og tónlist og að þessu sinni var það Freyja Gunnlaugsdóttir sem lék á klarinett og Tinna Þorsteinsdótir lék á píanó. Bókmenntafélagið og prjónakaffið hófu göngu sína og var ræddi Hassel-Zein um rússneskt hekl. Í tilefni hátíðarinnar var boðið uppá brúðuleikhússýningu fyrir börnin og var Pétur og úlfurinn fyrir valinum í flutningi Bernd Ogrodnik. 

Fyrsta Listavika Bókasafns Seltjarnarness var haldin 1. – 10. október 2009.

Hugmyndin að listavikunni kviknaði í vor þegar unnið var að bókmenntagöngu á Jónsmessu. Meðal bóka sem lesnar voru í undirbúningi göngunnar voru bækur Yrsu Sigurðardóttur og í Ösku segir hún: ,,Keppnin hafði verið liður í listaviku bæjarbókasafnsins“. Þetta hlaut að eiga við Bókasafn Seltjarnarness þar sem fjölskyldan í sögunni býr á Nesinu. Hugmyndin var gripin á lofti og efnt til Listaviku!

 Bókasafninu, sem heyrir undir menningarnefnd bæjarins, er meðal annars ætlað að vera menningar- og upplýsingamiðstöð Seltjarnarness. Í menningarstefnu bæjarins er leiðarljósið að efla áhuga, löngun og möguleika bæjarbúa til að njóta menningar. Listavikan er liður í að efla möguleika bæjarbúa til að njóta menningar.

Ákveðið var að bjóða uppá fjölbreytta dagskrá til að ná til sem flestra – þess vegna mátti bæði finna á dagskránni hálærða listamenn og einfalda stafaþraut.

Áhersla var lögð á tvo þætti – annars vegar sértaka viðburði sem tengdust listaviku svo sem opnunar­athöf, myndlistarsýningu og húsagöngu. Hins vegar var dagskrá vetrarins kynnt með því að í vikunni hófust dagskrárliðir sem síðan verða reglulega í vetur. Í þessum hópi eru sögustundir fyrir yngstu börnin sem verða fyrsta laugardag í mánuði kl. 13:00, Te og tónlist samstarf við Tónlistarskólann með 20-30 mínútna tónleikum fyrsta mánudag í mánuði kl. 17:30, prjónakaffi og leshópur sem verða fyrsta þriðjudag í mánuði og Skáld mánaðarins sem er samstarf við hlusta.is og verður boðið uppá fjórar slíkar kynningar í vetur.

Dagskráin var sett fimmtudaginn 1. október kl. 17. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri opnaði vikuna, Yrsa Sigðurðardóttir heiðursgestur hátíðarinnar las úr óprentuðu verki.

Opnuð myndlistarsýning þar sem Kristín Gunnlaugsdóttir, Messíana Tómasdóttir og Ragna Ingimundardóttir sýndu verk sýn.


Gunnar Kvaran sellóleikari og fyrrum bæjarlistamaður lék fjögur lög við undirleik Selmu Guðmundsdóttur.

Sýningin um Stephan G. Stepansson í tveimur skápum var opnuð og frammi lágu bæklingar tengdir nýju bókinni.


Menning og listir