Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Fjölskyldudagur í Gróttu

27.4.2017

Ein traustasta vísbending þess að sumarið sé á næsta leyti er hinn árlegi fjölskyldudagur í Gróttu, sem að þessu sinni verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 29. apríl frá kl. 13:30-15:30. Tímasetning Gróttudagsins er breytileg frá ári til árs, sem helgast af flóði og fjöru, en aðeins er hægt að fara út í Gróttu tvisvar sinnum á sólarhring nokkra tíma í senn.

Gróttuviti opinn

Eitt helsta aðdráttaraflið á Gróttudeginum er sjálfur Gróttuviti en þetta er eini dagur ársins þar sem gestum og gangandi er boðið að ganga upp í vitann og njóta hins óviðjafnanlega útsýnis þegar efst er komið. Inni í vitanum leikur tréblásarakvartett frá Tónlistarskóla Seltjarnarness líflega balkantónlist.

Hönnunarsýningin Flæði

Sérstök hönnunarsýning verður sett upp í vitavarðarhúsinu í tilefni af deginum, en sýningarstjórn er í höndum Sigríðar Hjaltdal Pálsdóttur. Á sýningunni getur að líta muni eftir Bybibi, Dögg design, Gullsmiðir Erling – Helga Ósk, HAF studio, Skötu og Varpið, en hönnun þeirra tengist á einn eða annan hátt hafinu og lífríki sjávarins.

Hönnun í Gróttu

Fjölbreytt dagskrá

Meðal þess sem boðið er upp á fyrir alla fjölskylduna er útijóga meðRagnheiði Ýr Grétarsdóttur, flugdrekasmiðja með Ágústu Nielsen og andlitsmálun auk þess sem Þorkell Heiðarsson líffræðingur og sviðsstjóri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins aðstoðar gesti við að rannsaka og greina lífríkið sem finna má í fjörunni við Gróttu.

Valgeir GuðjónssonHin ástsæli söngvari og skemmtikraftur Valgeir Guðjónsson mun flytja vel valin lög í Fræðasetrinu og harmonikkuleikarinn snjalli, Bjarki Harðarson, þenur nikkuna undir berum himni.

Vöfflukaffi

Allir geta keypt vöfflur og kaffi á sanngjörnu verði sem Soroptimistar á Seltjarnarnesi sjá um. Sala fer fram í Albertsbúð og fræðasetrinu.

Ef veður og vindar leyfa munu hreystimenni úr Björgunarsveitinni Ársæli sýna sjóbjörgun fyrir utan Gróttu og klifurmeistarar úr Klifurhúsinu klífa niður vitann og bregða á leik.

Tilvalið er að taka með sér fötu og skóflu og safna dýrgripum úr fjörunni; kuðungum, skeljum og kröbbum eða öðru því sem þar kann að leynast.

Félagar úr Björgunarsveitinni Ársæli munu sjá um að ferja gesti yfir eiðið.

Í Albertsbúð verður sumri fagnað með vorsöngvum, harmónikkuleik og stuttri hugvekju í umsjá sr. Bjarna Þórs Bjarnasonar og Friðriks Vignis Stefánssonar, organista. Stundin hefst kl. 13.15.

Opið er út í Gróttu frá kl. 13-16:30.

Gróttudagur

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: