Um safnið

Starfsáætlun

Starfsáætlun Bókasafns Seltjarnarness

Frá 1. október 2010  tók gildi nýtt skipurit fyrir Seltjarnarnesbæ. Bókasafn Seltjarnarness heyrir undir eitt sex nýrra verkefnasviða bæjarins - Menningarsvið.  

 

Starfs- og fjárhagsáætlun Fræðslu-, menningar- og þróunarsviðs 2010  Pdf skjal 740 kb.

Starfsáætlun Bókasafns Seltjarnarness 2010

Leiðarljós
Bókasafn Seltjarnarness hefur það að meginmarkmiði sínu að efla lýðræði, jafnrétti, athafnafrelsi og velferð borgaranna. Þjónusta safnsins skal ná til þeirra allra, án tillits til aldurs, kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúarbragða, þjóðernis, eða þjóðfélagsstöðu. Það skal leitast við að jafna aðgang að upplýsingum, þekkingu og afþreyingu og standa vörð um íslenska tungu, bókmenntir og menningararf auk þess að hvetja til lesturs, náms og símenntunar.

Verkefni og áherslur 2009:

Vegna efnahagsástands var nokkrum verkefnum og áherslum 2009 frestað. Meðal annars kaupum á gestateljara, markaðssetningu, útgáfu kynningarefnis vegna safnsins, endurskipulagningu á geymslum og uppsetningu á hillum í starfsaðstöðu. Gerðar voru þó nokkrar breytingar til að gera vinnuumhverfi skilvirkara.

Merkingar safnsins voru teknar til skoðunar á árinu. Safnið var merkt innandyra og leiðarvísar settir upp. Settir voru upp vegvísar um staðsetningu bóksafns á götum við Nesveg og Eiðisgranda.

Menningarstarf var aukið til muna. Tvöföldun var á sýningum og ýmsum viðburðum. Komið var á reglulegum tónleikum, Te og tónlist, haldnir voru fyrirlestrar undir fyrirlestrarröðinni Okkar fólk.

Listavika bókasafnsins var haldin 1.-10.október með sýningum, fyrirlestrum, tónleikum og fleiri viðburðum.

Farið var í bókmenntagöngu um Seltjarnarnes á Jónsmessu og húsagöngu í tengslum við Listaviku.

Höfundakynningar voru með hefðbundnu sniði í nóvember. Tvær kynningar voru í Eiðisskeri, annars vegar ætluð fullorðnum og hins vegar börnum.

Sögustundir fyrir börn voru fyrsta laugardag í mánuði. Þá voru einnig reglulegar sögustundir fyrir leikskóla bæjarins yfir vetrarmánuðina.

Miðja safnsins var nýtt til útstillinga og til að vekja athygli á safnkosti, sýningum og viðburðum á vegum safnsins. Þá var einnig vakin athygli á málefnum og viðburðum svo sem Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Vefur safnsins var tekinn til gagngerrar endurskoðunar og nýtt útlit tekið í notkun á haustdögum.

Teknar voru upp safnkynningar fyrir nemendur í 4. bekk Grunnskóla Seltjarnarness og er stefnt að því að það verði árlegt héðan í frá.

 

Verkefni og áherslur 2010:

Menningar- og félagsstarf

Markmið: Að auka menningar- og félagsstarf hvers konar.

Leiðir: Aukið verður framboð á fyrirlestrum, tónleikum og klúbbum innan safnsins. Fastir liðir eins og Te og tónlist, Okkar fólk, leshringur og prjónaklúbbur verða festir betur í sessi. Miðja safnsins verði nýtt sem sýningaraðstaða og þar verður áfram vakin athygli á safnkosti, málefnum, mönnum og viðburðum. Stefnt er að því að halda tvær sýningar í Eiðisskeri, tvær höfundakynningar fyrir fullorðna og börn að hausti og Listavika safnsins haldin í annað sinn. Auk þess verði leitað leiða til að brydda upp á nýjungum í menningarstarfi eins og kostur er.

Markaðssetning og kynning safnsins

Markmið: Að vekja athygli á starfsemi safnsins fyrir bæjarbúum.

Leiðir: Útgáfa á vegum safnsins skoðuð. Dagskrá, bókamerki, auglýsingar og annað upplýsingaefni verði gefið út í aðlandi formi.

Lykiltölur og talningar
Markmið:
Að átta sig á notkun safnkosts og heimsóknum í safnið.
Leiðir: Keyptir verði þrír gestateljarar í safnið til að staðfesta gestafjölda. Að mati starfsfólks er stór hluti safngesta að nýta sér safngögn og þjónustu sem ekki telst til útlána.

Námskeið fyrir starfsmenn FMÞ

Markmið: Að starfsmenn Fræðslu-, menningar- og þróunarsviðs þekki og kynnist upplýsingaleiðum og þekkingarsetrum sem í boði eru á vefnum.
Leiðir: Bæjarbókavörður skipuleggi og haldi námskeið fyrir stjórnendur FMÞ um gagnasöfn og heimildaleit, sem haldið verði á Bókasafni Seltjarnarness. Þar verði kynntir vefir eins og gegnir.is og hvar.is og helstu upplýsingaleiðir skoðaðar. Landsaðgangur að gagnasöfnum verði kynntur sérstaklega og kenndar helstu leiðir til að nýta sér gagnabanka á vefnum.

Starfsmannaaðstaða og geymslur endurskipulagðar

Markmið: Að gera starfsmannaaðstöðu meira aðlaðandi og vinnuumhverfi skilvirkara.

Leiðir: Settar verði upp nýjar hillur í starfsmannaaðstöðu og geymslur endurskipulagðar.

Stefna í starfsmannahaldi 2010

Gert er ráð fyrir óbreyttu starfsmannahaldi árið 2009. Lítil sem engin starfsmannavelta hefur verið á Bókasafni Seltjarnarness og gert er ráð fyrir að svo verði áfram. Lögð er áhersla á að fylgja stefnu bæjarins í starfsmannamálum og fagmennska og starfsánægja höfð í fyrirrúmi árið 2010.

Bókasafnið hefur átt  mjög gott samstarf við Bókasafn Mosfellsbæjar og Bókasafn Reykjanesbæjar í símenntunarmálum. Því samstarfi verður áframhaldið árið 2010.

 


Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá