Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Íris Björk Símonardóttir og Pétur Theodór Árnason íþróttakona og maður Seltjarnarness 2019

31.1.2020

Kjör íþróttamanns- og konu Seltjarnarness fór fram fimmtudaginn 30. janúar að viðstöddu fjölmenni í Félagsheimili Seltjarnarness. Kjörið fór nú fram í 27. skiptið en það var fyrst haldið 1993. Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa. Jafnframt voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks auk þess sem Íslandsmeistarar voru sérstaklega verðlaunaðir. Einnig voru veitt verðlaun fyrir félagsstörf. Öllu þessu framúrskarandi flotta íþróttafólki eru sendar innilegar hamingjuóskir með viðurkenningarnar og frábæran árangur.

Pétur Theodór Árnason og Íris Björk Símonardóttir

Íþróttakona Seltjarnarness 2019

Íris Björk Símonarsdóttir er fædd árið 1987 og er uppalin með Gróttu,  var markmaður liðsins upp í meistaraflokk og varð Íslands-og bikarmeistari með félaginu 2015 og 2016. Hún hefur frá árinu 2018 verið markmaður Vals og var á síðasta ári valin besti leikmaður Olís deildarinnar, besti markmaður deildarinnar auk þess sem hún hlaut Sigríðar-bikarinn sem er veittur fyrir mikilvægasta leikmann deildarinnar.

Nú í desember var hún svo tilnefnd sem handknattleikskona ársins 2019. Íris Björk hefur í mörg ár átt sæti í A landsliðiði kvenna og gaf aftur kost á sér eftir nokkurra ára hlé nú síðstliðið haust. Hún á að baki 71 landsleik með liðinu og hefur skorað í þeim 4 mörk.

Íris Björk er hjúkrunarfræðingur að mennt, er gift tveggja barna móðir og er frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur innan sem utan vallar. 

Íþróttamaður Seltjarnarness 2019 

Pétur Theodór er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi. Hann er 24 ára gamall og lék upp alla yngri flokkana með Gróttu. Þegar Pétur var aðeins 16 ára gamall spilaði hann sína fyrstu leiki með Gróttu í 1. deild og lék einnig með U16 ára landsliði Íslands á Norðurlandamótinu. Þá um haustið fór Pétur á reynslu til enska liðsins Reading og var viðloðandi landsliðshópa næstu misseri. Sumarið 2013 lenti Pétur í því áfalli að slíta krossband í hné og ári síðar, eftir margra mánaða endurhæfingu, slitnaði krossbandið aftur. Síðan þá hefur ferill Péturs farið smám saman upp á við en hann kom sterkur inn í Gróttuliðið um mitt sumar 2018 og hjálpaði liðinu að komast upp úr 2. deild.

Árið 2019 var ár Péturs Theodórs. Hann var markahæsti leikmaður Mjólkurbikarsins með 9 mörk og var lykilmaður í liði Gróttu sem sigraði Inkasso-deildina eftirminnilega í sumar. Pétur var valinn besti leikmaður fyrri hluta mótsins, hann var markakóngur deildarinnar með 15 mörk í 22 leikjum og í lok tímabilsins var Pétur í liði ársins! Pétur Theodór var valinn leikmaður ársins hjá Gróttu á lokahófi meistaraflokkanna en einnig var hann kjörinn leikmaður leikmanna af liðsfélögum sínum. Pétur er mikill liðsmaður með stórt Gróttuhjarta. Hann æfir af krafti og hugsar vel um sig utan vallar. Fyrirmyndarleikmaður í einu og öllu.

Kjör íþróttakonu og manns Seltjarnarness 2019

Glæsilegt íþróttafólk sem hlaut tilnefningar til íþróttakonu og manns Seltjarnarness 2019

Íslandsmeistarar

Íslandsmeistarar

Landsliðsfólk á Seltjarnarnesi 2019

Landsliðsfólk á Seltjarnarnesi 2019

Ungt og efnilegt íþróttafólk á Seltjarnarnesi

Ungt og efnilegt íþróttafólk á Seltjarnarnesi

Daníel Ingi Arason og Jenný Guðmundsdóttir

Daníel Ingi Arason og Jenný Guðmundsdóttir hlutu viðurkenningar fyrir félagsstörf


Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: