Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Verðlaunaafhending og sýning í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi

16.5.2019

Boðskort

Föstudaginn 17. maí kl. 17.00 verður við hátíðlega athöfn á Eiðistorgi tilkynnt um sigurvegara í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi. Við sama tækifæri verður opnuð sýning á öllum innsendum keppnistillögum en mikill áhugi var á keppninni. Alls bárust 27 tillögur frá innlendum og erlendum arkitektum. Sýningin stendur til þriðjudagsins 21. maí nk.

Hátíðarávörp og dagskrá:

  • Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar flytur ávarp
  • Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur, formaður dómnefndar,  gerir grein fyrir niðurstöðum dómnefndar og kynnir vinningstillöguna
  • Afhending verðlauna og viðurkenninga
  • Magnús Örn Guðmundsson forseti bæjarstjórnar stýrir dagskrá

Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, auglýsti þann 1. desember 2018, opna tveggja þrepa samkeppni um nýjan 16 deilda leikskóla á Seltjarnarnesi. Nýjum leikskóla er ætlað að rúma 300 börn og er það er einsdæmi í byggingarsögu leikskóla hér á landi. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 2.400 m² nettó, en keppnissvæðið í heild er tæplega 10.000 m² að stærð. Þar skal gert ráð fyrir leiksvæði, aðkomu og bílastæðum. Í keppnislýsingu var lögð mikil áhersla á góða góða aðstöðu fyrir börn og starfsfólk, nýtingu rýmis og samspil úti- og innisvæða.


Dómnefnd var skipuð fimm fulltrúum

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Seltjarnarnesbæ (útbjóðanda):

  • Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Skipulags-, arkitekta og verkfræðistofunni ehf. en Gestur var jafnframt formaður dómnefndar.
  • Soffía Guðmundsdóttir, leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness
  • Baldur Pálsson, fræðslustjóri Seltjarnarnesbæjar

Dómnefndarfulltrúar tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:

  • Sigurður Hallgrímsson, arkitekt hjá Arkþing ehf.
  • Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna


Eins og áður segir var mikill áhugi fyrir keppninni en 27 tilllögur bárust frá innlendum og erlendum arkitektum. Dómnefnd valdi fjórar þeirra til áframhaldandi þátttöku á öðru þrepi keppninnar. Alls verða veittar sjö viðurkenningar og peningaverðlaun í hátíðarathöfninni. Auk sigurvegarans fá þær þrjár tillögur sem einnig komust á annað þrep í samkeppninni verðlaun og þremur tillögum verður veitt viðurkenningin „Innkeypt tillaga“.

Á sýningunni á Eiðistorgi gefst bæjarbúum og öllum áhugasömum tækifæri til að skoða allar 27 keppnistillögurnar, hverjir standa á bak við þær og umsagnir dómnefndar. Verðlaunatillögur verða auðkenndar sérstaklega. 

Sýningin stendur til þriðjudagsins 21. maí 2019.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: