Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Seltjarnarnesbæjar

3.3.2020

Opinn íbúafundur var haldinn 26. febrúar sl. í Félagsheimilinu þar sem Haraldur Líndal hagfræðingur kynnti helstu niðurstöður nýrrar stjórnsýsluúttektar fyrir íbúum. Við vinnslu skýrslu sinnar studdist Haraldur við gögn frá sveitarfélaginu og til samanburðar voru skoðuð gögn varðandi rekstur sambærilegra sveitarfélaga. Úttektin byggir meðal annars á viðtölum við stjórnendur og forstöðumenn einstakra málaflokka á sviðum bæjarins. Auk greiningarinnar á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum hefur Haraldur lagt fram fjölmargar ábendingar og tillögur um hvernig bæta megi reksturinn og verða þær teknar til skoðunar með stjórnendum bæjarins.

Í bókun bæjarstjórnar um úttektina segir: ,,Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar lýsir ánægju með framkomna skýrslu sem staðfestir traustan rekstur bæjarfélagsins þar sem starfsmenn leggja sig fram af metnaði og með fagmennsku að leiðarljósi við að veita bæjarbúum góða þjónustu. Í skýrslunni felast jafnframt tækifæri til að gera enn betur með það að markmiði að fylgja eftir tillögum og ábendingum til að bæta rekstur, fjárhag og þjónustu bæjarins.“

Skýrsla um stjórnsýslu, rekstur og fjármál Seltjarnarnesbæjar.

Ítarleg greining á rekstri og fjármálum

Í greiningunni hefur íbúaþróun verið skoðuð, farið var í greiningu á skuldum, veltu- og handbæru fé frá rekstri. Einnig hefur verið skoðað hvernig ársreikningur hefur komið út í samanburði við fjárhagsáætlun. Rekstrarafkoma, laun og önnur rekstrarútgjöld hafa verið greind og einnig er þar að finna greiningu á tekjum sveitarfélagsins, samsetningu tekna o.fl. Í úttektinni er farið yfir hvernig fjöldi stöðugilda hefur þróast síðustu ár í samanburði við önnur sveitarfélög af svipaðri stærð.

Aðgerðaráætlun um tillögur og ábendingar til úrbóta

Í skýrslunni eru lagðar fram 66 tillögur ásamt ábendingum um það sem sérstaklega er vert að skoða í stjórnsýslu, rekstri og fjármálum bæjarins. Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 20. febrúar sl. að fela bæjarstjóra að vinna aðgerðaráætlun um framgang einstakra tillagna og fylgja eftir ábendingum sem koma fram í skýrslunni. Aðgerðaráætlun verður lögð fram í bæjarráði Seltjarnarnesbæjar innan 2ja mánaða og stöðumat eftir sex mánuði.

Nýtt skipurit Seltjarnarnesbæjar tók einnig gildi 1. mars sl.

Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkti á bæjarstjórnarfundi þann 20. febrúar sl., tillögu ráðgjafafyrirtækisins HLH ehf., um nýtt skipurit yfirstjórnar sveitarfélagsins. Með nýju skipuriti er stjórnsýslusviðum breytt og verða þau nú fjögur. Skýrsla Haraldar L. Haraldssonar ráðgjafa varðandi úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjárhag Seltjarnarnesbæjar verður kynnt stjórnendum næstu daga.

Nýtt stjórnskipulag, sem tók formlega gildi 1. mars sl., miðar að því að færa uppbyggingu og virkni stjórnskipulags Seltjarnarnesbæjar til þess sem almennt gildir hjá sveitarfélögum af sambærilegri stærð, með því að gera rekstur bæjarins einfaldari og skilvirkari. Skipurit þarf að styðja við góða stjórnarhætti með skýrum hlutverkum einstakra eininga. Í nýju skipuriti er stjórnsýslu og rekstri skipt upp í fjögur svið eins og lagt er til í skýrslu Haraldar L. Haraldssonar, hagfræðings. Á hverju sviði er einn sviðsstjóri sem ber ábyrgð gagnvart bæjarstjóra á öllum málaflokkum, sem undir sviðið heyra. Nýtt skipurit kallar ekki á aukinn launakostnað eða mannaráðningar.

Samkvæmt nýju skipulagi verða svið Seltjarnarnesbæjar nú fjögur og verður skipting þeirra með eftirfarandi hætti:

Fjölskyldusvið 
Skipulags- og umhverfissvið 
Fjármálasvið 
Þjónustu- og samskiptasvið

Bæjarstjórn vill lýsa ánægju sinni með nýtt skipurit bæjarins. Lykilorð þess er samvinna og er því ætlað að skýra hlutverk og ábyrgð og stuðla þannig að góðri stjórnsýslu, vönduðum ákvörðunum og skilvirkri framkvæmd þeirra. Verkefni sveitarfélaga eru flókin í eðli sínu og því er nauðsynlegt að vanda til verka við útfærslu skipuritsins, þannig að fyrir liggi með skýrum hætti hvar ábyrgð liggur á framkvæmd, innleiðingu, eftirfylgni og eftirliti.

Með því að sameina verkefni félagsþjónustu og fræðslumála á undir nýju sviði, Fjölskyldusvið, er undirstrikað mikilvægi þess að þeir starfsmenn, sem koma að málefnum fjölskyldna, vinni náið saman. Þetta er í samræmi við þróun sem hefur átt sér stað hérlendis á undanförnum árum, sem í dag má m.a. sjá í áherslum félags- og barnamálaráðuneytis. Baldur Pálsson mun veita Fjölskyldusviði forstöðu.

Með því að sameina verkefni framkvæmdasviðs, skipulags- og byggingarsviðs undir nýju sviði, Skipulags- og umhverfissvið, er undirstrikað mikilvægi þess að þeir starfsmenn, sem koma að þessum málum vinni náið saman undir einni yfirstjórn. Skipulags- og byggingarmál snúast í dag að stórum hluta um ítarlega og vandaða stjórnsýslu. Lagaleg álitamál verða jafnframt æ algengari í þessum málaflokki. Starfs sviðsstjóra Skipulags- og umhverfissviðs verður auglýst.

Menningar- og samskiptasvið mun framvegis heita Þjónustu og samskiptasvið, undir það svið hafa verkefni er snúa að rafrænni stjórnsýslu, persónuverndarmálum, gæðastjórnun, lögfræði og málarekstur og skjalavarsla verið færð og bætast við önnur verkefni sviðsins. María Björk Óskarsdóttir mun veita Þjónustu og samskiptasviði forstöðu.

Fjármálasvið mun áfram heita Fjármálasvið, en á sviðinu hefur verið skerpt á fjármálaeftirliti, hagstjórn og áætlanagerð, auk mannauðsmála og kjaramála. Síðastliðið sumar var samþykkt ráðning á löggiltum endurskoðanda á fjármálasviði m.a. til að draga úr þörfinni á aðkeyptri sérfræðiþjónustu við ársreikning bæjarins. Gunnar Lúðvíksson mun veita Fjármálasviði forstöðu.

Það er markmið og hugsjón Seltjarnarnesbæjar að með ofangreindum breytingum muni boðleiðir styttast og verða einfaldari. Markvissari stjórnun mun einnig hafa í för með sér bætt skipulag og aukna skilvirkni, sem aftur verður til þess að nýta fjármuni betur og bæta þjónustu við bæjarbúa.

Skipurit

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: