Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Sýningar í Eiðisskeri

Sýningar í Gallerí Gróttu áður Eiðisskeri

Sýningar í Gallerí Gróttu er að finna á http://www.seltjarnarnes.is/gallerigrotta/

2014 - Frónari

Fimmtudaginn 20. nóvember opnaði Sigursveinn H. Jóhannesson sýningu sína Frónari  í Eiðisskeri, sýningarsal Seltirninga í Bókasafninu. Á sýningunni eru á fjórða tug verka og þar af tæpur helmingur frá Seltjarnarnesi. Verkin eru unnin með blandaðri tækni, grafík, tússi og vatnslitum. Sigursveinn starfaði á árunum 1985-1992 við leikmyndadeild Þjóðleikhússins og var kennari við málaradeild Ljungstedska Skolan í Linköping í Svíþjóð í lok áttunda áratugarins. Hann er kennari að mennt auk þess að hafa sótt fjölmörg málaranámskeið hérlendis og erlendis m.a. hjá Ríkharði 
Valtingojer. Sigursveinn hefur haldið nokkar sýningar á ferli sínum, en hann býr og starfar á Seltjarnarnesi. 
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði á dögunum blaðagrein undir yfirskriftinni Ég vil elska mitt land þar sem hann mærir föðurlandið og klikkir í lokinn út með setningunni „Ég fíla svo vel að vera Frónari“. Þessi lokaorð hittu í mark hjá listamanninum Sigursveini H. Jóhannessyni og fékk hann leyfi rithöfundarins til að heimfæra þau upp á sýningu sína.

2014 - Flögr

Fimmtudaginn 16. október kl. 17 mun listamaðurinn og hönnuðurinn Sigga Rún opna sýningu sína Flögr í Eiðisskeri þar sem hún teflir saman munum úr Náttúrugripasafni Seltjarnarness við eigin verk. Sigga Rún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2012 og er einnig menntaður prentsmiður. Hún hefur haldið margar sýningar og unnið til verðlauna og viðurkenninga á sínu sviði. Á sýningunni sýnir Sigga Rún blekteikningar af ólíkum fuglum sem staddir eru í veröld sem vart eru þessa heims. Fimmtudaginn 23. október kl. 17 mun Sigga Rún fá til sín góðan gest sem er hinn kunni fuglafræðingur Jóhann Óli Hilmarsson, en saman munu þau fjalla um samspil hönnunar og náttúru. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. Eiðissker er sýningarsalur Seltirninga og er staðsettur inn af Bókasafni Seltjarnarness á Eiðistorgi.

2014 - Endurkast í Eiðisskeri

Myndlistarmanninn Jón Axel Björnsson þarf vart að kynna fyrir almenningi, en fjölbreyttur ferill hans, sem hófst snemma á níunda áratugnum, hefur verið farsæll og óslitinn samfellt síðan. Hann hefur verið mikilvirkur í sýningarhaldi hérlendis og erlendis, miðlað af þekkingu sinni og reynslu í Myndlistarskóla Íslands og Listaháskóla Íslands og auk þess starfað um árabil við leikmyndagerð. 
Jón Axel var meðal nokkurra listamanna sem komu fram undir merkjum „nýja málverksins“ í upphafi níunda áratugarins, en skar sig snemma úr þeim hópi fyrir sjálfstæð vinnubrögð, ekki síst frásagnarlegan stíl sem snerist framar öðru um margháttaðan mannlegan vanda í lítt skiljanlegum heimi.
Í framhaldinu hefur myndlist Jóns Axels tekið ýmsum listrænum breytingum, orðið einfaldari og grafískari í formi og síðan nokkuð höll undir þrívíddarlist, jafnvel innsetningarformið. 
Á sýningunni í Eiðisskeri sýnir Jón Axel ný og áður ósýnd verk, m.a. hið umfangsmikla olíumálverk Carpe Diem sem þekur heilan vegg salarains. Carpe Diem var fyrst sýnt í Kaupmannahöfn árið 2003 en kemur nú fyrst fyrir almenningssjónir á Íslandi. Á sýningunni getur einnig að líta verkið Endurkast / Endurtekið sem er nýtt úr smiðju listamannsins og nýlega náttúrulýsingu sem unnin er í kol.

2014 - Hulda Hlín Magnúsdóttir

22.maí. Litir eru megin viðfangsefni Huldu Hlínar. Á sýningunni má sjá olíumálverk og teikningar þar sem draumkenndri veröld í sterkum litum bregður fyrir. Olíumálverkin eru flest stór í sniðum og leiða áhorfandann inn í seyðandi litaheim. Sum verkin eru innblásin af, að því er virðist, íslenskri náttúru en litir og form breyta þeim í annan og hugrænni stað. 
Hulda Hlín Magnúsdóttir ólst upp í Kaupmannahöfn, París og Reykjavík og nam málaralist í Flórens, Feneyjum, Bologna og Róm. Hún úskrifaðist í málaralist með hæstu einkunn og láði frá Listaakademíu Ítalíu í Róm (Accademia di Belle Arti) og hefur haldið einka- og samsýningar hérlendis og á Ítalíu. Hulda Hlín lauk mastersnámi í listasögu frá Bolognaháskóla með mastersritgerð á sviði litafræði og merkingarfræði hins sjónræna. 
www.huldahlin.com

2014 - Afmælisopnun í Eiðisskeri 9. apríl - Listamenn bæjarins

Guðrún(Einarsdóttir
Kristín(Gunnlaugsdóttir
Sigrún(Hrólfsdóttir

2014 - Elín G. Jóhannsdóttir - Smáfólkið

6. mars 2014. Elín G. hefur verið virk í sýningarhaldi síðastliðin tæp 20 ár síðan hún útskrifaðist frá málaradeild Myndlista– og handíðaskóla Íslands. Alls eru það orðin 9 ár sem hún hefur stundað myndlist hérlendis og erlendis.Að þessu sinni hefur smáfólkið verið henni hugleikið, persónuleikinn og sjálfsmynd þess, eða innra líf og heilsa þess. Það er bandaríski teiknarinn Charles M. Schulz sem hefur heillað heiminn í 64 ár með teiknimyndaseríum sínum. Kalli Bjarna og vinir hans prýða strigann. Leikur með liti sem tjá tilfinningar og persónuleika eru viðfangsefnið. Þegar teiknimyndaserían kom fyrst á prent í dagblöðum var nýjung að tilfinningar smáfólksins og persónuleiki þeirra mátti vera í forgrunni.Það hefur verið unun að vinna þessi verk og kynnast þessu smáfólki upp á nýtt og njóta tilveru þeirraMínar þakkir eru sýndar hér með virðingu fyrir öllu smáfólkinu okkar í landinu. Tilgangurinn er að hafa gaman. Smá sprell og kátína er það sem situr eftir og vonandi færir þér á þessari sýningu.

2014 - Friðrik Örn Hjaltested - Slab City

Á sýningunni gefur að líta ógleymanleg augnablik í einskismannslandinu Slab City í eyðimörk Suður-Kaliforníu, þar sem engar reglur gilda og allt er leyfilegt. Í þessu villta vestri nútímans, með engu aðgengi að vatni eða rafmagni, safnast fólk saman í leit að frelsi frá hefðbundnu skipulagi nútímasamfélagsins. Ferðalangar, hippar, listamenn, ellilífeyrisþegar og utangarðsmenn hreiðra um sig í óhefðbundnum hjólhýsum sínum og njóta skrautlegs lífsstíls á hjara veraldar. Gamlir hlutir öðlast nýtt líf og hvarvetna má sjá merki um hugmyndaauðgi í endurnýtingu, bæði í formi híbýla og listaverka. Sýningin stendur til 28. febrúar. Friðrik Örn lærði ljósmyndun í Kaliforníu og var nýverið á ferð í Slab City. Með sýningu sinni opnar hann dyr að fjarlægum heimi sem er hvort tveggja í senn, forvitnilegur og framandi. 

2014 - Fabienne Davidsson og Ingunn Sigurgeirsdóttir - Draumkennd rými

Þann 7. janúar opnuðu listmálararnir Fabienne Davidsson og Ingunn Sigurgeirsdóttir sýningu sína Draumkennd rými. Fabienne og Ingunn  hafa báðar stundað nám við Myndlistaskóla Kópavogs í frjálsri málun þar sem byggt er á einstaklingsmiðaðri kennslu og áhersla lögð á gagnrýna nálgun lita og forma, málunaraðferða og pensilskriftar. Fabienne er auk þess á 2. ári í BA námi í listum við Universite Paris1 Pantheon-Sorbonne í Frakklandi. Sýning þeirra er samsett af völdum abstraktverkum sem gerðar voru á síðasta ári. Fabienne og Ingunn hafa áður tekið þátt í nokkrum samsýningum á vegum Félags frístundamálara og samsýningu nemenda Myndlistaskólans í Kópavogi sem haldin var í Gerðasafni í tilefni 25 ára afmælis skólans. 

2013 - Guðlaugur Arason - Álfabækur

Rithöfundurinn Guðlaugur Arason opnaði sýningu sína Álfabækur 17. nóvember og stóð hún yfir til 24. desember 2013.  Á meðan flestir rithöfundar keppast nú við að gera bækur sínar sem sýnilegastar út á við situr rithöfundurinn Guðlaugur Arason við og einbeitir sér að því að setja saman agnarsmáar bækur og rit sem hann nefnir Álfabækur. Bókunum raðar hann á heimilislega máta í smágerðar bókahillur, sem hann hefur smíðað sjálfur, rammar hillurnar inn og hengir upp á vegg eða stillir upp á stöpla.  Þarna er samankominn þverskurður af litteratúr veraldarinnar í svo smækkaðri mynd að til að minnstu núansarnir njóti sín þarf að setja þá undir stækkunargler. Guðlaugur er kunnari sem rithöfundur en myndlistarmaður þótt hann hafi alla tíð unnið að myndlist jöfnum höndum með ritstörfum sínum. Hann gaf út sína fyrstu skáldsögu, Vindur, vindur vinur minn, 25 ára gamall. Síðan hefur hann skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og tvær bækur um Kaupmannahöfn. Ritverk hans hafa notið mikilla vinsælda og verið verðlaunuð. Meðal helstu ritverka Guðlaugs má nefna Víkursamfélagið, Sóla, Sóla, Eldhúsmellur, Pelastikk og Gamla góða Kaupmannahöfn. Guðlaugur er fæddur og uppalinn á Dalvík og er nú nýlega sestur að á höfuðborgarsvæðinu eftir um hálfrar aldar búsetu í Danmörku, Sviss og Finnlandi.

2013 - Valgarður Gunnarsson - Sögubrot

10. október - 8. nóvember. Valgarður á langan feril að baki, hefur haldið einkasýningar í stærstu söfnum landsins og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis. Valgarður nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1975 – 1979 og frá 1979 – 1981 við myndlistardeild Empire State College, State University of New York. Verk Valgarðs Gunnarssonar á sýningunni í Eiðisskeri spanna tæpan áratug á ferli hans, hið elsta frá 2004 en flest eru unnin á síðastliðnum tveimur árum. Valgarður hefur þróað með sér sterkan persónulegan myndheim sem byggir annars vegar á vefnaði og hins vegar á saumum. Þetta má heita aðalsmerki í myndlist hans. Grunnflöturinn í verkum Valgarðs er haganlega ofinn með fíngerðum penslinum í smekklega samsettum litum á meðan bogadreginn þráðurinn liðast um flötinn og hefur þrætt sig í gegnum undirlagið. 

2013 - Haraldur Sigmundsson - Rembingur

Haraldur Sigmundsson opnar sýningu í Eiðisskeri, sýningarsal Seltirninga í Bókasafninu á Eiðistorgi, fimmtudaginn 29. ágúst kl. 17. Rauði þráðurinn í sýningu Haraldar er háðsádeila á íslenskt samfélag og skírskotar heiti hennar Rembingur til þess. Á gamansaman hátt afbakar Haraldur þjóðartákn, varpar persónulegu ljósi á þjóðarstoltið og tvinnar saman á áhugaverðan máta minnimáttarkennd þjóðarinnar við stórhuga fyrirætlanir hennar.
Haraldur er fæddur árið 1980. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum. Haraldur lauk B.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og M.Art. Ed. gráðu í listkennslu árið 2011 frá sama skóla. Hann starfar nú sem myndmenntakennari í Krikaskóla í Reykjavík.

2013 - Torfi Ásgeirsson - Einkasýning 

Fimmtudaginn 23. maí opnaði sýning Torfa Ásgeirssonar. Algengt grunnstef í myndum Torfa er íslensk náttúra og birta. Varpað er fram stemmningu sem klædd er í búning tærleika, kyrrðar og tímaleysis. Myndirnar eru málaðar með olíulitum á striga. Torfi Ásgeirsson er fæddur á Húsavík 29. desember 1960. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981 og útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988. Helstu sýningar sem Torfi hefur haldið eru einkasýningar í Ásmundarsal árið 1993 og í Safnahúsinu á Húsavík árið 1997, samsýningar í Safnahúsinu á Húsavík árið 1990 og Hafnarhúsinu í Reykjavík árið 1995.

2013 - Dregið úr djúpi - málverkasýning

Þann 19. apríl var opnuð myndlistarsýningin Dregið úr djúpi  í Eiðisskeri. Þar sýndu þau Edda Guðmundsdóttir, Georg Róbert Douglas, Gísli Kristjánsson, Jón Grétar Ingvason og Jórunn Kristinsdóttir verk sem þau unnu undir leiðsögn myndlistarmannsins Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur. 

2013 - Njáluslóðir - málverkasýning

Þórhildur Jónsdóttir opnaði sýningu sína Njáluslóðir fimmtudaginn 21. mars. Meðal verka voru olíumálverk tengd gosinu í Eyjafjallajökli auk persónuteikninga úr Njálssögu. Þórhildur (f.1952) er frá Lambey í Fljótshlíð en hefur búið á Seltjarnarnesi frá 1986. Hún lauk námi í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1972 og hefur síðan unnið samfellt við grafíska hönnun hjá Myndamótum, Örkinni og á Auglýsingastofu Þórhildar frá 1985.

2013 - Ljósahönnun - iðnhönnun

Bæjarlistamaður Seltjarnarness, Sigga Heimis iðnhönnuður, opnaði sýningu á ljósahönnun sinni í Eiðisskeri, sýningarsal Seltirninga í Bókasafninu, á Safnanótt. Sigga hefur starfað í fjöldamörg ár fyrir IKEA og sérhægt sig í fjöldahönnun. Eftir hana liggja á fjórðahundrað muna. Á sýningunni var leitað leiða við að kynna ólík lýsingarform bæði hefðbundin og óhefðbundin.

2013 - 1 Lífið er list  - málverkasýning
Fimmtudaginn 10. janúar opnaði í Eiðisskeri málverkasýning Aleksöndru Babik sem hún nefndir ,,Lífið er list". Þar sýnir Aleksandra málverk flest unnin á síðasta ári. Þetta er þriðja einkasýning Aleksöndru á Bókasafni Seltjarnarness. Sýningin stendur til 30. janúar.

2012 - 8 Með eigin augum  - málverkasýning
Föstudaginn 30. nóvember opnaði í Eiðisskeri málverkasýning Guðmundar Kristinssonar Með eigin augum.  Guðmundur sýnir 44 verk flest unnin í olíupastel. Flest verkanna eru unnið á þessu ári.

2012 - 7 Minningarsýning á verkum Sigríðar Gyðu Sigurðardóttur myndlistarmanns.
Mánudaginn 19. nóvember opnaði í Eiðisskeri minningarsýning á verkum Sigríðar Gyðu Sigurðardóttur myndlistarmanns. Þar voru sýnd fjölbreytt verk eftir Gyðu, málverk frá ýmsum tímum og unnin úr ólíkum efnum, nælur, félagsmerki og skúlptúrar. 

2012 - 6 SexFimmFjórir - myndlistarsýning 
Föstudaginn 2. nóvember opnaði í Eiðisskeri sýningin SexFimmFjórir þar sem sýnd voru verk Gyðnýjar Hrannar Antonsdóttur, Jóhönnu Maríu Einarsdóttur, Margrétar Helgu Sesseljudóttur, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Sigrúnar Sæmundsen.

Guðný Hrönn útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2011 og í myndverkum sínum blandar hún gjarnan saman miðlum s.s. ljósmyndun, málverki og teikningu. Guðný Hrönn: http://gudnyhronn.webs.com/

Jóhanna María útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2011. Sumar sama árs tók hún þátt í listahátíðinni Æringi. Myndheimur hennar er afar textatengdur, enda liggur áhugi hennar á mörkum bókmennta og myndlistar. Jóhanna er á öðru ári í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Jóhanna María: http://johannamaria.webs.com/

Margrét útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010. Margrét býr til hluti og skemmir hluti. Margrét: marghelg@hotmail.com

Sigrún Sæmundsen útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands vorið 2011 sem grafískur hönnuður og hefur unnið að ýmsum verkefnum síðan, jafnt sem starfsmaður á  auglýsingastofu og sjálfstæður verktaki. Hennar helstu áhugasvið í listinni eru fígúratívar myndskreytingar og hvers kyns samband myndmáls og ritaðs texta. Sigrún Sæmundsen: http://sigrunsaem.com/

Sigrún Guðmundsdóttir útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2010. Verk sín, sem unnin eru með blandaðri tækni, hefur Sigrún sýnt á fjölda myndlistarsýningum hérlendis sem og erlendis. Hún hefur sérlegan áhuga á því sem gerist á mörkum gjörninga og leikhúss. Sigrún Guðmundsdóttir: http://sigr.wordpress.com/

2012 - 5 Votlendi - málverkasýning
Föstudaginn 5. október opnaði Óli Hilmar Briem sýningu í Eiðisskeri sal bókasafnsins. Þar sýndi hann 9 verk unnin í olíu á striga. Óli Hilmar er fæddur í Reykjavík 1950 og hefur lagt stund á myndlist öll sín fullorðinsár. Hann stundaði nám við Myndlistarskólann við Freyjugötu á æskuárunum og málaralist hjá Jóhanni Briem 1966-1970. Óli Hilmar nam við lista- og arkitektadeild Háskólans í Oulu Finnlandi 1971-1977 og útskrifaðist þaðan með MSc í arkitektúr. 

2012 - 4 Jörðin, vatnið, sjórinn og landið - málverkasýning
31. ágúst - 30. september sýndi Gunnar Jóhannsson málverk á bókasafninu. Gunnar sýndi 17 málverk unnin með olíu á striga - verkin eru flest unnin í ár.  Gunnar stundaði nám við myndlistarsvið Fjölbrautaskólans í Breiðholti árin 1983-1986. Hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður 1990 frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Frá 2008 hefur  Gunnar verið nemandi við Myndlistarskóla Reykjavíkur.

2012 - 3 Án forskriftar - málverkasýning
Föstudaginn 18. maí voru 30 ár síðan Náttúrugripasafn Seltjarnarness var opnað. Af því tilefni var opnuð yfirlitssýning á málverkum Sigurðar K. Árnasonar en hann var einn frumkvöðla að stofnun safnsins.

Sigurður sýndi 28 verk flest unnin með olíu á striga, en á sýningunni voru tvær pastelmyndir og tvær myndir unnar í gler þar sem Sigurður teiknaði myndina.

Nýjustu verkin eru máluð á þessu ári. 

2012 - 2 Flandur um París - ljósmyndasýning
Á sýningunni Flandur um París beindi Einar Jónsson, blaðamaður og ljósmyndari, linsunni að fjölbreyttu mannlífi á götum og torgum Parísarborgar. Flestar myndirnar tók Einar þegar hann dvaldi í borginni við Signu veturinn 2004-2005 en sumar eru aðeins eldri. Sýningin stóð frá 5.3. til 9.5.

2012 - 1 Ljósmyndasýning - fuglamyndir. Samsýning Björns Björnssonar (1889-1977) og Björns Ingvarssonar (1977) 3.-29. febrúar. Á veggjum eru 10 ljósmyndir eftir hvorn þeirra og síðan eru sýndar fleiri myndir á flatskjá. Sýningin er opin á opnunartíma safnsins mánudaga til fimmtudaga kl. 10:00-19:00 og föstudaga 10:00-17:00.

2011 - 9 Á mörkum veruleika og möguleika (B E T W E E N R E A L I T Y A N D P O S S I B L E F I C T I O N) Sýning í Eiðisskeri 26. nóvember - 29. desember 2011 um alþjóðlegar listbúðir ungmenna sem fóru fram í Gróttu á Seltjarnarnesi í ágúst 2011. Listbúðirnar voru á vegum Myndlistaskólans í Reykjavík en auk nemenda og kennara Myndlistaskólans tóku þátt í listbúðunum ungmenni og kennarar frá ARKKI, arkitektúrskóla í Finnlandi og Kunst- & Musikischule Remscheid í Þýskalandi. Verkefnið er styrkt af Evrópu unga fólksins og Seltjarnarnesbæ.

2011 - 8 Björg Ísaksdóttir - Björg Ísaksdóttir sýndi í Eiðisskeri myndverk bæði penna- og krítarteikningar. Sýningin opnaði 4. nóvember og lék Stórsveit Öðlingaklúbbs FÍH við opnunina. Sýningin stóð til 25. nóvember.

2011 - 7 Myndverk  - Guðný Hrönn Antonsdóttir sýndi myndverk í timaritadeild bókasafnsins. Guðný Hrönn útskrifaðist úr Listaháskólanum í vor. Sýningin opnaði 1. október og var hluti af Menningar- og listahátíð Seltjarnarness 2011. 

2011 - 6 Stólafjör- sýning um allt bókasafn á stólum sem nemendur Valhúsaskóla unnu úr ónýtum stólum. Sýningin opnaði 1. október og var hluti af Menningar- og listahátíð Seltjarnarness 2011.

2011 - 5 Írskur pilsaþytur - Georg Douglas sýndi olíumálverk í Eiðisskeri. Sýningin opnaði 1. október og var hluti af Menningar- og listahátíð Seltjarnarness 2011. Sýningin stóð út októbermánuð.  

2011 - 4 Í ríki fuglanna - Ómar Óskarsson, ljósmyndari sýndi fuglamyndir í Eiðisskeri 30. apríl - 6. júní. 

2011 - 3 Fyrirmyndir - Jóhannes Kristjánsson sýndi olíumálverk í Eiðisskeri 18. mars - 15. apríl.  

2011 - 2 Safn í safni  - Plöntusafn úr Náttúrugripasafni Seltjarnarness var tekið til sýnis í tilefni Safnanætur 11. febrúar. Plöntur sem Ágúst H. Bjarnason safnaði fyrir Náttúrugripasafnið. Plöntusafnið hefur ekki verið sýnt opinberlega áður.

2011 - 1 Brúðubörn úr brúðusafni Rúnu Gísladóttur. Sýning opnaði 10. febrúar 2011 og stendur til 10. mars.

2010 - 4 Einu sinni var...  Málverkasýning.  2. desember kl. 17:00 opnar Aleksandra Babik sýningu á olíumálverkum. Sýningunni lýkur 22.12. 

2010 - 3 125 ára afmæli Bókasafnsins.  4. október opnaði sýning í tilefni af 125 ára afmæli safnsins. Sýningin er unnin úr bókum og blöðum sem hafa verið afskrifuð á safninu á þessu ári. Sýningarstjóri og hönnuður er Málfríður Finnbogadóttir, verkefnisstjóri og með henni vann Jóhannes Helgason. Þeim til aðstoðar voru Ísar Ágúst Kristjánsson og Sara Björk Ragnarsdóttir.
Sýningin sem nú heitir Bókabúgi er til sýnis í Bókasafni Mosfellsbæjar í febrúar 2011. 

2010 - 2 ÚR NÁTTÚRU frjáls málun  3. - 28. maí. Samsýning fjögurra nemenda Myndlistaskólans í Reykjavík í Eiðisskeri. Sýnendur voru Edda Guðmundsdóttir, Georg Douglas, Jón Grétar Ingvason, Jórunn Kristinsdóttir og með þeim sýndi leiðbeinandi þeirra Sigtryggur Bjarni Baldvinsson. 

2010 - 1 Horft í birtuna - 10.mars var opnuð sýning á olíumálverkum eftir Þóru Jónsdóttur frá Laxamýri. Þóra sýnir að þessu sinni 17 verk sem unnin eru á 2-3 síðustu árum.  Þóra er þekkt sem ljóðskáld (sjá nánar)  en hefur samhliða ljóðagerð langt stund á myndlist. Upplýsingar um Þóru er meðal annars að fá á Bókmenntavefnum.

2009 - 3 Halla Sigga sýndi glaðalegar myndir fyrir börn 5.-17. desember.

2009 - 2 Á listaviku Bókasafnsins 1.-10. október 2009 var sýning  á verkum þriggja listakvenna sem allar hafa borið titilinn Bæjarlistamaður Seltjarnarness:

Kristín Gunnlaugsdóttir sýndi tvö málverk  ,,Brjótandi ísinn“ sem málað var 2008 og ,,Opinberun“  frá árinu í ár.
Messíana Tómadóttir sýndi verkið Blár frá 2002 sem samanstendur af sjö myndum unnum á  japanpappír, akríllit og plexígler.
Þriðja listakonan var Ragna Ingimundardóttir leirlistamaður sem sýndi vasa og skálar uppi á bókaskápunum í söguskeifunni.

Eldri sýningar:
Ágúst 2009 - ,,Fólkið mitt“ sýning á leirvösum -   Ragna Ingimundardóttir leirlistamaður.
Maí 2008 - "Innblástur Íslands" - Aleksandra Babik.
Mars 2008 - ,,Vatnslitir & klipptir kettir“ - Hjördís Inga Ólafsdóttir.


Menning og listir