Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Óbreyttar álögur opinberra gjalda til 2007

12.3.2004

Merki Seltjarnarness við bæjarmörkLangtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2005 til 2007 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag. Áætlunin undirstrikar áframhaldandi skilvirkni í rekstri, markvissa niðurgreiðslu langtímalána og metnaðarfulla þjónustu við íbúa á hagkvæmum skattkjörum. Hvorki er gert ráð fyrir hækkun á álagningarstuðli opinberra gjalda á tímabilinu né töku nýrra langtímalána. Þvert á móti er stefnt að því að Seltjarnarnes verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga hvað snertir lágar álögur á íbúa en samkeppnisfæra þjónustu við bæjarbúa og sterka fjárhagsstöðu. Peningaleg staða Seltjarnarnesbæjar hefur stöðugt styrkst frá árinu 2001 og lækkaði nettóskuld samstæðunnar pr. íbúa t.d. úr 102 þús.kr. í árslok 2001 í 94 þús.kr í árslok 2002.

Gangi áætlunin eftir verður á næstu þremur árum varið rúmlega einum milljarði króna til nýframkvæmda á sviði fræðslumála, íþrótta-, heilsueflingar og öldrunarþjónustu. Að auki er gert ráð fyrir fjárveitingum til ýmissa annarra umbótamála, svo sem lagningu ljósleiðara inn á hvert heimili, endurbóta á Nesstofu og umhverfi hennar, lokafrágangi á fráveitumálum bæjarins, veglegu gatnagerðarátaki og fegrun bæjarins.

Forsendur rekstrargjalda árin 2005 - 2007 taka mið af rauntölum bæjarsjóðs síðustu ár og fyrirliggjandi gögnum á þróun efnahagsmála á næstu árum. Áætlunin gerir ekki ráð fyrir íbúafjölgun á Seltjarnarnesi þar sem deiliskipulag vegna Hrólfsskálamels og Suðurstrandar liggur ekki fyrir á þessu stigi. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir hóflegum tekjum vegna uppbyggingar umræddra svæða. Þannig er gert ráð fyrir 400 milljóna króna tekjum vegna verkefnisins sem m.a. er ráðstafað til byggingar á fyrirhuguðu hjúkrunarheimili og gagngerra endurbóta á Sundlaug Seltjarnarness. Í langtímaáætluninni er þannig gert ráð fyrir að tvö mjög mikilvæg framfaramál sem stefnt hefur verið að um langt skeið verði að veruleika án þess að íbúum sé íþyngt með álögum eða aukningu langtímaskulda.

Rúmum 80 mkr. er óráðstafað á tímabilinu. Er það gert i varúðarskyni, til að mæta sveiflum í rekstri eða nýjum framkvæmdum svo sem við skólamannvirki bæjarins sem notið hafa forgangs í viðhaldi og nýframkvæmdum síðustu ár.Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: