Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Nýtt leiðakerfi Strætó

27.7.2005

Fyrsta samræmda leiðakerfi almenningssamgangna fyrir allt höfuðborgarsvæðið var tekið í notkun um liðna helgi. Leiðarkerfi Strætó var formlega tekið í notkun af borgarstjóra og bæjarstjórum aðildarsveitarfélaga Strætó bs. Markmiðið er að efla almenningssamgöngur þannig að þær verði raunhæfur valkostur og fleiri taki strætó. Gjaldskrá Strætó breytist ekki vegna leiðakerfisins en hún hefur verið óbreytt frá 2003.

Í nýja leiðakerfinu er sérstaklega hugað að aukinni ferðatíðni þegar flestir þurfa að komast leiðar sinnar. Vagnar á stofnleiðum, greiðustu akstursleiðum, munu aka á allt að 10 mínútna fresti á álagstímum. Ferðatími styttist og skiptingum fækkar.

Góð reynsla er af stofnleiðakerfum í almenningssamgöngum erlendis þar sem notkun strætisvagna hefur aukist umtalsvert. Óskir notenda eru hins vegar mismunandi og því aldrei hægt að hanna leiðakerfi sem öllum líkar. Eðlilegt markmið er leiðakerfi sem hentar sem flestum og því var lögð rík áhersla á samráð við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Á kynningarfundum í aðildarsveitarfélögum Strætó bs. komu fram margar gagnlegar tillögur sem nýttust við gerð leiðakerfisins en það er hannað á faglegum grundvelli með þátttöku sérfræðinga frá VSÓ ráðgjöf og sænskra sérfræðinga. Sex stofnleiðir flytja fólk milli fjölmennustu íbúðasvæðanna og fjölmennustu atvinnusvæðanna.

Sex almennar leiðir aka um fjölmenn hverfi og tengja þau saman. Þær fara allar um Hlemm og flestar um Lækjartorg. Vagnar á sjö hverfaleiðum aka um tiltekin hverfi eða sveitarfélög án þess að fara um miðborg Reykjavíkur. Breytingar kalla á aðlögun, ekki síst af hálfu vagnstjóra Strætó bs. sem þurfa að venjast nýjum leiðum og tímatöflum. Því eru bílstjórar í umferðinni vinsamlega beðnir um að sýna þolinmæði gagnvart akstri strætisvagna fyrst eftir að nýja leiðakerfið tekur gildi.

Skólakort fyrir alla og endurbætt vefsvæði Frá 15. ágúst verður til sölu nýtt strætókort, Sskólakortið, sem gildir til 1. júní 2006. Kortið er hugsað fyrir alla farþega en dregur nafn af gildistímanum. Verð Skólakortsins verður 25.000 krónur. Sé kortið keypt í upphafi sölutímabils er verðið 2.631 króna fyrir mánuðinn en hvati til að kaupa kortið hverfur þegar líður á október.

Nýrri leiðabók hefur verið dreift til allra heimila á höfuðborgarsvæðinu. Upplýsingar um leiðakerfið eru einnig á endurnýjuðu vefsvæði Strætó bs. á slóðinni www.bus.is eða www.strætó.is. Þar má nýta endurbættan og öflugri Ráðgjafa sér til hjálpar en hann finnur hagkvæmustu leiðina frá einum stað til annars með strætó. Einnig eru veittar upplýsingar í fríu þjónustunúmeri Strætó bs. í síma 800 1199.

Strætó bs. er byggðasamlag í eigu sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Auk reksturs almenningssamgangna annast fyrirtækið ferðaþjónustu fatlaðra.

Aðstandendur Strætó bs. taka nýtt leiðarkerfi í notkun með því að klippa á borða.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: