Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020 lagður fyrir bæjarstjórn

14.5.2021

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020, sem lagður var fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar, miðvikudaginn 12. maí 2018, lýsir mjög sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Gott og mikið samstarf hefur verið við minnihlutann allt Covid-19 árið 2020 til að bregðast við ýmsum þáttum, í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Einnig var gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð þeirra. Niðurstöður ársreikningsins sýna að starfsfólk bæjarins hefur staðið sig mjög vel á erfiðum tímum. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar hefur tekið á sig aukin verkefni  sem fylgt hafa Covid-19 og starfsfólkið hefur forgangsraðað út frá öryggissjónarmiðum og brýnni þörf. Starfsfólk bæjarins hefur sýnt æðruleysi og brugðist við síbreytilegum veruleika og haldið úti eins mikilli þjónustu og mögulegt hefur verið, oft við mikla óvissu um eigið öryggi. Það er á engan hallað þó framlínustarfsfólk í leikskólum bæjarins sé nefnt sérstaklega.

Ekki var gripið til niðurskurðar á árinu 2020 heldur þvert á móti bætt í. Skoðaðir voru einstaka útgjaldaþættir og spurt áleitinna spurninga um eðli og tilgang. Bæjarstjórn samþykkti útgjaldaaukningu að fjárhæð 170 mkr til að mæta kostnaði og samdrætti í tekjum vegna ástandsins vegna Covid19. Haldið var úti sömu þjónustu fyrir minni útsvarstekjur sem skýrir hallarekstur á árinu 2020. Veltufé frá rekstri nam 253 mkr. sem er sterkt í ljósi ástandsins og nettófjárfestingar numu um 260 mkr. á liðnu ári. Engin ný langtímalán voru tekin á árinu 2020 og skuldaviðmið sveitarfélagsins stóð í 67% í árslok sem er með því besta sem gerist.

Halli á samstæðureikningi Seltjarnarnesbæjar árið 2020 er alls 230 milljónir króna, sem er viðunandi niðurstaða í ljósi efnahagssamdráttarins vegna Covid-19 og beins kostnaðar og tekjutaps sem af honum hlaust. Hægt er að rekja að lágmarki 160 mkr. til heimsfaraldurs Covid-19 og 230 mkr. til óvenjulegrar hækkunar á lífeyrisskuldbindingu inn í framtíðina vegna breytinga á lífslíkum. Án ofangreindra áfalla hefði orðið afgangur af rekstri samstæðu upp á rúmar 100 milljónir króna. Niðurstaða ársreiknings 2020 er því áfangasigur í ljósi þess heimsfaraldurs sem einkenndi liðið ár. Á liðnu ári voru miklar framkvæmdir hjá bænum. Á síðustu fjórum árum hefur verið framkvæmt fyrir tæpa fjóra milljarða króna. Á yfirstandandi ári verður helsta og mikilvægasta verkefnið að byggja sambýli fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20.

Covid-19  árið 2020 og sá heimsfaraldur sem reið yfir hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Ríkisstjórnir, fyrirtæki og almenningur um allan heim hafa þurft að berjast á móti þeim afleiðingum sem faraldur hefur haft í för með sér. Sama gildir um öll sveitarfélög í landinu, sem fengu það hlutverk í samstarfi við ríkisstjórnina að standa vörð um íbúa sína og sitt starfsfólk.

Markmið bæjarins á Covid tímum hefur verið að styðja við og styrkja efnahag, samfélag og þjónustu bæjarins. Bærinn hefur axlað byrðar með ríkinu og má þar benda á niðurskurð Jöfnunarsjóðsframlaga. Bæjarfélagið hefur einnig tekið á sig tekjulækkun og kostnaðarauka vegna sérstakra eigin aðgerða og utanaðkomandi aðstæðna.  

Enn er mikil óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni og erfitt að leggja fram traustar forsendur fyrir komandi fjárhagsáætlun ársins 2022 eins og fyrir núverandi ár.  Ljóst er að árið 2021 verður afar erfitt í íslenskum þjóðarbúskap og markast þær forsendur sem hér koma fram í ársreikningi bæjarins fyrir árið 2020 mjög af því.  Stefnan í ríkisfjármálum er einn helsti áhættuþátturinn fyrir næstu fjárhagsáætlun 2022. Vinnumarkaður, allar spár s.s. Seðlabanka og fjármálaráðuneytis, gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði svipað á næsta ári.  Viðbúið er að atvinnuleysi  í heild verði á bilinu 9,5% til 11,5% á landinu.  Svo mikið atvinnuleysi mun vafalítið hafa mikil áhrif á tekjumyndun og því umtalsverð óvissa  um þróun atvinnulífsins á næstu misserum.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: