Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Gert ráð fyrir miklum framkvæmdum við Íþróttamiðstöð og skóla í langtímafjárhagsáætlun

22.3.2005

Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fram til ársins 2008 var samþykkt við seinni umræðu á bæjarstjórnarfundi í byrjun mánaðarins. Áætlunin undirstrikar það mat óháðra aðila að fjárhagsstaða bæjarsjóðs sé traust. Rekstur bæjarsjóðs Seltjarnarness hefur farið batnandi milli ára sem er nær einsdæmi á meðal sveitarfélaga og er útlit fyrir að sú þróun haldi áfram samkvæmt áætluninni.

Í bókun með áætluninni segir að meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness hafi frá upphafi verið einbeittur í að lágmarka álögur á skattgreiðendur en veita um leið samkeppnisfæra þjónustu. Útsvar í bænum sé það lægsta á höfuðborgarsvæðinu, fasteignagjöldum sé stillt í hóf og álagningastuðlar hafa nýverið lækkað. Seltjarnarnes sé auk þess eina sveitarfélag landsins sem ekki leggur á holræsagjald. Þrátt fyrir þessa stefnu hefur rekstur bæjarins skilað ágætum afgangi og skuldir bæjarsjóðs eru afar litlar í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög og tekjur bæjarins. Þessar áherslur skapa aðhald fyrir kjörna fulltrúa við gerð fjárhagsáætlana, leiða til aga stjórnenda í daglegum rekstri en hafa ekki komið í veg fyrir að þjónusta bæjarins við íbúa sé öflug og vel samkeppnisfær.

Samkvæmt langtímaáætlun verður á næstu þremur árum um 450 mkr. varið til nýframkvæmda á sviði fræðslumála, íþrótta-, heilsueflingar og öldrunarþjónustu. Þannig er gert er ráð fyrir umfangsmiklu viðhaldsátaki við grunnskóla bæjarins. Áhersla næstu ára verður á gagngerar endurbætur á eldri álmu Mýrarhúsaskóla. Hafið er umfangsmikið endurbóta- og nýframkvæmdarátak við Sundlaug Seltjarnarness sem ætlunin er að ljúka á tímabilinu með byggingu heilsuræktar og innisundlaugar á grundvelli fyrirliggjandi teikninga. Þá er gert ráð fyrir stofnframlagi til byggingar hjúkrunarheimilis á Lýsislóð við Grandaveg árið 2008 á grundvelli samstarfs Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar þar að lútandi og vilyrði heilbrigðisráðuneytisins fyrir þátttöku í stofnkostnaði og rekstri hjúkrunarheimilis á lóðinni.

Fram til ársins 2008 verða skuldir greiddar niður um 150 mkr. og rekstrarhlutfall bæjarsjóðs verður áfram með því besta sem gerist meðal sveitarfélaga. Hvorki er gert ráð fyrir hækkun á álagningarstuðli opinberra gjalda á tímabilinu né töku nýrra langtímalána. Þvert á móti er stefnt að því að Seltjarnarnes verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga hvað snertir lágar álögur á íbúa en veiti samkeppnisfæra þjónustu við bæjarbúa og sterka fjárhagsstöðu.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: