Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Umferðaröryggismál - tillögur að breytingu um og við Eiðistorg 

2.12.2019

TILKYNNING TIL ÍBÚA ER VARÐAR UMFERÐARÖRYGGISMÁL UM OG VIÐ EIÐISTORG!
Í ljósi fjölda ábendinga íbúa bæjarins hefur skipulags- og umferðarnefnd, í samráði við umhverfissvið Seltjarnarnesbæjar og umferðar- og samgönguverkfræðing hjá VSÓ Ráðgjöf, unnið að útfærslu til að bæta öryggi gönguleiða um og við Eiðistorg. Útfærslan er unnin í samráði við hagsmunaaðila Eiðistorgs 11-17.

Nú liggur fyrir tillaga að breytingu á svæðinu sem hefur það að markmiði að bæta umferðaröryggi og aðgengi skólabarna og annarra vegfarenda um og við Eiðistorg. Hér gefst íbúum kostur á að kynna sér fyrirhugaðar breytingar á meðfylgjandi mynd.

Fyrirhugaðar breytingar um og við Eiðistorg eru eftirfarandi:

SUÐURMÝRI VERÐUR EINSTEFNUGATA
Suðurmýri verður einstefnugata til norðurs frá gatnamótum Kolbeinsmýrar að Eiðistorgi samkvæmt deiliskipulagi.

ÖRYGGI GANGANDI VEGFARENDA UM OG VIÐ EIÐISTORG VERÐUR BÆTT:
Tillaga að breyttri og öruggari gönguleið um og við Eiðistorg verður skilgreind annars vegar sunnan Eiðistorgs og yfir Nesveg og hins vegar milli Mýrarhverfis og verslana Eiðistorgs (sjá mynd).

Vegna gönguleiðar sunnan Eiðistorgs og yfir Nesveg verða eftirfarandi breytingar gerðar:
  • Núverandi gönguljósum á Nesvegi við Eiðistorg verður lokað og ný gönguljós sett sunnar.
  • Koddar, sem eru hraðatakmarkandi aðgerðir á Nesvegi, verða færðir sunnar.
  • Tengingu milli Suðurmýrar og Eiðistorgs verður lokað og ný útkeyrsla opnuð út á Nesveg við ný gönguljós.
  • Frá Nesvegi verður akstri inn og út af bílaplaninu breytt í einstefnuakstur með þeim hætti að ekið verður inn á planið sunnan megin og út af planinu norðan megin.
  • Lokað verður fyrir akstur meðfram horni verslunarhúsnæðis til að tryggja öruggari gönguleið frá Mýrarhverfi og að verslunarhúsinu í gegnum bílaplan Eiðistorgs.
  • Akstur á milli svæða á bílaplani Eiðistorgs verður eftir breytingar einungis mögulegur á einum stað, þ.e. yfir nýja upphækkaða gönguleið nær Mýrarhverfinu.
  • Breytingar á Eiðistorgi

Ábendingar:
Hafi íbúar athugasemdir eða ábendingar varðandi ofangreindar tillögur er óskað að þeim verði komið á framfæri eigi síðar en miðvikudaginn 11. desember 2019. Ábendingum má koma til skila í síma 5959100, á bæjarskrifstofu Seltjarnarnesbæjar, Austurströnd 2, eða á netfangið postur@seltjarnarnes.is.

Seltjarnarnesi, 25. nóvember 2019
Sigurður Valur Ásbjarnarson
skipulags- og byggingarfulltrúi
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: