Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Breytingar á Akstursþjónustu fatlaðs fólks

30.6.2020

Framundan eru breytingar á Akstursþjónustu fatlaðs fólks sem ekið hefur undir merkjum Strætó síðastliðin 5 ár. Um mánaðamótin mun þjónustan verða aðskilin frá starfsemi Strætó og skipt verður um nafn, útlit og skipulag. Þjónustan mun bera heitið Pant akstur og heimasíðan verður www.pantakstur.is. Pant akstur mun sinna akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildum Kópavogi og Hafnarfjarðarbæ. 

Markmiðið er að gera þjónustuna einfaldari, nútímalegri og betur sniðna að þörfum hvers notanda. Til að mynda verður ekki lengur takmarkaður ferðafjöldi á hvern einstakling og ákvæði sem skerða rétt á þjónustu, svo sem hjá þeim sem þiggja bílastyrk frá TR, verða felld úr gildi. Aksturstími verður einnig lengdur á stórhátíðardögum og verður héðan í frá ekið til kl. 22:00 á aðfangadegi og gamlársdegi og til kl. 24:00 á öðrum stórhátíðardögum. Sérstakt app er væntanlegt til notkunar í haust en það mun gera notendum kleift að panta ferðir og fylgjast með bílunum sínum í rauntíma. 

Stefnt er að því að semja við Hópbíla um að sinna akstrinum næstu 5-7 árin. Stjórn Pant aksturs verður sett saman úr fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Erlendur Pálsson verður sviðstjóri þjónustunnar.

Breytingar á Akstursþjónustu fatlaðs fólks

Nánari upplýsingar um allar breytingarnar eru aðgengilegar inn á akstursthjonusta.is en helstu breytingar frá 1. júlí á akstursþjónustu fatlaðs fólks eru:

 • Felld eru á brott ákvæði sem takmarka rétt á þjónustu, s.s. hjá fólki sem fær bílastyrk hjá TR og ferðafjöldi er ekki takmarkaður
 • Pöntunartími þjónustuvers verður til kl. 16:00 á virkum dögum, var áður til kl. 18:00.  (Áfram er þó vakt eftir kl. 16).
 • Aksturstími er styttur til miðnættis, þ.e. til kl. 24:00 í stað kl. 1:00. Á föstudags- og laugardagskvöldum er ekið áfram til kl. 1:00.
 • Aksturstími á stórhátíðardögum er lengdur til kl. 22:00, var áður til kl. 17:00.
 • Í stað samráðshóps félagsmálastjóra er skipuð sérstök stjórn akstursþjónustu.
 • Unnið verður að því að efla notendur til aukins sjálfstæðis og frekari virkni í notkun almenningssamgangna samhliða akstursþjónustu.    

Aðrar breytingar sem verða á þjónustunni eru:

 • Myndavélar verða í öllum sérútbúnum bílum og verður slíkum bílum fjölgað úr 30 í 45. (Verktaki hefur ár til að mæta þessum kröfum).
 • Notkun leigubíla eykst að sama skapi úr 10% í 30% ferða og samið verður við ákveðna leigubílstjóra/leigubílastöð um fastar ferðir.
 • Beintenging verður við aksturskerfi leigubílastöðvar.
 • Notkun smáforrits sem hægt er að setja upp í snjalltækjum eins og síma og spjaldtölvum. Hægt að panta og afpanta ferðir í forritinu, sjá yfirlit yfir ferðir o.s.frv. Áætlað er að forritið verði tilbúið í október nk.
 • Heimasíðan akstursthjonusta.is verður pantakstur.is  Á heimasíðunni er að finna allar upplýsingar um þjónustuna. 
 • Verið er að skoða útfærslu umsókna/pantana með notkun íslykils/rafrænna skilríkja.

Allir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks munu fá bréf á næstu dögum, þar sem gerð verður grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á þjónustunni.


Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: