Fréttir og útgefið efni

Á þessari síðu má finna tilkynningar og auglýsingar frá stofnunum bæjarins.

 

Tilkynningar

Diskó á Safnanótt   /   Menning á Sundlauganótt 

5.2.2015

Diskóið verður við völd á Safnanótt á Seltjarnarnesi föstudaginn 6. febrúar, en Seltjarnarnesbær tekur virkan þátt í Vetrarhátíð dagana 5.-8. febrúar með þéttri, fjölskylduvænni og ókeypis dagskrá í Bókasafni Seltjarnarness á föstudagskvöldinu og Sundlaug Seltjarnarness á laugardagskvöldinu. 

Safnanótt – föstudag 6. febrúar kl. 19-24 

Nýr og glæsilegur sýningarsalur, Gallerí Grótta, verður opnaður á Safnanótt. Fyrsti listamaðurinn til að sýna í salnum er myndlistar- og tónlistarmaðurinn Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir meðlimur í hljómsveitinni FM Belfast. Safnanótt stendur frá kl. 19-24 og er lögð áhersla að allir finni þar eitthvað við sitt hæfi, en diskótaktur og diskóljós er undirliggjandi þema næturinnar. 

Dagskrá: 
19:00 Sýningaropnun í Gallerí Gróttu. Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir – Haugurinn 
19:30 Metsöluhöfundurinn og gleðigjafinn Gunni Helga bregður á leik og skemmtir börnum og fullorðnum 
19:00-21:00 Opin diskó-handverks smiðja fyrir börn og foreldra 
20:30 Grease-elding. Helga Laufey Finnbogadóttir og nemendur úr Tónlistarskóli Seltjarnarness með atriði úr Grease 
21:30 Diskódans – Sýningaratriði og danskennsla fyrir alla 
22-23 Lóa Hlín verður með leiðsögn í Gallerí Gróttu 

Gallerí Grótta – Nýtt sýningarými
Gallerí Grótta er heiti á nýjum myndlistar- og sýningarsal sem verður formlega opnaður á Safnanótt föstudaginn 6. febrúar kl. 19. Salurinn er staðsettur á 2. hæð á Eiðistorgi við hlið Bókasafns Seltjarnarness. Fyrsti listamaðurinn til að sýna í salnum er myndlistarmaðurinn Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir sem einnig er kunn sem meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast. Sýningarsalurinn Gallerí Grótta dregur nafn sitt af helsta kennileiti Seltjarnarnesbæjar, Gróttu og er hannaður af Kurt og pí arkitektum, sem hafa hannað marga af glæstustu sýningarsölum landsins. Lógó Gallerí Gróttu hannaði Elsa Nielsen.

Lóa Hlín HjálmýrsdóttirHaugurinn – Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Árið 2014 túraði sextettinn FM Belfast Evrópu af miklum móð. Með í för voru allskyns skrautborðar og glys sem áttu að bæta óreiðu og litum við tónleika sveitarinnar. Hægt og rólega fór skrautið að taka á sig mynd marglitaða Haugsins. Á hverju kvöldi bættist við nýtt skraut, meiri sviti og fleiri bjórdropar. Tilfinningaleg tengsl við Hauginn styrktust og hann stækkaði með hverjum deginum sem leið. Hann tók upp á því að gleypa gleraugu og hálstau hljómsveitarmeðlima sem neyddu hann til þess að skila  gleraugunum, en bindin og slaufurnar mátti hann eiga. Haugnum var troðið í ferðatösku og lá í leyni í flugvélum, rútum og bílaleigubílum. Nú hefur Lóa endurvakið hauginn í Gallerí Gróttu og alls óvíst hvort  ferðalagi hans sé lokið. Á vissan hátt er hann orðinn að sjöunda meðlimi hljómsveitarinnar. 

Safnanótt fer fram í öllum söfnum höfuðborgarsvæðisins kl. 19-24 og sér safnastrætó um að flytja gesti á milli staða þeim að kostnaðarlausu. 
Safnanæturleikurinn verður í gangi þar sem vegleg verðlaun eru í boði. 

Sundlauganótt laugardag 7. febrúar kl. 20-23 – Baðaðu þig í menningu

Hvað er ljúfara en kvöldstund í sundi? Jú, kvöldstund í sundi með ljósin slökkt, upplestur úr bókum, stjörnuskoðun og tónlistaratriði. 

Sundlaug Seltjarnarness býður öllum ókeypis í sund á Sundlauganótt sem haldin verður laugardagskvöldið 7. febrúar frá kl. 20-23 undir yfirskriftinni Baðaðu þig í menningu. 

Dagskrá: 
20:00 - Samflot 
20:30 - Upplestur 
21:00 - Tónlistaratriði 
21:30 - Upplestur 
22:00 - Stjörnuskoðun 
22:30 - Upplestur 


  • Samflot  eru hugsuð sem vettvangur fyrir fólk að koma saman í lauginni og upplifa nærandi slökunarstund í þyngdarleysi, njóta fljótandi slökunar, losa um streitu og upplifa endurnærandi stund í kyrrð vatnsins.     
  • Í upplestrinum munu höfundar lesa úr bókum sínum í hátalarakerfi sem verður á víð og dreif um laugina. 
  • Fjölbreytt tónlistaratriði. 

Nánari upplýsingar um alla viðburði Vetrarhátíðar má finna á vetrarhatid.is. 

Safnanott 2015 - dagskrá
Senda grein

Fara í tilkynningar


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: