Tilkynningar
Jónsmessuhátíð
Andi fortíðar og sköpunarkraftur nútíðar mætast á Jónsmessuhátíð Seltirninga sem haldin verður hátíðleg fimmtudaginn 23. júní. Fjölskyldufólk er sérstaklega boðið velkomið.
Kl. 17:15-17:30 Hákarlaskúrinn við Norðurströnd
Safnast verður saman við hákarlaskúrinn við Norðurströnd. Gestum boðið að reka inn nefið og gæða sér á hnossgæti úr skúrnum. Stjúpmæður leika vel valin lög.
17:40-18:10 Galdrastál við Bygggarða
Galdrasmiðir bjóða gestum að gera eigin smíðagripi með gömlu og nýju verklagi. Þar sem járnið er hamrað heitt eða logsuðunni beitt.
18:10-18:30 Vinnustofuheimsókn
Þjóðþekktir listamenn reka vinnustofur á Bygggörðum. Þeir bjóða gestum að líta inn og skyggnast undir yfirborð verkanna. Á trönum verður hvítur strigi þar sem gestir skapa í sameiningu listaverk í anda Jónsmessunnar.
18:35-19:00 Nesstofa
Átta listakonur bjóða gesti velkomna á samsýninguna Brjóstdropar í Nesstofu, þar sem þær hafa fangað andrúmsloft lækninga og líknar sem einkennir sögu þessa einstaka húss.
19:00-20:00 Snældusnúður og Sunnyside Road í Lækningaminjasafni
Undanfarin 3 ár hefur farið fram uppgröftur á bæjarhól Móakots, sem var hjáleiga frá stórbýlinu Nesi. Gripir og byggingar sem hafa fundist á svæðinu benda til þess að bærinn Móakot eigi sér lengri sögu en áður var talið. Sýndir verða munir, sem fundist hafa við uppgröftinn, og uppgreftri síðustu ára lýst í máli og myndum. Gleðibandið Sunnyside Road leikur á þaki Lækningaminjasafnsins og Hitaveita Seltjarnarness býður upp á þjóðlegar veitingar. Léttur vatnsúðari - ef ekki regnskýin sjálf - sér til þess að börn og fullorðnir geti baðað sig á daggarvotum grasbalanum vestan við safnið áður en haldið er heim á leið.

