Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Jón Jónsson og Frikki Dór fóru á kostum í Brekkunni

30.8.2017

Gleðin var  svo sannarlega við völd á Seltjarnarnesi um síðustu helgi þegar bæjarhátíð Seltjarnarness fór fram. Þetta var í fimmta sinn sem hún var haldin en hátíðin í  ár var sú umfangsmesta og dagskráin aldrei verið fjölbreyttari. Enn og aftur var metþátttaka og veðrið var með ágætasta móti alla helgina.

Bæjarhátíð 2017  Bæjarhátíð 2017

Hátíðin hófst með sundlaugarpartýi sem fram fór á föstudeginum og hitti það beint  í mark hjá bæjarbúum, sértstaklega yngri kynslóðinni. Frítt var í laugina og ræktina allan daginn, boðið var upp á tónlistaratriði þar sem fram komu hljómsveitirnar Stjúpmæður og Tapír. Þau glöddu gesti og gangandi með seiðandi og fjörugri sumartónlist. Þá var Olga Dobrorodnya kennari hjá World Class með vatnazúmba sem vakti mikla lukku hjá sundlaugargestum. Arna –ís og kaffibar bauð upp á laktósafrían ís á sundlaugarbakkanum við mikla lukku gesta.

Bæjarhátíð 2017  Bæjarhátíð 2017

Í annað skipti í sögu Seltjarnarnesbæjar fór fram Brekkusöngur í Plútóbrekku á föstudagkvöldinu sem var einn af hátindum bæjarhátíðarinnar. Jóhann G. Jóhannsson leikari var kynnir kvöldsins og stýrði dagskránni af sinni alkunnu snilld. Hinir bráðefnulegu strákar í hljómsveitinni Tapír hituðu upp fyrir Brekkusönginn í ár með nokkrum vel völdum rokklögum við góðar undirtektir bæjarbúa. Í framhaldinu steig popp-söngvarinn Frikki Dór á svið og skemmti gestum við ansi góðar undirtektir og fögnuð þeirra. Síðastur til að stíga á svið var Jón Jónsson ein af stórstjörnum Íslands og jafnframt einn fremsti popp-söngvari landsins. Jón Jónsson söngvari stýrði brekkusöngnum í ár og tóku þeir bræður lagið saman við mikinn fögnuð viðstaddra. Bræðurnir geðþekku Frikki Dór og Jón Jónsson fluttu mörg af sínum vinsælustu lögum í bland við önnur. Bræðurnir spjölluðu líka eilítið á milli laga sem þeir deildu með áhorfendum og féll það vel í kramið hjá bæjarbúum.

Bæjarhátíð 2017 Bæjarhátíð 2017

Stemningin í brekkunni var stórkostleg, en fjölmennni lagði leið sína á Brekkusönginn og talið er að hátt í 700 manns hafi mætt á svæðið. Bæjarins beztu buðu upp á pylsur og með þeim og Veislan bauð upp á rjúkandi heita íslenska kjötsúpu í brekkunni. Framtakinu var afar vel tekið af bæjarbúum og skemmtu ungir sem aldnir sér vel saman.

Bæjarhátíð 2017 Bæjarhátíð 2017

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fór fram á laugardeginum og meðal þess sem var í boði var hjólareiðatúr með Bjarna Torfa bæjarfulltrúa, skemmtiskokk á vegum Trimmklúbbs Seltjarnarness. Íþróttafélagið Grótta bauð upp á ratleiki og þrautir sem og að deildirnar kepptu innbyrðis í fótbolta og handbolta. Jafnframt var bæjarbúum boðið á leik meistaraflokks karla í knattspyrnu á Vivaldi vellinum þar sem Grótta lék gegn Þór Akureyri. 

Bæjarhátíð 2017 Bæjarhátíð 2017

Það sem bar hæst á þessum degi var götugrill bæjarins sem haldið var sameiginlega fyrir öll hverfin á rólóvellinum við Vallarbraut og var stemningin einstaklega góð. Þátttakan í götugrilli bæjarins fer vaxandi með ári hverju og er sannkölluð fjölskyldustund. Ánægjulegt var að sjá bæjarbúa taka höndum saman, ungir sem aldnir tóku þátt. Sumir hverjir tóku hverfalitinn sinn alla leið og mættu í sínum eigin einkennislit frá toppi til táar og dekkuðu borð í sama lit.

Andrea Þóra Ásgeirsdóttir og Bára Jónsdóttir  Bollagarðar 101

Íbúar Seltjarnarnes kepptust við að skreyta húsin í einkennislit sínum en veittar voru viðurkenningar fyrir frumlegustu húsaskreytinguna og flottustu götuna í Appelsínugulu messunni sem haldin var í Seltjarnarneskirkju á sunnudeginum. Bollagarðar 101 hlaut titilinn frumlegasta húsaskreytingin í ár og Miðbrautin hlaut viðurkenningu fyrir að vera flottasta gatan í ár. Sjöfn Þórðardóttir verkefnastjóri Bæjarhátíðar Seltjarnarness afhenti Báru Jónsdóttur viðurkenningu fyrir frumlegustu húsaskreytinguna og verðlaun, gjafabréf út að borða fyrir alla fjölskylduna á Rauða Ljóninu. Andrea Þóra Ásgeirsdóttir tók við viðurkenningu fyrir hönd íbúana við Miðbraut en fólkið við Miðbrautina hefur ávallt staðið sig framúrskarandi vel við að skreyta götuna sína og verið öðrum góð fyrirmynd til eftirbreytni.

Bæjarhátíð 2017Í tilefni Bæjarhátíðarinnar stóð Nesklúbburinn fyrir púttmóti og golfþrautum á golfvellinum fyrir yngri kynslóðina og voru þeir einnig með leiðbeinendur frá Nesklúbbnum til að sýna börnunum grunntökin í golfi. Þessi nýbreytni vakti mikla ánægju með þátttakenda.

Annar af hátindum Bæjarhátíðarinnar var lokasýning leikritsins ,,Ég og minn bipolar bróðir”. Leikritið er nýtt verk eftir Tómas Gauta Jóhannsson sem leikur jafnframt annað aðalhlutverkið ásamt Gissuri Ara Kristinssyni. Verkið fjallar um eineggja tvíburana Jakob (Tómas) og Pétur (Gissur) og þeirra lífsbaráttu, þegar annar þeirra greinist með geðhverfasýki. Þeir verða svart og hvítt og margar hindranir standa í vegi fyrir þeim, bæði á hinu félags- og andlega sviði. Verkið er afrakstur skapandi sumarstarfa hjá Seltjarnarnesbæ. Bæjarbúum var boðið á leikritið og var fullur salur sem fagnaði ákaft þegar sýningu lauk og leikendum og leikstjóra var klappað lof í lófa. Lauk bæjarhátíðinni við þessa hátíðlegu stund.

Gaman er að segja frá því að ýmsar hefðir hafa verið að myndast kringum bæjarhátíðina og fyrirtækin innan bæjarins eru farin að taka meiri þátt í gleðinni með bæjarbúum. Sem dæmi má nefna að Snyrtistofan Leila bauð upp á Guerlain kynningu, gómsætar veigar og ljúfa tóna. Friðrik Karlsson gítarleikari spilaði fyrir gesti og gangandi sem vakti mikla lukku. Arna ís- og kaffibar var með tilboð á rjúkandi heitum vöfflum með ís, Íslenka Flatbakan bauð upp á pizzutilboð og Golfskálinn var með tilboð á golfmóti yngri kynslóðarinnar svo dæmi séu tekin.

Eftirtöld fyrirtæki voru styrktaraðilar Bæjarhátíðar Seltjarnarness í ár, Arna ís- og kaffibar, Brim, Bæjarins Beztu Pylsur, Nesskip og World Class. Án þátttöku þeirra væri Bæjarhátíðin ekki eins glæsileg og raun bar vitni og er þeim þakkaður stuðningurinn.

Hryggjastykkið í hátíðinni voru bæjarbúarnir sjálfir en án þeirra þátttöku væri hátíðin svipur hjá sjón. Undirbúningurinn og hátíðin tókust mjög vel og við hlökkum til næsta árs. 

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: