Sýningar í Gallerí Gróttu

_________________________

9. maí 2019

Alistair MacintyreAlistair Macintyre - ROFMÁTTUR TÍMANS (TIME FROZEN, TIME THAWED)

Alistair Macintyre - ROFMÁTTUR TÍMANS (TIME FROZEN, TIME THAWED)

Alistair Macintyre er fæddur á Bretlandi, en hefur verið íslenskur ríkisborgari frá árinu 2009. Hann er menntaður frá listaháskólunum í Cardiff, Wales.

Síðan Alistair flutti til Íslands hefur hann tekiðþátt í ýmsum listviðburðum hér á landi og haldið einkasýningar víða, m.a. á Kjarvalsstöðum,  Ketilhúsinu og Gerðasafni.  Verk hans eru í eigu ýmissa opinberra aðila og einkasafna í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Íslandi, til að mynda Listasafns Reykjavíkur.

Tóm er viðfangsefni mitt. Verkfæri mitt – ísinn -býr yfir sjálfsprottnum eyðingarmætti sem sviptir skúlptúra þriðju víddinni og skapar tvívíðar teikningar í þeirra stað. Við bráðnun íssins leysast form í rými upp og hverfa. Þegar þau birtast á nýjan leik minnir ásýnd þeirra á samþjappaða steingervinga þar sem enn má greina vitund um fyrri lögun. 

Rofmáttur tímans -Time Frozen, Time Thawed, er áttunda einkasýningin Alistairs á Íslandi. Hin hægmynduðu ísverk á sýningunni hér hafa verið níu ár í mótun.


Sýningu lýkur 2. júní.

Nánar um listamanninn:

http://www.amacintyre.com/about-2

_________________________

Marta María og Kristín Elva PLÖNTUR4. apríl 2019

Marta María Jónsdóttir og Kristín Elva Rögnvaldsdóttir. PLÖNTUR

Kristín Elva Rögnvaldsdóttir vinnur með teikningar á pappír og panilplötur. Hún vinnur meðal annars út frá hinu hversdagslega í umhverfinu t.d. smádýrum, gróðri og klisjum í manngerðu umhverfi. Kristín Elva vinnur með viðfangsefni sín á óbeinan hátt. Lokaútkoma verka stjórnast af frjálslegri túlkun hennar af viðfangsefninu sem hún vinnur aðallega upp úr skissum. Verkin á sýningunni er öll unnin 2018 og 2019.

Marta María Jónsdóttir kannar í verkum sínum mörkin á milli teikningar og málverks. Litur skipar stórt hlutverk og ólíkir litafletir, línur og form byggja upp myndflötinn. Hrár ómálaður striginn verður hluti af myndheiminum. Í verkunum blandast ósjálfráð teikning við hið vélræna og vísindalega. Línan og teikningin er notuð sem efnisleg bygging myndanna, sem eru lagskiptar og marglaga og saman mynda þær eina heild.

Sýningu lýkur 5. maí.

Nánar um listakonurnar:

www.kristinelva.com

www.martamaria.is


_________________________

Rósa Sigrún Jónsdóttir28. febrúar 2019

Rósa Sigrún Jónsdóttir - KERFI

Sýning Rósu Sigrúnar byggist á tilraunum hennar með fundin náttúruleg efni en Rósa hefur safnað feyskjum af njóla, kerfli og stráum. Plönturnar hafa lokið hlutverki sínu, eru sölnaðar og það rotnunarferli er hafið sem færir þær aftur til moldarinnar þar sem þær verða henni næring sem fóðrar nýja upprisu.

“Ég kýs að stíga inn í það ferli, taka plönturnar út úr því, umbreyta þeim og gefa nýtt hlutverk sem í sjálfu sér getur varað um eilífð. Þar með verður breyting á kerfi náttúrunnar. Það verður til annað kerfi þar sem formræn lögmál myndlistarinnar ráða.”

En hið tortímandi afl eldsins kemur líka við sögu í sýningunni að sögn Rósu, það skapar mikilvægt mótvægi og minnir okkur á umbreytinguna sem alltaf er hluti af öllum kerfum. Öll verkin eru frá tímabilinu 2018 - 2019 nema veggverkið Strá sem er eldra.Rósa Sigrún Jónsdóttir útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 1987 og frá Listaháskóla Íslands árið 2001 með BA gráðu og hefur frá þeim tíma haldið margar einka- og samsýningar hér á Íslandi og erlendis auk þess sem hún hefur að stýrt ýmsum verkefnum.

Sýningu lýkur 31.mars 2019.

Nánar má lesa um verk og feril Rósu Sigrúnar á http://www.lysandi.is/?fbclid=IwAR3nzxtXiLfIpdcr38UIbBj2JrvR6EojrfPxU4oK1itiI78OLqpHG9T0QfI

_________________________

Soffía Sæmundsdóttir Órætt landslag

24. janúar 2019
Soffía Sæmundsdóttir - ÓRÆTT LANDSLAG

Soffía opnaði sýningu sína fimmtudaginn 24. janúar kl. 17.00.

Á sýningu Soffíu eru olíumálverk unnin á tré og myndröð unnin á pappír með olíulitum og coldvaxi sem blandað er saman við litinn og borið á með spaða. Yfirbragð sýningarinnar er hrátt, verkin eru unnin hratt og máta sig við “óhlutbundna málarahefð” með áherslu á endurtekningu í myndbyggingu og samspili lita og flata. Tvö málverkanna eru unnin með 13 ára millibili.

Nothing is more abstract than reality (G. Morandi)

Soffía Sæmundsdóttir(1965) er fædd í Reykjavík og hefur verið virk á myndlistarvettvangi frá útskrift úr grafíkdeild MHÍ 1991. Hún hefur staðið fyrir ótal sýningum, tekið þátt í samsýningum, rekið vinnustofu og kennt myndlist um árabil. Hún hefur auk þess þegið vinnustofudvalir víða um heim og tekið þátt í félagsstörfum myndlistarmanna m.a. sem formaður og í sýningarnefnd félagsins Íslensk grafík til margra ára. Soffía lauk meistaragráðu í málun frá Mills College í Kaliforníu 2001-3 og kennsluréttindum frá LHÍ 2010.

Verk Soffíu eru í eigu fjölmargra einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á alþjóðlegum sem innlendum vettvangi m.a. starfslaun myndlistamanna til þriggja mánaða 2016, Verkefnasjóð Myndstefs, Mugg og verið valin til þátttöku á sýningum fyrir Íslands hönd. Hún hlaut Joan Mitchell Painting and Sculpture Award 2004, kennd við samnefnda stofnun í New York. Soffía býr á Álftanesi og er með vinnustofu við smábátahöfnina í Hafnarfirði en rætur hennar liggja í Landsveit í Rangárvallasýslu. Nánar á: https://www.facebook.com/pg/soffiasart/about/?ref=page_internal

_________________________
Kristín E. Guðjónsdóttir Hulinn heimur22. nóvember 2018
Kristín E. Guðjónsdóttir - HULINN HEIMUR

Kristín opnaði sýningu Hulinn heimur í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 29. nóvember 2018 kl. 17:00

Í abstrakt verkinu birtast myndir tilfinninga sem dagsdaglega eru okkur huldar. Litir, form og formleysi, túlka hér orku þá sem býr hið innra. En allt byggir þetta á persónulegri upplifun.

Kristín E. Guðjónsdóttir nam myndlist hjá myndlistarkonunni og kennaranum Margréti Zóphóníasdóttur. Einnig hefur hún sótt námskeið hjá Bjarna Sigurbjörnssyni listamanni og kennara, Ignatius í Kaupmannahöfn, ásamt hjá Anne Juul Cristhophersen í Danmörku.

Listaverkagjöf Kristín E. GuðjónsdóttirKristín hefur áður sýnt verk sín í Löngubúð á Djúpavogi í apríl 2016, hjá Inni og Úti arkitektum í október 2017 og í Lágafellslaug í Mosfellsbæ 2018. Auk þess hefur hún tekið á móti gestum á heimili sínu frá 2014.

Facebook: "Hulinn Heimur"/ 
Kristín sími: 864-0442 og póstfang: keg6@simnet.is

Sýningin stendur til og með 17. janúar 2019

Gjöf til Bókasafns Seltjarnarness og Gallerí Gróttu:

Kristín færði Bókasafni Seltjarnarness listaverk að gjöf með kæru þakklæti fyrir sýningarhald. Við færum henni bestu þakkir fyrir og munum finna verkinu viðeigandi stað í safninu.


_________________________
Ingibjörg Huld Halldórsdóttir Helgimyndir1. nóvember 2018
Ingibjörg Huld Halldórsdóttir - Helgimyndir

Stórum spurningum er velt upp í sýningunni Helgimyndir. Því hvað þýðir samband foreldris og barns fyrir það hvernig samfélagið virkar? Frá fyrsta andartaki er barnið ósjálfbjarga og mótast af þeim raunveruleika sem mætir því við fæðingu: fjölskyldunni. Eins er samfélagið í raun mótað innan fjögurra veggja heimilisins, því barnið lærir ekki aðeins það sem fyrir því er haft, heldur er meðvirkur meðleikari í því sjónarspili sem hér fer fram.

Í olíu- og krosssaumsverkum á sýningunni veltir myndlistarmaðurinn þessum raunveruleika barnsins fyrir sér. Hvernig er samband foreldris og barns í þjóðfélagi þar sem skömm og meðvirkni ómeðvitað og meðvitað er notuð til að stjórna fólki? Er hornstein feðraveldisins að finna í þessu sambandi móður og barns?

Eins og í fyrri sýningum Ingibjargar er skömmin í brennidepli og málin skoðuð frá sjónarhóli barnsins. Myndirnar eru áhrifamiklar og vilja vekja áhorfandann til umhugsunar um samfélagið, fjölskylduna og eigin barnæsku.

Myndlistarmaðurinn Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarfirði. Hún lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn og Lyon, Frakklandi, og vann lengi sem arkitekt og hönnuður samhliða listsköpun. Hún hefur tekið þátt í bæði einka- og samsýningum hér heima og í Danmörku.

Sýningin stendur yfir frá 1. - 25. nóvember, og er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10 - 19, föstudaga frá kl. 10 - 17 og laugardaga frá kl. 11 - 14.

____________________
Erla S. Haraldsdóttir Minning um lit27. september 2018
Erla S. Haraldsdóttir - Minning um lit

Erla vinnur með málverk, hreyfimyndir, myndbandsverk og ljósmyndaverk. Hún er lærður listmálari sem um þessar mundir einbeitir sér að málaralistinni og verkum þar sem náttúrulegir eiginleikar málningarinnar og litanna skapa rými, ljós og skugga. Af fágun listmálarans leikur hún sér með fígúratíf mótíf, abstrakt liti og mynstur í verkum sínum. Verkin endurspegla gjarnan samspil minninga, tilfinninga og skynjunar. Aðferðafræði og ferlið sjálft eru lykilþættir í verkum Erlu og þau lúta oft ýmsum reglum eða hömlum og taka mið af stöðum eða frásögnum, eða fyrirmælum frá öðrum. 

Oft notar hún þessar aðferðir einnig í kennslu og í listrænu samstarfi. Hún hefur skrifað um þessa aðferðafræði sína í ritum á borð við Difficulty of Freedom/Freedom of Difficulty (Reykjavík: Listaháskólinn í Umeå og Crymogea, 2014) unnið upp úr vinnustofum í Nýlistasafninu (2013) og listamannarýminu Verkligheten í Umeå (2014), sem og í nýjustu bók hennar, Make a Painting of Trees Growing in a Forest (Reykjavík: Crymogea, 2015).

Meðal staða þar sem Erla hefur sýnt má nefna grafhvelfingu dómkirkjunnar í Lundi (Svíþjóð), Hallgrímskirkju, Listasafnið í Kalmar (Svíþjóð), Moderna Museet í Stokkhólmi (Svíþjóð), Listasafn Akureyrar, Kunstverein Langenhagen (Þýskalandi), Bielefelder Kunstverein (Þýskalandi), Künstlerhaus Bethanien (Berlín), Berlinische Galerie (Berlín) og Momentum-tvíæringinn (Moss, Noregi). Verk hennar er að finna í opinberum söfnum á Íslandi (Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Akureyrar og Listasafni ASÍ) og í Svíþjóð (Sænska menningarráðinu, Moderna Museet). Hún hefur dvalið víða sem gestalistamaður, meðal annars í Künstlerhaus Bethanien (Berlín), Cité des Arts (París) og Ateliers '89 (Oranjestad, Arúba). Meðal nýlegra sýninga Erlu má nefna Genesis (Galleri Konstepidemin Göteborg), Genesis (Hallgrímskirkju), Make a Painting of Trees Growing in a Forest (Listasafninu í Kalmar), 2016, Just Painted (Listasafni Reykjavíkur), Project Metropolis (Slesíusafninu í Katowice), 2015, Visual Wandering (Listasafn ASÍ), 2014, (In)dependent People, Listahátíð í Reykjavík, 2012 og Moment-Ynglingagatan 1 (Moderna Museet, Stokkhólmi), 2011.

Erla nam myndlist við Konunglega myndlistarháskólann í Stokkhólmi og San Francisco Arts Institute og lauk gráðu frá Myndlistarháskólanum í Valand í Gautaborg árið 1998. Hún býr og starfar í Berlín. Á árunum 2011 til 2015 starfaði hún sem gestakennari í Myndlistarháskólanum í Umeå í Svíþjóð.

Sýningu lýkur 28. október.
Opið 10-19 mán-fim, 10-17 fös, 11-14 lau.
______________________ ___
Elsa Nielsen DÍLAR23. ágúst 2018
Elsa Nielsein - D Í L A R

Elsa Nielsen er fædd í Reykjavík árið 1974. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 1999 og rekur nú sína eigin hönnunarstofu. Strax á námsárum sínum fór Elsa að sýna verk sín og á nú að baki fjölda sam- og einkasýninga á sviði málaralistar. Elsa var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2016.

Á sviði málaralistarinnar hefur Elsa einkum einbeitt sér að því að mála uppstækkaðan grafískan myndflöt á striga með akrýllitum. Verkunum ljær hún dýpt með því að byggja flötinn upp með sparsli og sandi. Þó málverk Elsu standi sjálfstæð sýna þau glöggt hvernig henni tekst að færa margra ára reynslu og kunnáttu með grafíska miðlun yfir á annað stig.

Díll, depill eða pixill (eða tvívíð myndeind) er minnsta eining í stafrænni mynd, og er alltaf einlit.

Sýningin stendur til 23. september 2018

Opið 10-19 mán-fim, 10-17 fös, 11-14 lau.

_________________________

Björg Ísaksdóttir 90ára - Afmælissýning í Gallerí Gróttu31. maí 2018
Björg Ísaksdóttir 90 ára- Afmælissýning


Seltirningurinn Björk Ísaksdóttir er mörgum vel kunn og ekki síst fyrir listsköpun sína. Björg er fædd þann 31. Maí 1928 og hefur að mestu unnið við gerð leikhúsbúninga og við allskyns hönnun og saumaskap. Lengst af vann hún hjá Leikfélagi Reykjavíkur, við Þjóðleikhúsið, í New York og einnig í Svíþjóð þar sem hún vann m.a. í sænsku konungshöllinni. Samhliða vinnu sinni stundaði Björg nám í teikningu, málun og höggmyndagerð í Myndlistarskólanum í Reykjavík á árunum 1967-1977. Eftir 1978 stundaði hún nám í Svíþjóð, Finnlandi, New York og Ítalíu. Björg var með glerlistavinnustofu á Laugavegi 27 og hélt þar fjölda sýninga á gleri og málverkum. Björg hefur sýnt verk sín víða, bæði hérlendis og erlendis m.a. í Svíþjóð og Ítalíu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Björg var einn af stofnendum Myndlistaklúbbs Seltjarnarness sem starfaði frá árinu 1974.


Á afmælissýningunni má sjá bæði ný og eldri verk eftir Björgu en hún slær hvergi slöku við þrátt fyrir 90 árin.

Sýningunni lýkur 30. júlí 2018.

 

_________________________

9. maí 2018
List án landamæra - SJÖ LISTAMENN

List án landamæra í Gallerí GróttuÁ samsýningunni sjö listamenn sýna listamenn verk sem tengjast á einn eða annan hátt sjálfstæði, hvort heldur sem er hugtakinu sjálfu, sjálfstæði einstaklingsins eða sjálfstæði þjóðar. Listamennirnir sjö nálgast viðfangsefnið á ólíkan hátt og er bæði um að ræða verk sem unnin hafa verið sérstaklega fyrir sýninguna sem og eldri verk. Listamennirnir koma allstaðar að af landinu en eiga það allir sameiginlegt að hafa verið valdir listamenn hátíðarinnar List án landamæra. 
Ísak Óli Sævarsson var valin listamaður hátíðarinnar árið 2012. Hann er í stöðugri þróun sem listamaður og listin þroskar hann sem einstakling. Ísak er afkastamikill listamaður og eru fjölmörg verka eftir hann í einkaeigu sem og í eigu hins opinbera um land allt. Ísak Óli vinnur helst með málverk og teikningar og er endurtekning áberandi stef í verkum hans.

Sýningin Sjö listamenn er styrkt af Fullveldishátíðinni og er hluti af dagskrá 100 ára Fullveldisafmælis Íslands.
_________________________

12. apríl 2018
Sýningaropnun í Gallerí Gróttu - TímahjóliðKristinn Örn Guðmundsson - TÍMAHJÓLIÐ

SÝNINGAROPNUN Í GALLERÍ GRÓTTU 12. apríl


Kristinn Örn Guðmundsson opnar ljósmyndasýningu sína Tímahjólið 12. apríl næstkomandi. Á sýningunni verða m.a. ljósmyndir sem sem listamaðurinn tók á miðaldardögum á Gásum við Eyjafjörð. Líf og starf fólks í Gásakaupstað miðalda er endurvakið með listrænu auga listamannsins. 


Kristinn er með verslunarskólapróf fra Verslunarskóla Íslands og er tæknistúdent frá Tækniskóla Íslands. Hann stundaði nám hjá SAE Institute/Quantm College á Englandi í 3víddar hönnun og hreyfimyndagerð, þá tók hann einnig heimildamyndagerð frá dfg, (Documentary Filmmakers Group). Hann hefur unnið sem kvikmyndagerðamaður, grafískur hönnuður ásamt ýmsu öðru. Eitt af áhugamálum hans er ljósmyndun og stafræn myndvinnsla á þeim, þ.e.a.s. hann vinnur ljósmyndir sinar þannig að úr þeim gerir hann stílfærð listaverk.
Kristinn tók þátt í samsýningu með 73 alþjóðlegum listamönnum í San Benedeto del Tronto á Ítalíu 2017 þar sem hann sýndi ljósmyndaverk frá miðaldadögum á Gásum við Eyjafjörð, verslunarstað frá miðöldum. Þessi myndaröð frá Gásum er sýnd á sýningunni í Gallerí Gróttu ásamt öðrum listaverkum sem hann hefur unnið.


Sýningin stendur til 5. maí 2018. 

_________________________

8. mars 2018
Margrét Zóphóníasdóttir - SJÓNARSVIÐ

Margrét Zóphóníasdóttir
Sýningaropnun fimmtudaginn 8. mars kl. 17:00

Margrét Zóphóníasdóttir - Sjónarsvið - Flamingó
Margrét Zóphóníasdóttir lærði í Danmarks Lærerhøjskole, 2000-2001, Danmarks Designskole, 1977-1981 og í Myndlista- og handíðaskóli Íslands, 1975-1977.

Hún hefur haldið fjölda sýninga m.a. í Nýlistasafninu, Norræna húsinu, Ásmundarsal, Gerðubergi, Kjarvalsstöðum, í Ásmundarsal og fleiri stöðum. Margrét hefur kennt í myndlistarskólum í Danmörku og á Íslandi. Hún hefur hlotið styrki frá Myndstef og menntamálaráðuneytinu og sótt námskeið og ráðstefnur í tengslum við myndlist.

Myndefni sýningarinnar samanstendur af ýmsum minningum listamannsins og eru málverkin öll unnin með olíu á striga.

Sýning Margrétar stendur til 8. apríl 2018.

___________________________
25. janúar 2018
Sigurborg StefánsdóttirSigurborg Stefánsdóttir - MálverkSigurborg Stefánsdóttir - VETRARMYNDIR

Sýningaropnun fimmtudaginn 25. janúar kl. 17:00

Unnur Birna og Sigurgeir Skafti flytja nokkur lög við opnunina.


Sigurborg Stefánsdóttir stundaði nám í Kaupmannahöfn og útskrifaðist frá Skolen for Brugskunst ( Danmarks Design skole ) árið 1987.
Sigurborg hefur fengist við myndskreytingar og bókagerð og var kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1989-2000 og stundakennari við Listaháskóla Íslands 2000 - 2011. Hún hefur bæði fengið styrki til námsdvalar í Bandaríkjunum og Japan. Hún hefur haldið 14 einkasýningar, á Íslandi, Danmörku og Ítalíu og tekið þátt í fjölda samsýninga víðsvegar um heim. Aðferðir við myndsköpun hennar eru ýmiss konar; málun, teikning, grafík, klippimyndir, ljósmyndir ofl. Myndefnið er fjölbreytt, ýmist fíguratíft eða nonfíguratíft.

Nánar um listamanninn:
Nám hjá Hans Chr Höjer listmálara í Kaupmannahöfn 1980-1984
Gestanemandi í Kunstakademiets arkitektskole, Visuel kommunikation 1980-1981
Gestanemandi í teiknikennslu í Köbenshavn Læreseminarium 1981-1982
Skolen for Brugskunst (Danmarks Designskole) í Kaupmannahöfn 1982-87,Teikni og grafík deild 
og gestanám í textíldeid. 
Haystack Mountain school of Crafts, Maine U.S.A. júlí 1990. Námskeið í bókagerð. 
(Styrkur frá Íslenska-Ameríska félaginu ).
Artist-in Residence, 6 vikna námskeið í japönskum tréskurði, Japan 2001.( Styrkur frá Japanska ríkinu.)

___________________________

Málverk - Guðrún Einarsdóttir

16. nóvember 2017

Guðrún Einarsdóttir - Málverk

Guðrún Einarsdóttir f. 1957 útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988. Hún stundaði einnig nám í fjöltæknideild 1988-89 við sama skóla. Síðan hefur Guðrún unnið óslitið að myndlist og sýnt reglulega hér heima og erlendis.

 

Verk Guðrúnar á sýningunni sýna ríka efniskennd og áþreifanlegt yfirborð fullt af smáatriðum. Viðfangsefnin eru náttúran og náttúruöflin, þar sem Guðrún beitir margvíslegum efnsitökum og vinnur með fjölbreytt birtingarform olíuefnanna.

www.geinars.com

gudrun@geinars.com

Fiskislóð 45L, 101 Reykjavík, s. 699 2880


Sýningin í Gallerí Gróttu stendur til 22. desember
___________________________

12. október 2017

Sporbaugur

Sporbaugur - Þorvaldur Skúlason
Titilll sýningarinnar, Sporbaugur, vísar í þá listsögulegu framvindu sem einkenndi verk Þorvaldar Skúlasonar (1906-1984) með því að benda á hreyfinguna frá stirðum formum geometríunnar til sveigðra forma sem virðast vera á fullri ferð. En einnig minnir titillinn okkur á þá tækniöld sem Þorvaldur lifði á og kann hugmyndin um sporbauga að kalla á hugrenningatengsl á milli lista-verka Þorvaldar og geimflauga og gervitungla. Verkin í sýningunni eru sett upp með þeim hætti að þau tala saman; minni myndirnar eru yngri en tvö stóru verkin og segja þær ákveðna sögu um það sem koma skal í myndlist Þorvaldar. Sterk líkindi eru á meðal minni myndanna og stærri verkanna hvað varðar formfræði og litameðferð þótt verkin séu af ólíkum toga. Það má því segja að listamaðurinn hafi blásið lífi í stíf og útreiknuð form fortíðar sinnar og er það engu líkara en þau þeytist áfram inn í framtíðina enn þann dag í dag. 

Þorvaldur Skúlason er talinn á meðal okkar fremstu abstraktmálara og var hann rannsakandi hins tvívíða flatar og sérfræðingur í jafnvægisæfingum lita, forma og spennu. Hann var módernisti og nútímamaður síns tíma -og þótt hann hafði sitthvað að segja um sam-tímalist yngri kynslóðarinnar má sjá að efnistökin voru hugsanlega þau sömu og hjá yngri listamönnum; nútíminn og tæknin - sem í verkum Þorvaldar birtist sem óhlutbundin tjáning þess sem hann fann í kringum sig.

Verkin í sýningunni eru öll úr einkasafni Áslaugar Sverrisdóttur og eru flest komin frá foreldrum hennar, hjónunum Sverri Sigurðssyni og Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem voru miklir listunnendur, bæði sem safnarar og bakhjarlar íslensk listalífs á árum áður, en hjónin bjuggu á Seltjarnarnesi og studdu vel við menningarlíf bæjarins. Gestum sýningarinnar er einnig bent á að hjónin gáfu Bókasafni Seltjarnarness veglega listaverkagjöf árið 1985 í tilefni af aldarafmæli þess og geta gestir rýnt betur í list Þorvaldar Skúlasonar inni í unglingadeild bókasafnsins þar sem stórt málverk frá árinu 1965 hangir. Árið 1980 gáfu hjónin Listasafni Háskóla Íslands stofngjöf sem taldi um 140 listaverk og þar af  voru 117 verk eftir Þorvald Skúlason. Hið ábyrgðarfulla viðhorf þeirra hjóna til listarinnar hefur svo haldist innan fjölskyldunnar sem telur sig safnverði þess mikla safns sem Sverrir og Ingibjörg létu eftir sig og líta meðlimir hennar á það sem skyldu sína að leyfa listunnendum að njóta þeirra þjóðargersema sem fjölskyldan geymir. 

Sýningin er unnin á vegum Seltjarnarnesbæjar í samvinnu við Áslaugu Sverrisdóttur og fjölskyldu. Sýningarstjóri er Sigríður Nanna Gunnarsdóttir. 

Sýningin stendur til 11. nóvember 2017.

___________________________

7. september  2017

IYFAC - Ég sagði það áður en þú gast sagt það

Myndlistarhópurinn IYFAC opnaði sýninguna Ég sagði það áður en þú gast sagt það í Gallerí Gróttu kl. 17.00 þann 7. september. Sýnendur eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir. Verkin á sýningunni eru unnin út frá vangaveltum um þungann og merkinguna í hversdagslegum hlutum og djúpstæða þörf fyrir að átta sig á öllu því sem smátt er í von um að fá botn í hið stóra. Gjörningur var fluttur við opnunina. Sýningin mun standa yfir í mánuð og eru allir velkomnir.

Um IYFAC:

IYFAC stendur fyrir International Young Female Artists Club. Við erum reyndar ekki mjög alþjóðlegar því allar erum við íslenskar. Eins erum við ekkert sérlega ungar (þótt okkur líði reyndar alltaf eins og 23 ára). Allar lítum við á okkur sem listrænar en komumst ekki upp með að vinna eingöngu við list og höfum þvi önnur starfsheiti. Svo er matsatriði hvort að hópinn mætti flokka sem klúbb. En við erum allar kvenkyns, þú getur verið viss um það. Sýningin okkar heitir Ég sagði það áður en þú gast sagt það sem vísar í þá tilhneigingu kvenna að reyna að finna út hvaða gagnrýni þær muni fá og afsaka sig fyrirfram. Nákvæmlega eins og við gerðum í þessum texta.

Um okkur:

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún er útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum síðan sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og kvik-teikningar. Hún kallar sig myndskáld. http://www.hallabirgisdottir.org/

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er sviðshöfundur. Hún lauk BA-námi úr Listaháskóla Íslands árið 2011 og MA-námi úr Háskóla Íslands í ritlist. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum innan leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, sýninga og unnið innsetningar bæði á Íslandi og erlendis.
http://www.rahaharpa.com/

Ragnheiður Maísól Sturludóttir lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í mörgum samsýningum síðan. Hún er einnig meðlimur í Sirkus Íslands og Reykjavík Kabarett. Hún vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar og fjalla verkin hennar um töfrana í hversdeginum og mannlegri hegðun. https://www.behance.net/maisol

Sigrún Hlín Sigurðardóttir er myndlistarkona og hefur unnið með bæði textíl og texta í verkum sínum, meðal annars í innsetningum, leikhúsi og útvarpi. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands og í íslensku frá Háskóla Íslands og lagði þar að auki stund á nám í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík.

Steinunn Lilja Emilsdóttir er með BA-próf í guðfræði og MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands og BA-próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í sýningum bæði sem listamaður og sýningarstjóri. Skrif eftir hana hafa birst í ýmsum tímaritum og safnritum. Hún leggur áherslu á texta í list sinni, bæði í verkunum sjálfum og sem innblástur.

Ljósmyndir tók Birkir Brynjarsson.

Sýningin stendur yfir til 7. október 2017 - Allir velkomnir___________________________

Bleikur sandur - Aðalheiður ValgeirsdóttirAðalheiður Valgeirsdóttir - Bleikur sandur

10. júní kl. 15 - Bleikur sandur

Laugardaginn 10. júní kl. 15 verður Aðalheiður Valgeirsdóttir með leiðsögn um sýningu sína Bleikur sandur sem nú stendur yfir í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi.

Á sýningunni getur að líta málverk sem Aðalheiður hefur málað með olíu á striga á síðastliðnum tveimur árum. Á laugardaginn verður opið í Gallerí Gróttu frá kl. 11-16. Annar opnunartími er mánud.-fimmtud. 10-19 og föstud. 10-17. Sýningin stendur til 16. júní. Aðgangur er ókeypis.
https://www.facebook.com/GalleriGrotta/


24. maí 2017

Bleikur sandur - Aðalheiður Valgeirsdóttir

Bleikur sandur

„Á göngum sínum um árbakka Hvítár í Biskupstungum í nágrenni vinnustofu Aðalheiðar Valgeirsdóttur, lítur hún niður í svörðinn og gaumgæfir síbreytileg spor náttúrunnar í landslaginu. Hún kemur aftur og aftur á sama stað en á ólíkum árstíma og nemur breytingarnar. Náttúran tekur stundum á sig órætt form sem rambar á mörkum hins raunverulega og hins huglæga. Skynjun, kortlagning og úrvinnsla listamannsins verður frásögn í tíma af hrynjandi náttúrunnar og persónuleg upplifun af stað sem smýgur inn í verkin.“

Þessi orð ritar listfræðingurinn Aldís Arnardóttir m.a. í sýningarskrá sem fylgir sýningu Aðalaheiðar Valgeirsdóttur (1958), Bleikur sandur, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu á Seltjarnarnesi miðvikudaginn 24. maí kl. 17 en þar er hringrás náttúrunnar í forgrunni.

Á sýningunni getur að líta málverk sem Aðalheiður hefur málað með olíu á striga á síðastliðnum 2 árum. Sýningin stendur til 16. júní.

Aðalheiður Valgeirsdóttir (1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og BA-gráðu í listfræði með menningarfræði sem aukagrein árið 2011. Hún hefur verið mikilvirk í félagsstörfum myndlistarmanna um árabil.
Í upphafi myndlistarferils síns vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni, auk þess sem hún vinnur einnig með teikningar og vatnsliti. Hún hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Undanfarið hefur Aðalheiður einnig tekið að sér sýningarstjórnun og var ásamt Aldísi Arnardóttur sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir sem sett var upp í Listasafni Árnesinga á síðasta ári og sýningarstýrði sýningunni Heimkynni – Sigrid Valtingojer sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga. Aðalheiður á nú sæti í innkaupanefnd Listasafns Íslands.

Sýningin stendur til 16. júní 2017.
Opið mánudaga til fimmtudaga 10-19, föstudaga 10-17 og laugardaga 11-14.

Sjá nánar á: https://www.facebook.com/GalleriGrotta/

______________________________

27. apríl 2017 

Þetta vilja börnin sjá!Þetta vilja börnin sjá!

Í tilefni Barnamenningarhátíðar á Seltjarnarnesi var farandsýningin Þetta vilja börnin sjá!

sett upp í Gallerí Gróttu. Hátíðardagurinn hófst með opnun sýningarinnar  kl. 10 um morguninn. Þar gat að líta myndir eftir 24 myndskreyta úr 32 barnabókum sem komu út árið 2016. Sýningunni lauk 19. maí.

Myndskreytar:

Andri Kjartan Andersen • Ari Hlynur Guðmundsson Yates • Auður Þórhallsdóttir • Bergrún Íris Sævarsdóttir • Brynhildur Jenný Bjarnadóttir • Elín Elísabet Einarsdóttir • Elsa Nielsen • Freydís Kristjánsdóttir • Hafsteinn Hafsteinsson • Halla Sólveig Þorgeirsdóttir • Heiðdís Helgadóttir • Katrín Matthíasdóttir • Kristín Arngrímsdóttir • Kristín Ragna Gunnarsdóttir • Lára Garðarsdóttir • Linda Ólafsdóttir • Lína Rut Wilberg • Logi Jes Kristjánsson • Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir • María Sif Daníelsdóttir • Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson • Sigrún Eldjárn • Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir • Þórir Karl Bragason Celin

Þetta vilja börnin sjá!

___________________________

22. mars 2017

Hönnunarmars 2017S H I F T á HönnunarMars

Fimm íslenskir og sex skoskir hönnuðir koma í fyrsta sinn saman í nýrri, tilraunakenndri sýningu í Gallerí Gróttu. Sýningin ber yfirskriftina SHIFT en hönnuðirnir sem verk eiga á sýningunni vinna verk sín í leir, tré, eðalmálma og textíl en meginþema verkanna liggur í breyttri áherslu, stefnu eða fókus.

Shift er verkefni sem er sprottið upp úr HönnunarMars og eru aðstandendurnir með fjölbreyttan bakgrunn. Tilgangur sýningarinnar er að gefa ólíkum hönnuðunum kost á faglegu samtali og útbúa farveg þar sem þeir geta veitt hver öðrum innblástur. Fyrsta sýningarverkefni hópsins er í Gallerí Gróttu en með áframhaldandi samstarfi í gegnum röð sýninga og viðburða í Skotlandi og á Íslandi munu hönnuðirnir fá tækifæri til að kynnast heimkynnum, umhverfi, hæfileikum, reynslu, efnisnotkun og tækni hvers annars.

Samstarfsverkefnið er í senn vettvangur fyrir ferskar hugmyndir og nýja nálgun í skapandi framleiðslu. Því er einnig ætlað að efla og búa til tengingar við nýja markhópa og stuðla að nánari tengslum milli landanna.

Sýningin stendur til 22. apríl.


____________________________
9. febrúar 2017

Stjörnuglópar - Stefán Boulter


Stefán Boulter

Meginuppistaða sýningarinnar er myndröð eða fjölskylda af verkum, sem hafa verið unnin á síðustu tveimur árum. Grunnstef þeirra eru rauðmáluð andlit kvenna sem virðast vera á hreyfingu og beina sjónum sínum í átt að himinhvolfinu. Rauði liturinn hefur margvíslega táknræna skírskotun, en er einnig þekktur sem litur lífsins, hugrekkis og viljastyrks. Þannig búa verk Stefáns yfir táknmyndum, sem eru frásagnarlegs eðlis og byggja á persónulegri reynslu og þekktum, fornum minnum.

Stjörnuglópar - Stefán Boulte

Hugleiðingar um náttúruna eru Stefáni ofarlega í huga og endurspeglast í dýrum, viðveru hluta og áru þeirra. Stefán hefur víða leitað fanga við gerð verkanna en þau eru meðal annars innblásin af verkum listmálarans George Catlin ( 1796-1872 ) sem ferðaðist meðal innfæddra í Norður Ameríku snemma á 19. öld og málaði fólkið sem byggðu álfuna áður en heimsálfan var öll numin Evrópubúum. Þessi horfni heimur hefur löngum vakið forvitni listamannsins allt frá barnæsku, er hann ungur gruflaði í bókum föður síns.

Stefán Jóhann Boulter er fæddur í Reykjavík árið 1970. Hann lærði grafíska hönnun í Tempe, Arizona í Bandaríkjunum, var við listnám í Flórens á Ítalíu og varð síðar aðstoðarmaður Odds Nerdrum í Noregi og á Íslandi. Stefán hefur sýnt í listasöfnum og galleríum bæði hér heima og erlendis, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Stefán er búsettur á Akureyri og kennir með reglulegu millibili við Myndlistarskólann á Akureyri.

Sýningunni lýkur 11. mars.


____________________________

12. janúar 2017
Álengd, Gallerí Grótta, Anna Júlía FriðbjörnsdóttirÁlengd, Gallerí Grótta, Anna Júlía_Corda Solitaria_Spiritual

Álengd - Anna Júlía Friðbjörnsdóttir


Einkamálaauglýsingar úr Loneley Hearts dálkum bresku dagblaðanna vöktu talsverðan áhuga hjá listamanninum Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur sem ákvað að halda sumum þeirra til haga. Söfnunin hennar á auglýsingunum stóð yfir árin 1999-2003, án sýnilegs tilgangs þó. Fyrir réttu ári fann Anna Júlía þeim farveg þegar á fjörur hennar rak bókin Roman Portraits. Bókin er prentuð árið 1941 og í henni er að finna einstakar ljósmyndir af rómverskum höggmyndum, sem virðast vakna til lífsins á pappírnum í meðförum ljósmyndarans. Þrátt fyrir að margar aldir skilji að höggmyndirnar og auglýsingatextann virtust, við nánari eftirgrenslan listamannsins, fyrirmyndirnar á ljósmyndunum geta verið höfundar einkamálaauglýsinganna; þar sem einstaklingurinn lýsir á einlægan hátt útliti, mannkostum og væntingum sínum. Eftir þessa uppgötvun vann Anna Júlía myndaseríuna Corda solitaria með teiknuðum texta og ljósmyndum úr bókinni. Sá farvegur sem listamaðurinn velur í framsetningu sinni á viðfangsefninu er á margan hátt gráglettinn, en hún er ekki síður athyglisverð sú staðreynd að verkin byggja á tilveru einstaklinga sem árhundruðir skilja að, en mynda þrátt fyrir það órofa heild. Sýning Önnu Júlíu í Gallerí Gróttu ber yfirskriftina Álengd, sem er mælieining úr stjörnufræðinni, en á sýningunni getur einnig að líta fundnar bækur með ljósmyndum af tunglinu, sem fléttast á margræðan hátt inn í líf þeirra einstaklinga sem Anna Júlía teflir fram í myndaseríunni Corda solitaria.
Sýningunni lýkur 4. febrúar.
____________________________

8. desember 2016

Gallerí Grótta, Halldór Ragnarsson - ÚtskýringarÚtskýringar - Halldór Ragnarsson


Halldór Ragnarsson, Útskýringar - Opnun í Gallerí Gróttu fimmtudag 8. desember kl. 17
Kveikjuna að sýningunni Útskýringar, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 8. desember kl. 17, rekur listamaðurinn Halldór Ragnarsson til átaks á vegum SÍM sem nefnist Við borgum myndlistarmönnum, ásamt svari úr tölvupóstasamskiptum á milli Halldórs og sviðsstjóra menningarsviðs Seltjarnarnesbæjar. Í þeim fékk listamaðurinn höfnun við fyrirspurn sinni um það hvort Seltjarnarnesbær hygðist greiða honum efniskostnað eða laun vegna fyrirhugaðrar sýningar í Gallerí Gróttu.[1] Höfnunin virkaði myndrænt á Halldór sem kaus að vélrita svarið upp og vinna það áfram eins og um listaverk væri að ræða. Upphaflega hugmynd Halldórs var að kanna möguleg mörk á milli innihalds og útkomu. Eftir að hafa lokið verkinu umhverfðist svarið í nokkurs konar útskýringu á verkinu en var um leið forsenda þess. Niðurstaðan varð þannig að grunnstefi sýningarinnar, Útskýringar. 
Halldór Ragnarsson er fæddur 1981 í Reykjavík. Hann lauk B.A. gráðu (2007) og M.A. gráðu (2014) frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands eftir að hafa numið heimspeki við Háskóla Íslands. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Útskýringar er hans ellefta einkasýning.
____________________________

11. nóvember 2016
Sjónarhorn - leit að formi - Anna Rún Tryggvadóttir 

Anna Rún Tryggvadóttir - Sjónarhorn - leit að formiHinn eilífi núningur huglægrar og hlutlægrar þekkingar er útgangspunktur verkanna á sýningu Önnu Rúnar í Gallerí Gróttu. Þar getur að líta verk úr rannsóknarferli sem fjallar um það hvernig ólík sjónarhorn hafa áhrif á túlkunarmöguleika viðfangsefnis - sem í þessu tilfelli eru geometrísk form. 

Verkin eru tilraun til að leysa upp eða afbyggja framsetningu geometrískra forma og beina sjónum að því hversu viðkvæmir en órjúfanlegir snertifletir huglægrar og hlutlægrar hugmyndafræði eru. Hvert verk fyrir sig veitir tímabundna niðurstöðu, einskonar heimild um rannsóknarferli. Verkin eru unnin með hnitmiðuðum ljósgjafa sem skilgreinir sjónarhorn og varpar skuggakasti af geometrísku formi á pappír. Geómetrísku formin eru bæði fundin og tilbúin; kassalaga pakkning utanaf ljósaperu, hringlaga nestisbox, kremtúpa, sívalingslaga ilmvatnsprufa, heimagerður píramídi og svo framvegis. Með ólíku sjónarhorni ljóssins og aflöguðum fleti pappírs gefast forsendur til að leysa upp hina skýru eftirmynd upprunalega formsins. Ferlið er endurtekið eða framkvæmt einu sinni. Eftir stendur teikning af formi sem er óskilgreinanlegt en á þó uppruna sinn í „sönnum” aðstæðum. 

Sýningin endurspeglar leit og leik með sjónræna framsetningu á kerfisbundinni hugsun, þetta er leikur með form í leit að myndefni sem stendur vörð um hið óþekkta, óskilgreinanlega.

Í verkum mínum endurspeglast djúpstæð þörf fyrir sjónræna rannsókn á efnivið og framsetningu sem á sér ekki beinar tengingar eða vísanir í gefna þekkingu. Verkin markast oft af ferlum sem eru á sífelldri hreyfingu, og ná jafnvel aldrei „endanlegri” mynd. Ég tel það nauðsynlegt að næra, styrkja og verja sjónræna þekkingu (eða and-þekkingu) sem á sér ekki augljósar tengingar eða skýringar. Einskonar orðaforða hins óþekkjanlega. Allt í kringum okkur endurspeglast skilgreiningar, skipulag, sundurliðun og kortlagning af veruleikanum í óteljandi formum. Í gegnum þau óteljandi kerfi sem við starfrækjum og notum til að öðlast yfirsýn og reyna að höndla betur hverfulleika og hendingu heimsins er auðvelt að gleyma þeirri grundvallar staðreynd að öll þau hlutlægu þekkingarform sem við starfrækjum eiga uppruna sinn í ófrávíkjanlegri huglægri upplifun mannsins af heiminum og umhverfi sínu. Huglægri vídd mannlegrar tilveru þar sem það eitt er víst að ekkert er öruggt og að sjónarhorn okkar hverju sinni er takmarkað og jafnvel villandi.
   Anna Rún Tryggvadóttir
Berlín 2016

Myndlistarmaðurinn Anna Rún Tryggvadóttir starfar jafnt á Íslandi, í Montreal í Kanada og Berlín í Þýskalandi. Hún lauk BFA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2004, og MFA gráðu frá Concordia háskóla í Montreal 2014.____________________________

Gallerí Grótta - Messíana Tómasdóttir6. október 2016 

Hugform - máluð og klippt - Messíana Tómasdóttir 

Verkin, sem unnin eru á síðastliðnum tveimur árum, byggjast á klippimyndatækni þar sem form og grunnar eru máluð með akríllitum á pappír. Form, liti og myndbyggingu sækir Messíana í innri veruleika og hugræna lifun. Myndir hennar eru ekki aðeins leikur með skæri og form heldur bera í sér andlegan boðskap og viðvist sem snerta áhorfandann á heilandi hátt. 


Messíana Tómasdóttir - Hugform máluð og klipptSýningarstjóri er dóttir Messíönu, listfræðingurinn Ásdís Ólafsdóttir.


Messíana stundaði nám í myndlist, leikmynda- og búningahönnun og brúðuleikhúsi hér á Íslandi, í Danmörku og í  Frakklandi. Hún er höfundur að leikmyndum og búningum um 80 leiksýninga, ópera og sjónvarpsverka hér á landi og erlendis. Hún hefur haldið 15 myndlistarsýningar auk samsýninga og haldið námskeið og fyrirlestra um litafræði og brúðuleikhús hér heima, á Norðurlöndunum og víðar. Messíana hefur notið fjölda starfs- náms- og ferðastyrkja og var Borgarlistamaður Reykjavíkur 1983, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2003 og Heiðurslistamaður Félags leikmynda- og búningahöfunda 2014.
Sýningin stendur til 4. nóvember og er opin mán-fim 10-19, fös 10-17 og lau 14-17.
Við opnun sýningarinnar og alla laugardaga kl. 14 sýnir Messíana leikbrúðuverk, samtal sitt við bláu stúlkuna, en Messíana fullgerði verk um hana sem Borgarlistamaður.


____________________________

Ragnhildur Ágústsdóttir - Nema fuglinn fljúgandi8. september 2016 - 
Nema fuglinn fljúgandi - Ragnhildur Ágústsdóttir 


Ragnhildur Ágústsdóttir - Rauðbrystingar
Listamaðurinn Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir er fyrst til að sýna verk sín í Gallerí Gróttu á nýju sýningartímabili salarins, sem nú fer í hönd. Viðfangsefni Ragnhildar á sýningunni eru náttúrumyndir þar sem íslenskir fuglar eru í lykilhlutverki. Fuglar skipa ríkan sess í  þjóðsögum og hjátrú Íslendinga en á sýningunni eru þessar tengingar raktar í litlu riti sem tekið hefur verið saman. 

Ragnhildur vinnur verk sín með vatnslitum, gouache og kaffi á pappír, en verkin á sýningunni eru flest gerð á síðastliðnum þremur árum. Ragnhildur á að baki nokkrar einka- og samsýningar þar sem hún sýndi náttúrumyndir sem að stórum hluta voru unnar með olíulitum. Talið er að vatnslitir séu ein elsta listgrein mannsins að steinhögginu undanskildu. Það sem einkennir þá er hin mjúka, viðkvæma og gagnsæja áferð. Náttúrumyndir Ragnhildar á sýningunni varpa ljósi á ótal blæbrigði vatnslitanna og miðillinn nýtur sín sérlega vel í fjölbreytilegri lita- og mynstursamsetningu fuglanna. Verkin eru unnin af einstakri nákvæmni og tilfinningu fyrir viðfangsefninu þar sem fuglarnir eru ýmist í kyrrstöðu eða ærslafullum leik. Í hugum margra eru dýrgripir menningararfsins skráðir með olíu á striga, en vert er að rifja upp að listamenn á borð við Finn Jónsson, Gunnlaug Scheving og Svavar Guðnason skildu eftir sig mörg áhrifamikil vatnslitaverk. 

Í tengslum við sýningu Ragnhildar hafa margir af dýrgripum Náttúrugripasafns Seltjarnarness verið dregnir fram í dagsljósið og eru nú sýndir í Bókasafni Seltjarnarness, sem stendur við sýningarsalinn. Má þar nefna örn, himbrima, álft á hreiðri, uglur og fleiri tegundir.

Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir (1976) er fædd í Stykkishólmi en býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá Roger Williams University í Bandaríkjunum árið 2002. Hún hefur haldið einkasýningar í Gallerí Fold í Reykjavík og í Norska húsinu í Stykkishólmi en auk þess hefur hún tekið þátt í samsýningum. 

Sýningaropnun er fimmtudaginn 8. september kl. 17. Allir eru velkomnir.

____________________________
Sigurður Örlygsson - Málaðar klippimyndir

28. júlí 2016 - Málaðar klippimyndir -Sigurður Örlygsson 


Undirstöðuþættir málverksins þ.e.s. litur, form, bygging og hreyfing hafa alltaf höfðað sterkt til mín. Geometrían hefur ávallt verið til staðar hjá mér hvað sem ég mála. 
Sigurður Örlygsson
Sigurður Örlygsson opnaði sýningu sína Málaðar klippimyndir í Gallerí Gróttu í gær 28. júlí en þá fagnaði listamaðurinn jafnframt 70 ára afmæli sínu. Sýningin stendur til 19. ágúst.

____________________________

2. júní 2016
 NÆR-FJÆR - Árni Rúnar Sverrisson

Árni  Rúnar Sverrisson (f. 1957) lærði myndlist við Myndlista-og 
handíðaskóla Íslands og Myndlistakóla Reykjavíkur  og hefur sýnt víða frá því hann hélt sína fyrstu einkasýningu á Mokka 1989. Árni hefur fyrst og fremst unnið og sýnt á Íslandi, en einnig erlendis.  Árið 1999 dvaldi hann á Sikiley þar sem hann starfaði að list sinni og hélt sýningu í Palermo.   Hann á að baki hátt á annan tug einkasýninga,  auk þess sem hann hefur tekið þátt í samsýningum og samkeppnum.

Líkt og áður er náttúran nálæg í myndum Árna Rúnars.  Málverkin klippa 
áhorfandann frá sínu venjulega sjónarhorni á náttúruna og varpar honum 
inn í smáveröld steinanna og þeirra harðgerðu plantna sem þrífast á 
vindsorfnu og frostsprungnu yfirborði þeirra.  Þar sjáum við samhengið 
milli þess stóra og hins smáa og getum velt fyrir okkur undrum 
náttúrunnar sem endurspegla bæði reglu og óreglu sína hvert sem litið 
er, jafnvel í grjótinu undir fótum okkar. Undanliðin tvö ár hafa sumar myndanna fengið víðari skírskotun, það eru 
hugrenningar listamannsins um tengsl manns við náttúru.


Sýningunni lýkur 24. júní kl. 17:00.

____________________________
Recollection - Theresa Himmer í Gallerí Gróttu

4. maí 2016 

Recollection - Theresa Himmer 


Miðvikudaginn 4. maí kl. 17 verður opnuð í Gallerí Gróttu sýning á verkum listamannsins og arkitektsins Theresu Himmer. Um er að ræða nýja verkaheild sem samanstendur af ritverki, sem ber sama heiti og sýningin og tveimur ljósmyndaseríum sem tengjast innbyrðis. Theresa á að baki myndlistarnám frá School of Visual Arts og Whitney Museum í New York og arkitektanám frá arkitektaskólanum í Árósum. Verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum víða um heim og hér heima. 

Sýning Theresu Himmer, Recollection,  er ný verkaheild sem samanstendur af ritverki, sem ber sama heiti og sýningin, og tveimur ljósmyndaseríum sem tengjast innbyrðis. Saman mynda þessir þrír kjarnar sýningarinnar eins konar ritgerð um ferðalag, eða tilraun til að íhuga rýmisþætti minninga þar sem arkitektónískt rými og myndrými mætast. Með því að rannsaka aðferðir sem felast í því að mætast, deila, skilja að og gleyma finna verkin jafnvægi á milli tilrauna með strúktúr og ljóðrænnar endurspeglunar.

Ljósmyndaverkin byggja á rannsóknarferð listamannsins til Búlgaríu vorið 2015, í boði Ruse Art Gallery.

Ritverkið Recollection er unnið í samvinnu við Arnar Frey Guðmundsson, grafískan hönnuð og með stuðningi frá Statens Kunstfond, Danmörku.

Theresa Himmer
Theresa á að baki myndlistarnám frá Whitney Museum og School of Visual Arts í New York og arkitektanám frá arkitektaskólanum í Árósum. Verk hennar hafa verið sýnd víða á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Westfälische Kunstverein-Münster-Þýskalandi, Soloway Gallery og Art in General, New York. Hún hefur hlotið verðlaun og styrki frá m.a. Myndlistarsjóði Íslands, Statens Kunstfond (DK) og The American-Scandinavian Foundation.
_________________________________
Daði Guðbjörnsson í Gallerí Gróttu

7. apríl 
Ferð andans í frumskógi efnisins - Daði Guðbjörnsson


Daði Guðbjörnsson í Gallerí Gróttu – Fimmtudag 7. apríl kl. 17 

Listmálarinn Daði Guðbjörnsson (1954) hefur þegar skipað sér á bekk með athyglisverðustu myndlistamönnum sinnar kynslóðar. Hann hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og skapað sér sérstæðan og persónulegan stíl þar sem hugmyndir, tákn og tilvitanir eru honum óþrjótandi viðfangsefni. 

Á sýningunni hans, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 7. apríl kl. 17, kannar Daði nýjar lendur málaralistarinnar þar sem hann vinnur með kunnuleg tákn úr verkum sínum beint á ljósmyndir. Sýningin nefnist Ferð andans í frumskógi efnisins en þar skoðar listamaðurinn samhengið á milli lífsins og ferðalags sem bæði fela í sér að ná áfangastað sem oft er ekki fyrirsjáanlegur. Eftir nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Myndlista- og handíðaskóla Íslands nam Daði við Rijksakademi van Beldende Kunsten í Amsterdam til ársins 1984. Hann hefur haldið fjölda samsýninga og einkasýninga, oftast á Íslandi en einnig erlendis. 

Eftir Daða liggja bókverk og bókaskreytingar og stærstu listasöfn þjóðarinnar eiga verk eftir hann. Árið 1993 gaf Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningaskrá um listamanninn. 


Sýningaropnun fimmtudaginn 7. apríl kl. 17:00
Opið virka daga 10-19, föstudaga 10-17
Opið alla laugardaga frá kl. 14 til 16 
_________________________________

Hönnunarmars 10. mars - 1. apríl 2016

FRÍMÍNÚTUR - Þórunn Árnadóttir

Þórunn Árnadóttir sýnir nýjar viðbætur við vörulínuna sína "Sipp og Hoj!" sem unnin er í samstarfi við Egersund netaverkstæði á Eskifirði, Jónsver saumastofu á Vopnafirði og Þórhall Árnason smið á Egilsstöðum.

Þema vörulínunnar er "frímínútur" og í henni fléttast hefðbundið netagerðarhandverk og efni frá netaverkstæðinu saman við Austfirsk náttúruefni eins og lerki úr Hallormsstaðaskógi og hreindýraleður. Vörurnar eru allar hannaðar með það að markmiði að nýta staðbundið hráefni og handverk Austurlands á þann hátt að auðvelt sé að framleiða þær.

Hönnunarmars 2016 Sturla Már og Þórunn Árnadóttir

"Sipp og Hoj" var upphaflega frumsýnd á Hönnunarmars 2014 í Spark Design Space undir samstarfsverkefninu "Austurland: Designs from Nowhere" sem snerist um að rannsaka möguleika til smáframleiðslu á 

Austurlandi.Verkefnið hlaut Hönnunarverðlaun Íslands árið 2014.

PRESTAR OG PRJÁL - Sturla Már Jónsson

Sturla Már Jónsson (1947) nam trésmíði og síðan húsgagna- og innanhússhönnun við London College og Furniture. Hann hefur hannað innréttingar í hús af öllum gerðum og hannað húsgögn fyrir helstu húsgagnaframleiðendur landsins í meira en tvo áratugi. 

Sturla hefur einbeitt sér að hönnun húsmuna fyrir fjöldaframleiðslu og eru húsgögn hans notuð af þúsundum fólks á degi hverjum. Hann hefur verið fastagestur á Hönnunarmars undanfarin ár og unnið til ýmissa verðlauna fyrir hönnun sína.

Á sýningunni í Gallerí Gróttu sýnir Sturla á sér aðra hlið og bregður á leik í hönnun hluta sem hann smíðar sjálfur sérstaklega fyrir sýninguna. Þetta eru hugmyndir sem hafa legið í skúffu í skissuformi og ekki gefist tími til að sinna fyrr en nú. Hlutirnir eiga samhljóm hvað notkun og form varðar en samt er hver hlutur einstakur og ekki endilega reiknað 

með að smíði hans verði endurtekin. Smíðað er úr uppáhalds efni Sturlu: gegheilum við og málmi._________________________________

11. febrúar 2016
Reykjavík 1985-1990 - Húbert Nói Jóhannesson


Húbert Nói Jóhannesson - Reykjavík 1985-1990

Reykjavík 1985-1990 er yfirskrift sýningar Húberts Nóa Jóhannessonar sem verður opnuð í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 11. febrúar kl. 17. Á sýningunni eru nokkur verka Húberts Nóa frá árunum 1985-1990 og hafa sum þeirra ekki verið sýnd áður opinberlega. Verkin eru af stöðum í Reykjavík sem málaðir eru eftir minni en strax á námsárum sínum var það leiðarstef listamannsins að færa umhverfið, byggingarlist og landslag inn í manneskjuna og yfirfæra það aftur út í umhverfið, hafandi staldrað við um stund í efnaferli líkamans. 

Húbert Nói - 1989 VesturbærÁ þeim tíma, sem verkin vísa til, kom upp á yfirborðið stefna í myndlist er nefndist  neo geo eða ný geometria, sem er m.a. kennd við listamennina Helmut Federle, John Armleder, Gerwald Rockenschaub og Franz Graf. Áhrifa stefnunnar gætti talsvert hjá ungum myndlistarmönnum sem voru að hasla sér völl á Íslandi um miðjan níunda áratuginn og margir snérust á sveif með henni einkum eftir gestakennslu Helmut Federle við MHÍ 1984. 
Myndlistarmaðurinn Húbert Nói felldi þessa stefnu að sínum myndheimi þar sem borgarumhverfi og landslag er einfaldað í geometrisk form. Framsetning og viðfangsefni eru persónuleg en sjálfsprottin nálgun við listsköpun var ein meginstefa í hugmyndafræði nýja málverksins og pönksins, sem voru nánast samtíða neo geo stefnunni.  

Hugmyndalist (concept) var allsráðandi í listheimi áttunda áratugarins og voru verk Húberts Nóa, rómantísk og upphafin, meðvitað samtal eða andsvar við stefnuna eins og hún birtist honum.  Í viðtali sem tekið var við Húbert Nóa í Þjóðviljanum 1. ágúst 1987 sagði hann um verkin sín:    „Þetta eru hús í borginni, Skólavörðuhæðin, Elliheimilið Grund…Þjóðminjasafnið …….En ég mála þetta eftir minni, svona eftir að myndin af húsinu eða staðnum er búin að gerjast í undirmeðvitundinni í dálítinn tíma”. Til að undirstrika að upplifunin hafi farið í gegnum vefi líkamans lýsir Húbert Nói pensilskrift verkanna lagskiptri og gagnsærri  þannig í texta sýningarskrár (Gallerí Sævars Karls 1990):

 „Tími, tilfinningar, minningar hafa ákveðið gegnsæi: Hugsanir leggjast hver yfir aðra, þar er upplifunin, eilítið á skjön við hinn ytri veruleika… “ 

Samspil innri og ytri heims hefur verið viðfangsefni manna um aldir microcosmos og macrocosmos en Húbert Nói skoðar með aðferð sinni meðvitað færsluna milli þessara heima. Fyrirmynd verkanna er ekki hinn ytri heimur beint heldur minningin um hann, hún er síðan færð út í ytri heiminn í formi listaverks og verður þannig hluti af honum. 

Heiti verkanna hér er oft skilgreint með götuheiti eða götunúmeri viðfangsefnisins, minningarinnar. Síðar á ferlinum táknar Húbert Nói staðsetningar með hnattstöðu, lengdar- og breiddarbaugum, en með þeirri nálgun verður landslagsmálverk að rúmfræði eða geometriu.  Sýningarsalurinn sem mótíf  eða viðfangsefni kemur inn í myndheim Húberts Nóa 1985 og staðsetningarverk (site specific ) unnin í sýningarrými mynda óslitið ferli í höfundarverkinu. Með þessum verkum og síðar „málverkum af málverkum” gerir hann minni áhorfandans að beinum þátttakanda í ferlinu milli fyrirmyndar /eftirmyndar og hreyfingarinnar milli rýmis hins innri heims og rýmis hins ytri heims.  Í verkum Húberts er geometrian myndlíking (metafora) fyrir innviði manneskjunnar. Að nota minnið við gerð listaverks er að setja upplifun hennar í forgrunn, kortleggja hinn innri heim og staðsetja og skoða hugsanaferli.  Minnið er þannig hin persónulega upplifun en á sama tíma sammannlegt fyrirbæri (collective).

_________________________________

Elsa Nielsen bæjarlistamaður Seltjarnarness

10. janúar 2016

#einádag - Elsa Nielsen Bæjarlistamaður Seltjarnarness

Elsa Nielsen grafískur hönnuður og myndlistarmaður var í dag útnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness. Hún er tuttugasti Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina.

Elsa hefur sýnt og sannað með verkum sínum að hún er meðal okkar fremstu hönnuða í dag. Viðfangsefni hennar eru fjölbreytt og hafa hlotið verðskuldaða athygli hvort sem er á sviði grafískrar hönnunar, merkjahönnunar, auglýsingaherferða, málaralistar, stafrænnar myndvinnslu, teikninga, myndskreytinga, frímerkjahönnunar eða bókaútgáfu. Þannig vermdi litabók hennar  Íslensk litadýrð efstu sæti bóksölulista undir lok síðasta árs. Mörg hundruð manns fylgdust af áhuga með dagbókarfærslum hennar á Instagram og Facebook undir yfirskriftinni #einádag, þar sem hún skrásetti líf sitt með því að teikna eina mynd á dag allt árið um kring.  Í tilefni af útnefningunni hefur verið opnuð sýning á öllum dagbókarfærslunum 365 í Gallerí Gróttu og stendur sýningin yfir til 5. febrúar. 

Elsa er fædd í Reykjavík árið 1974. Hún útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 1999. Hún starfaði í 13 ár sem hönnunarstjóri á auglýsingastofu ENNEMM en frá september 2013 hefur hún rekið sitt eigið hönnunarfyrirtæki, Nielsen hönnunarstofu. Hún býr á Seltjarnarnesi ásamt eiginmanni og þremur börnum.

Á sviði málaralistarinnar hefur Elsa einkum einbeitt sér að því að mála uppstækkaðan grafískan myndflöt á striga með akrýllitum. Verkunum ljær hún dýpt með því að byggja flötinn upp með sparsli og sandi. Þó að málverk Elsu standi sjálfstæð sýna þau glöggt hvernig Elsu tekst að færa margra ára reynslu og kunnáttu með grafíska miðlun yfir á annað stig.

Verk eftir Elsu NielsenStrax á námsárum sínum fór Elsa að sýna verk sín og á nú að baki fjölda sam- og einkasýninga á sviði málaralistar. Á síðustu tveimur einkasýningum Elsu í Gallerí Gróttu og Mokka-Kaffi sýndi hún svo ljósmyndir unnar með stafrænni tækni. Þannig vann Elsa með mörg helstu  kennileiti Seltjarnarness og Reykjavíkurborgar og setti í nýjan og ævintýralegan búning. Verkin hafa hvarvetna vakið athygli og verið seld utan sem innanlands.

Elsa er einn af fáum frímerkjateiknurum landsins. Hún er félagi í FÍT (Félag íslenskra teiknara) og gegndi þar stjórnarsetu frá 2010-2011. Hún er fyrrum félagi SÍM (Sambands íslenskra myndlistarmanna) og hefur unnið við ýmis dómarastörf innan FÍT og einnig fyrir ÍMARK (samtök markaðsfólks á Íslandi). Í dag situr hún í stjórn SÍÓ ( Sambandi íslenskra Ólympíufara).

Elsa hefur hlotið margar viðurkenningar og verðlaun fyrir grafíska hönnun, bæði hérlendis og erlendis, en skemmst er að minnast tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013 fyrir Brosbókina, barnabók sem hún myndskreytti, hannaði og er meðhöfundur að. Að auki hefur hún myndskreytt og komið að útgáfu fjölmargra annarra barna- og unglingabóka. 

Farsæll ferill og velgengni Elsu hefur ekki einskorðast við sköpun á sviði hönnunar og lista, en margir þekkja hana betur fyrir afrek hennar á sviði íþrótta þar sem hún hampaði margsinnis Íslandsmeistaratitli í badminton og var fulltrúi Íslands í einliðaleik á Ólympíuleikunum í tvígang.

Menningarnefnd Seltjarnarness var einróma í vali á Bæjarlistamanninum 2016. Elsa hefur sýnt að hún er vel að nafnbótinni komin og Seltirningar mega vera stoltir af að eiga jafn hæfileikaríkan einstakling innan sinna raða. Auk nafnbótarinnar hlýtur Bæjarlistamaðurinn verðlaunafé að upphæð einni milljón króna. Við útnefninguna tilkynnti Elsa að nafnbótinni fylgdi mikill heiður og að eitt af verkefnum hennar á árinu væri að miðla og vinna með skólabörnum á Nesinu.

Gallerí Grótta er til húsa á Eiðistorgi, 2. hæð og er það opið mánudaga-fimmtudaga kl. 10-19 og föstudaga kl. 10-17. Fyrsta laugardag sýningarinnar, 16. janúar verður enn fremur opið frá kl. 11-16.

Fyrrum bæjarlistamenn Seltjarnarness eru:
Helgi Hrafn Jónsson, tónlistarmaður 2015
Ari Bragi Kárason, trompetleikari 2014
Sigríður Heimisdóttir, hönnuður 2013
Jóhann G. Jóhannsson, leikari 2012
Birna Hallgrímsdóttir, píanóleikari 2011
Freyja Gunnlaugsdóttir, klarínettuleikari 2010
Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona 2009
Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarkona 2008
Jóhann Helgason, tónlistarmaður 2007
Sigríður Þorvaldsdóttir, leikari 2006
Auður Hafsteinsdóttir, fiðluleikari 2005
Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona  2004
Ásbjörn Morthens (Bubbi), tónlistarmaður 2002
Messíana Tómasdóttir, myndlistarkona 2001
Rúna Gísladóttir, myndlistarkona 2000
Guðrún Einarsdóttir, listmálari 1999
Ragna Ingimundardóttir, leirlistakona 1998
Herdís Tómasdóttir, veflistakona 1997
Gunnar Kvaran, sellóleikari 1996

_________________________________

Kristján Jónsson - Portrett og landslag í Gallerí Gróttu

10. desember 2015

Portrett og landslag – Kristján Jónsson 

Portrett og landslag í Gallerí Gróttu
Listamaðurinn og leiðsögumaðurinn Kristján Jónsson opnar sýningu sína Portrett og landslag í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 10. desember kl. 17. 

Líkt og titillinn gefur til kynna er viðfangsefni sýningarinnar sótt í gamalkunnugt stef myndlistararfsins. Kristján vill með því hylla okkar ástsælu landslagsmálara og um leið að máta sig við þá málarahefð, sem flestum er kunn, með persónulegri nálgun. Verkin bera með sér djúpstæða ást listamannsins á landinu þar sem hann ver drjúgum hluta lífs síns sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn. 

Kristján stundaði nám í Escola Massana listaskólanum í Barcelona og hefur sýnt reglulega bæði hér á landi og erlendis síðustu 20 ár. Verk eftir hann eru í eigu fjölda einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og safna.
Allir eru velkomnir á sýningaropnunina en Gallerí Grótta er á 2. hæð á Eiðistorgi við hlið Bókasafnsins. Opnunartími er mán.-fim.dag 10-19 og fös. 10-17. Einnig verður opið laugardaginn 12. desember kl. 14-17.
Aðgangur er ókeypis. Sýningin stendur til 8. janúar. 

Sjá nánar á: www.kristjanjonsson.com


_________________________________

12. nóvember 2015

Sýningaropnun - Farvegir vatns – Samsýning þriggja systra 

Ingileif, Áslaug og Sigrún Thorlacius - Farvegir vatnsThorlacius systurnar þrjár Ingileif, Áslaug og Sigrún gengu allar í Ísaksskóla, Æfingaskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð en völdu ólíkar leiðir þegar kom að háskólanámi. Þær áttu eftir að sameinast aftur undir merkjum myndlistarinnar; útskrifaðar úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands auk þess að hafa sótt sér framhaldsmenntun í myndlist og tengdum greinum.

Nú sameinast systurnar þrjár í fyrsta sinn á samsýningu, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 12. nóvember kl. 17 og velta fyrir sér áhrifum vatns út frá fagurfræðilegu sjónarmiði, nýtingu þess og krafti.

Ingileif og Áslaug eiga fjölmargar sýningar að baki en Sigrún sýnir hér í fyrsta sinn opinberlega eftir útskrift. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands á síðasta ári þar sem hún vakti athygli á því hvernig sveppir geta unnið eitur úr jarðvegi.

Ingileif Thorlacius

Vatnið er rauður þráður í höfundarverki Ingileifar, bæði sem myndefni og miðill. Við upphaf ferils síns málaði hún stór olíumálverk af vatni í stríðum straumum. Með tímanum sneri hún sér æ meir að vatnslit. Um leið varð myndefnið naumara og litunum fækkaði. Síðustu verkin hennar eru einföld rannsókn á ferðalagi vatnsins um pappírinn. Myndirnar á sýningunni falla í þann flokk.

Áslaug Thorlacius

Áslaug notar teikninguna sem rannsóknartæki. Með henni lærir hún ekki eingöngu að þekkja yfirborðið heldur öðlast hún djúpa persónulega vitneskju um innri gerð viðfangsefnisins. Hún sýnir blýantsteikningar og röð blekmynda af vestfirskum fjallahvilftum, giljum og klettabeltum sem vatn og aðrir kraftar náttúrunnar hafa mótað.

Sigrún Thorlacius

Verk Sigrúnar er hugvekja um votlendi. Íslendingar hafa ræst fram mýrar af miklum ákafa og þurrkað upp meirihluta votlendissvæða á láglendi í nafni landnýtingar. Hnattræn áhrif þessara aðgerða eru mun meiri en flestir gera sér grein fyrir. Á sýningunni túlkar hún vísindalegar niðurstöður íslenskra sérfræðinga. Með því vill hún vekja til umhugsunar um hvar við stöndum og hvert við stefnum í meðferð og nýtingu vatns, lands og náttúrugæða.

Um systurnar/listamennina

Ingileif fæddist 5. ágúst 1961, Áslaug 11. september 1963 og Sigrún 10. febrúar 1968. Allar gengu í Ísaksskóla, Æfingaskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð en Ingileif lauk stúdentsprófi 1981, Áslaug 1983 og Sigrún 1988.

Ingileif

Ingileif las bókmenntafræði við HÍ í eitt ár að loknu stúdentsprófi en fór svo í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk málaradeild 1986. Hún stundaði framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1986-88, tók diplómapróf í listkennslufræðum frá LHÍ 2004 og hóf meistaranám í menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst haustið 2005. Þar lauk hún öllum kúrsum en átti meistaraverkefnið eftir.

Ingileif fékk hálfs árs listamannalaun árið 1989. Hún var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Valand listaháskólann í Gautaborg og Listaháskóla Íslands. Hún vann við fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur árin 1997-2003 og kenndi einn vetur við Ljósafossskóla eftir kennsluréttindanámið. Árið 2005-6 var hún framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands á Blönduósi. Ingileif lést 22. mars 2010.

Ingileif hélt fimm einkasýningar á níu árum, eina í Maastricht, aðra í Ásmundarsal og þrjár í Nýlistasafninu en hún var mjög virk í starfi félagsins og sat þar um tíma í stjórn. Hún tók þátt í átta samsýningum á Íslandi og í Svíþjóð og sýndi auk þess í tvígang ásamt Áslaugu systur sinni. Í janúar 2014 stóð fjölskylda hennar fyrir yfirlitssýningu á verkum hennar í Listasafni ASÍ undir yfirskriftinni Myndir Ingileifar. Af því tilefni gaf Eyja - útgáfufélag út bók með sama nafni.

Áslaug

Áslaug var við rússneskunám í Sovétríkjunum árið 1984-85. Hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og lauk þaðan námi við fjöltæknideild árið 1991. Hún lauk BA gráðu í rússnesku og bókmenntafræði 1993 og diplómaprófi í listkennslufræðum frá LHÍ 2004.

Áslaug var framkvæmdastjóri Samtaka um kvennalista árin 1995-2000. Samhliða því var hún formaður stjórnar Nýlistasafnsins í Reykjavík 1995-97 og myndlistargagnrýnandi DV 1997-2000.  Hún starfaði á skrifstofu Myndlistaskólans í Reykjavík árin 2001-3 og var formaður Sambands Íslenskra myndlistarmanna 2002-9 samhliða kennslu við Melaskóla 2004-11. Hún var prófdómari útskriftarverkefna í myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorin 2001 og 2004, kenndi námskeið við myndlistardeild Háskólans í Xiamen í Kína og hefur kennt rússneska listasögu við rússneskudeild Háskóla Íslands frá 2009. Áslaug sneri aftur til starfa við Myndlistaskólann í Reykjavík vorið 2012 og hefur verið skólastjóri skólans frá júní 2014.

Áslaug hefur tekið þátt í yfir 20 samsýningum og haldið annað eins af einkasýningum og sýningum í samstarfi við fjölskyldu sína og Ingileifu systur sína. Hún dvaldi í gestavinnustofu í Kína haustið 2006 og í Kjarvalsstofu í París í ársbyrjun 2013. Áslaug hefur fengið samanlagt eins og hálfs árs listamannalaun og hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir verk sín á Vatnslitatvíæringnum í Kaunas árið 2012. Hún gerði skúlptúra fyrir verkið Vits er þörf á Háskólatorgi sem Finnur Arnar vann fyrir Háskóla Íslands og haustið 2014 vann hún verkefni fyrir Listskreytingarsjóð í móttöku göngudeild geðdeildar Landspítalans á Kleppi.

Sigrún

Sigrún lauk BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands í júní 1993. Hún stundaði nám á listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði 2008 -2012 og lauk BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands í júní 2015.

Sigrún hefur starfað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá 1993. Fyrstu árin í fræðsludeild garðsins þar sem aðalhlutverk hennar var að fræða og útbúa efni fyrir nemendur í skipulögðu fræðslustarfi, sem og fyrir gesti garðsins. Frá 1997 hefur hún sinnt starfi aðstoðarforstöðumanns garðsins. Samhliða námi við LHí (2012 – 2015) var hún í hlutastarfi en er nú aftur komin í fullt starf.

Á námsárunum hefur Sigrún tekið þátt í nemendasýningum, fyrst á vorsýningum Iðnskólans í Hafnarfirði og síðar sýningum Listaháskóla Íslands, síðast á útskriftarsýningu skólans í Hafnarhúsinu vorið 2015. Þess utan tók hún þátt í samsýningu 3. árs vöruhönnunarnema í Gallerí Tukt á hönnunarmars 2015. Farvegir vatns er fyrsta sýning Sigrúnar að lokinni útskrift.

Skoða veggspjald

_________________________________

15.10.2015

Sýningaropnun - Taktur í 100 ár 15. október kl. 17:00


Taktur í 100 árTaktur í 100 ár er sýning sem varpar ljósi á baráttusöngva kvenna síðustu 100 ár. Um hvað fjölluðu baráttusöngvar fyrir um liðlegri öld og hvernig hafa þeir þróast til dagsins í dag.

Leikonan Arndís Hrönn Egilsdóttir fór í hlutverk framtíðarkonunnar og sýndi klæðnað hennar eftir 100 ár, sem Sigurlaug Brynjúfsdóttir nemandi í Való hannaði og útfærði með hjálp kennara og fulltrúa úr félagsstarfi aldraðra.

Kvenréttindabaráttan með augum nokkurra nemanda í Való  kynnt í myndum, texta, ljóðum og bókverkum. Verkefnin voru unnin í samstarfi við sýningarstjóra og kennara.

Sýningarstjóri Sigurlaug Arnardóttir. Sýningin var unnin í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna.

Sýningin var hluti af menningarhátíð Seltjarnarness. Formaður menningarnefndar Kartín Pálsdóttir setti hátíðina. Félagar úr Kammerkór Seltjarnarness sungu nokkur baráttulög. Veitingar í boði. Allir velkomnir.


_________________________________

24. september 2015

Dagbjört Drífa Thorlacius 


Lífsglíma mannsins hverju sinni markar hann og gerir hann að því 
Gallerí Grótta - Dagbjört Drífa
sem hann er í öllum sínum margbreytileika. Verkin
 á sýningu Dagbjartar Drífu Thorlacius varpa ljósi á samferðamenn hennar í tímans rás. Ekki er um eiginlegar persónur að ræða heldur vinnur listamaðurinn úr samansöfnuðu minni sínu myndir af fólki sem hefur orðið á vegi hennar í gegnum lífið. Í verkin fléttast utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif á okkar daglega líf eins og tilfinningar, náttúra, litir og tíðarandi. 

Hvert verk býr yfir eigin sögu sem myndlistarmaðurinn skráir á tvívíðan flötinn. Sagnabrot koma úr ólíkum áttum líkt og mannverurnar á myndunum en tengjast saman í nýja frásögn með hversdagslegum og ljóðrænum undirtóni. 
Verk Dagbjartar Drífu eru flest unnin á síðastliðnum fjórum árum með olíulitum á striga og pappaspjöld.

Dagbjört Drífa Thorlacius (f. 1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA próf í myndlist árið 2004 og með diplomagráðu í listkennslufræðum frá sama skóla árið 2006. Hún nam ljósmyndun við Københavns Tekniske skole og lauk MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2013. Dagbjört Drífa hefur sýnt víða bæði ein og í samvinnu við aðra, komið að ýmsum listtengdum samstarfsverkefnum við erlenda aðila og staðið að útgáfu bókverka.

Opið mánudaga til fimmtudaga 10-19 og föstudaga 10-17, laugardag 26. og sunnudag 27. september kl. 13-16.

_________________________________

27. ágúst 2015

Sýningaropnun - Finnbogi Pétursson 

Bæjarmið 2014 - Finnbogi Pétursson
Sýningaropnun listamannsins Finnboga Péturssonar í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17.
Finnbogi Pétursson (f.1959) er Íslendingum að góðu kunnur fyrir hugmyndalist sína, þar sem hann vinnur á mörkum 
ólíkra listforma og fléttar saman skúlptúr, hljóði og arkitektúr svo úr verða margvíðar innsetningar. 
Á sýningunni í Gallerí Gróttu kveður við annan tón en þar sýnir Finnbogi tvívíð verk undir heitinu Sjólag, sem eru eins konar 
stillimyndir af sjávarlandslagi. Með aðstoð tölvustýrðs rita og lögmálum hnitakerfisins dregur Finnbogi upp mynd af yfirborði sjávar út af Eskifirði þar sem munnmælasögur og gömul rit lýstu staðsetningu fengsælla miða. Í íslenskri atvinnusögu voru fá leyndarmál betur varðveitt og staðsetning fiskimiða, en hvert verk býr yfir sögu um slíka leiðarlýsingu.Teikningarnar sjálfar taka svo mið af fyrirframgefinni sjóveðurspá, vindstefnu og ölduhæð
.

Finnbogi lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan við Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Hann hefur sýnt víða um heim og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001.
Opið mán.-fim. 10-19, fös. 10-17, laugardag 29. og sunnudag 30. ágúst kl. 13-17.

Helgina 19. og 20. september kl. 13-16 tekur Finnbogi tekur á móti gestum. Verið velkomin.

_________________________________

13. maí 2015

Daníel Magnússon - Perpetual Youth

Gallerí Grótta - Daníel Magnússon - Perpetual YouthPerpetual Youth er yfirskrift sýningar Daníels sem hann tileinkar vini sínum og kollega Birgi Andréssyni 1955-2007.
Verkin eru frá tveimur síðustu árum og tekin að vetri til. Þau eru í tilliti til stemmingarinnar sem liggur utangarðs.
Verkin eru óður til innibirtunnar sem uppistendur af fluorperu ljósi og glóperum en dagsljós er víkjandi. Það er gert til að draga fr
am þá einustu vetrarbirtu sem borgarbúar njóta í híbýlum sínum á vetrarmánuðum.

Val á formum og litum í viðfangi þessara verka eru tekið með tilliti til dramans og þagnarinnar. Þau eru fulltrúar fyrir gæjur og njósn plebeans um vanhelga staði og vísana til Euclidiskrar rúmfræði og leikhússins. Verkin eru upphafning hins hlutlausa og samofna umhverfis til frásagnar um efri sannindi.

Mat Dekenskloppen

Skoða veggspjald

_________________________________

Jósepsdalur, Tryggvi Þórhallsson, Apríl - Grimmastur mánuða9. apríl 2015

Tryggvi Þórhallsson - Apríl-Grimmastur mánuða

Apríl – Grimmastur mánuða er yfirskrift vatnslitasýningar Tryggva Þórhallssonar (f.1962) sem verður opnuð í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 9. apríl kl. 17:30. Tryggvi tileinkar aprílmánuði verk sín en hann er kunnur fyrir viðkvæm vatnslitaverk þar sem hann leitast við að fanga hin ólíku birtubrigði íslenskrar náttúru. Tryggvi stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984 – 1988 og brautskráðist frá grafíkdeild. Hann er félagi í Íslenskri grafík. 

Sýningin er opin má-fim 10-19 og fö 10-17. 

Aðgangur ókeypis.

Skoða veggspjald

_________________________________

12. mars 2015

Hönnunarmars 2015  

Gallerí Grótta - HönnunarmarsHadda Fjóla Reykdal & Hlín Reykdal í Gallerí Gróttu
Systurnar Hadda Fjóla Reykdal listmálari og Hlín Reykdal hönnuður vinna báðar út frá hughrifum úr náttúrunni. 
Á sýningu þeirra í Gallerí Gróttu skoða þær hvernig hugmyndir þeirra mætast og mótast og verða að samspili í ólíkum miðlum verkanna.
Hadda Fjóla og Hlín verða með leiðsögn um sýninguna 13. mars kl. 15-17 og 14. og 15. mars kl. 13-15.
Sýningin stendur til 31. mars.

Theresa Himmer-Unglingadeild-Bokasafn-Seltjarnarness_hsSofa Complex - Theresa Himmer
Sofa Complex eða Sófa Kompleksið er ný innsetning ætlað unglingum sem Theresa Himmer arkitekt og myndlistarmaður hefur gert fyrir Bókasafn Seltjarnarness. Í rýminu mætast hönnun, arkitektúr og myndlist. Mikið mótunarferli liggur að baki innsetningu Theresu en um er að ræða stílhreint lestrarrými eða landslag sem miðar að því að mæta ólíkri samskiptaþörf og -hegðan ungmenna. Innsetningin hverfist um sex sætiseiningar sem gefa til kynna röð ólíkra samfunda. Í leikandi landslaginu er hægt að dvelja einn með sjálfum sér, eiga góða stund með félögunum, fara á trúnó, taka sér hvíld frá vini eða hjúfra sig upp að honum. Geómetrísk form innsetningarinnar eru hönnuð fyrir líkama í hvíldarstöðu; sitjandi, hallandi eða liggjandi með fæturna lárét eða lóðrétt. Algjört jafnvægi ríkir í innsetningunni, þar er hvorki miðja né hápunktur sem skapar jafnræði innan hópsins og ýtir undir lýðræðisleg samskipti.
Sófa kompleksið er smíðað úr viði og klætt með sérprentuðu teppi frá hinum virta EGE teppaframleiðenda í Danmörku, sem styrkti verkefnið. Mynstur teppisins gerði Theresa sérstaklega fyrir rýmið. 

Reykjavíkurdætur rappa kl. 18
                         
       Hönnunarmars merki 2015     
  

Allir velkomnir.

Opnunartími:
Formleg opnun fimmtudaginn 12. mars kl. 17

Mánudaga – fimmtudaga 10-19 
Föstudaga 10-17
Helgina 14. og 15. mars 13-17

_________________________________

6. febrúar 2015

Safnanótt 2015

Lóa Hlín - HaugurinnNýr og glæsilegur sýningarsalur, Gallerí Grótta, verður opnaður á Safnanótt. 

Fyrsti listamaðurinn til að sýna í salnum er myndlistar- og tónlistarmaðurinn Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir meðlimur í hljómsveitinni FM Belfast. 

Safnanótt stendur frá kl. 19-24 og er lögð áhersla að allir finni þar eitthvað við sitt hæfi, en diskótaktur og diskóljós er undirliggjandi þema næturinnar. 

ón


Menning og listir