Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

17. júní 2021: Flöggum og fögnum - Fjölskyldan saman!

11.6.2021

Í ljósi gildandi fjöldatakmarkana vegna Covid-19 þá verða ekki hefðbundin 17. júní hátíðarhöld á Seltjarnarnesi en boðið er upp á 17. júní ratleik, ísbíllinn verður á ferðinni, hátíðaropnun í sundlauginni o.fl. Við hvetjum íbúa því eindregið til að halda daginn hátíðlegan og njóta samveru með fjölskyldu og vinum.


17. júní 2021

17. júní 2021FLÖGGUM OG FÖGNUM - FJÖLSKYLDAN SAMAN

Kæru íbúar!

Annað árið í röð ár erum við sem þjóð, eins og heimsbyggðin öll, að takast á við COVID-19. Faraldurinn hefur gert það að verkum að ennþá er ekkert hefðbundið eða venjulegt og allir hafa þurft að aðlagast breyttum aðstæðum. Þjóðin hefur svo sannarlega staðið saman í baráttunni og árangur okkar verið afar góður. Áfram þurfum við þó að sýna ábyrgð og fara gætilega með það að markmiði að viðhalda árangrinum. Ljósið við enda ganganna stækkar stöðugt með fjölgun bólusetninga. Þrátt fyrir batnandi tíð og töluverðar tilslakanir búum við þó enn við miklar fjöldatakmarkanir og reglur er varða sóttvarnir og þurfum að virða öll tilmæli sem okkur eru sett.

Framundan er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Undir venjulegum kringumstæðum myndum við hér á Seltjarnarnesi fagna saman með skrúðgöngu sem leidd væri af Lúðrasveit Tónlistarskólans og efna til hátíðardagskrár í Bakkagarði. Sökum þeirra takmarkana sem við búum ennþá við er ekki hægt að standa fyrir hefðbundnum hátíðarhöldum þetta árið en vonandi á því næsta. Við munum þó auðvitað venju samkvæmt gera okkur dagamun, skreyta bæinn og draga íslenska fánann að húni til að minnast stofnunar lýðveldisins eins og vera ber á 17. júní. Seltjarnarnesbær leggur ennfremur til nokkrar fjölskylduvænar samverustundir á þjóðhátíðardaginn.

Við hvetjum Seltirninga til að flagga hver á sinn hátt, draga íslenska fánann að húni eða setja litla fána út í garð, á svalir eða í glugga. Það er tilvalið að njóta útiveru og fara í góðan göngu- eða hjólatúr um Seltjarnarnesið, leika sér að því að finna fána við húsin sem og að taka þátt í 17. júní ratleik (app) þar sem íslenska fánanum er safnað. Hátíðaropnun verður í sundlauginni, Rótarýmessa og messukaffi í kirkjunni, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins keyrir heiðursrúnt um Nesið auk þess sem ísbíllinn verður á ferðinni með ís í boði bæjarins fyrir börnin.

Það verður því margt skemmtilegt hægt að gera og óskum við þess umfram allt að bæjarbúar eigi góðan dag og njóti samveru með fjölskyldu og vinum – gleðjist og hafi gaman saman! 


NJÓTUM OG HÖFUM GAMAN SAMAN Á 17. JÚNÍ

 • Sund á 17. júní - Sundlaug Seltjarnarness verður með hátíðaropnun frá kl. 9-17 á þjóðhátíðardaginn og því er tilvalið að eiga notalega stund saman í sundi.
 • Bátasigling frá smábátahöfninni kl. 10-12 - Björgunarsveitin Ársæll og Siglingafélagið Sigurfari bjóða börnum í fylgd með fullorðnum upp á bátsferðir frá smábátahöfninni við Bakkavör á 17. júní. Siglingar eru háðar veðri.
 • Rótarýmessa í Seltjarnarneskirkju kl. 11Forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness, Björgólfur Thorsteinsson, flytur hugleiðingu. Veitingar að messu lokinni og allir bæjarbúar hjartanlega velkomnir.
 • Ís í boði bæjarinsÍsbíllinn keyrir um Nesið á milli kl. 11-17 á þjóðhátíðardaginn og stendur börnum til boða að fá einn ís á mann í boði bæjarins. Bjalla ísbílsins hringir reglulega í hverfum bæjarins á meðan birgðir endast. Hægt er að fylgjast með ferðum ísbílsins í rauntíma á www.isbillinn.is/kort. Einnig má skoða áætlaða akstursleið á korti á heima- og FB síðu Seltjarnarnesbæjar.
 • Hátíðarakstur Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisinsÍ ljósi þess að ekkert er eins og venjulega vegna Covid-19 hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins ákveðið að endurtaka akstur um höfuðborgarsvæðið á 17. júní með dælu-, körfu- og sjúkrabifreiðum með fánum og bláum ljósum. Ráðgert er að þau verði á ferðinni á milli kl. 11-14. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með og njóta. Drífa sig út á gangstétt, klappa og veifa þegar að þessi flotta framvarðarsveit okkar fer framhjá með blikkandi ljós en þau munu keyra Neshringinn. Ennfremur væri gaman ef íbúar settu myndir eða video á Instagram t.d. með myllumerkinu #slokkvilidid.
 • 17. júní ratleikur Taktu þátt í fjölskylduvænum og skemmtilegum 17. júní ratleik um Seltjarnarnesið sem bæði byrjar og endar á Eiðistorgi. Sækja þarf einfalt app sysla.is/ratleikja-appid/ í síma og leikurinn snýst um að safna íslenska fánanum inni í appinu (svipað og pokemon) en á hverju stoppi kemur upp vísbending sem leiðir þátttakendur að næsta stoppi.Íslenskur fáni birtist í símanum á hverjum stað sem á að fanga til að halda leiknum áfram.

  Ratleikurinn er allt í senn fræðandi og skemmtilegur auk þess að bjóða upp á hressandi útiveru og góða samverustund. Það er tilvalið að fara á hjóli en heildarvegalengd hringsins er um 7km. Einnig er hægt að rölta í rólegheitunum, taka jafnvel með sér nesti og njóta þess að stoppa, fræðast og leika á áhugaverðum viðkomustöðum. Eldri börn sem eiga síma geta tekið þátt sjálf en þau yngri þurfa aðstoð þeirra sem eldri eru. 

  Athugið að hægt er að taka hlé á leiknum EN ekki má slökkva á appinu á meðan því þá tapast þeir fánar sem þegar er búið að safna.

  Allir sem klára leikinn geta tekið skjáskot af lokastigunum í söfnun fána og sent í tölvupósti á 17juni@seltjarnarnes.is með nafni og símanúmeri og fá að launum viðurkenningarskjal og smá sumarglaðning sem nálgast má á bæjarskrifstofuna í vikunni á eftir.

GLEÐILEGAN ÞJÓÐHÁTÍÐARDAG!Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: