Tilkynningar
A Capella tónleikar með Triu
Listahópur Seltjarnarness er um þessar mundir að skipuleggja tónleika í samstarfi við austurríska a capella hópinn Triu, en hann mun halda a capella námskeið fyrir ungt tónlistarfólk þriðjudaginn 12.júlí, sem lýkur með tónleikum í Félagsheimili Seltjarnarness klukkan 20 sama dag.
Triu er skipaður einni söngkonu og tveimur söngvurum sem hafa starfað saman í fimmtán ár og komið fram víða um heim, en lagaval þeirra er mjög fjölbreytt, allt frá vel þekktri jazz- og popptónlist til jóðls og gospels. Hópurinn útsetur öll lög eftir eigin stíl auk þess sem þau hafa samið eigin tónlist og gefið út þrjár plötur.
Á tónleikunum á Seltjarnarnesi mun Triu koma fram með ungu fólki í tónlist, á aldrinum 12-20 ára. Fyrir tónleikana verður haldið námskeið, frá klukkan 11-16, þar sem kennd verða lög og tækni, en afraksturinn verður sýndur í Félagsheimili Seltjarnarness um kvöldið. Aðgangseyrir á tónleikana er 500 krónur.
Meðal þátttakenda og skipuleggjenda viðburðarins er Listahópur Seltjarnarness, hljómsveitin Stjúpmæður, en hún er skipuð fjórum stúlkum á aldrinum 16-17 ára, sem stunda allar tónlistarnám samhliða námi við Menntaskólann við Hamrahlíð.
Námskeiðið er frítt, og er áhugasömum á aldrinum 12-20 bent á að senda skilaboð á Facebook-síðuna Listahópur Seltjarnarness 2016. Takmarkaður fjöldi plássa.