Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Vel heppnuð ráðstefna um stöðu barna í íslensku samfélagi

8.3.2006

Seltjarnarnesbær ásamt Garðabæ, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ stóðu fyrir ráðstefnunni: „Hve glöð er vor æska?“ á Grand Hótel í Reykjavík föstudaginn 3. mars s.l. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var staða barna í íslensku samfélagi. Á ráðstefnunni voru flutt stutt erindi og síðan voru pallborðsumræður þar sem leitast var við að svara ýmsum spurningum um stöðu barna í íslensku samfélagi og hvernig má finna leiðir til sveigjanleika á vinnustöðum til að samræma megi starf og fjölskyldulíf.

Á ráðstefnunni „Hve glöð er vor æska?“Talið frá vinstri: Guðrún Helgadóttir, Rannveig Rist, Þorvaldur Karl Helgason, Björn Ingi Hrafnsson, Gústaf Adolf Skúlason, Jón Torfi Jónasson, Árni Sigfússon og Hrafnhildur Sigurðardóttir.(c) 2006 Árni Sæberg

Fyrirlesarar voru frá biskupsstofu, Samtökum atvinnulífsins, aðstoðarmaður forsætisráðherra, forstjóri Alcan, fræðimenn og rithöfundur. Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi sagði m.a. að svo virtist sem karlkyns stjórnendur og forystumenn í atvinnulífinu tækju ekki feðraorlof eða þá af mjög takmörkuðu leyti. "Getur verið að harkan og samkeppnin í viðskiptalífinu sé svo mikil að það sé einfaldlega of mikil áhætta fyrir þá að fara í fæðingarorlof og taka tíma frá vinnunni til að sinna fjölskyldunni". Hún taldi að feðraorlof gerði starfsmenn að betri starfkröftum, ekki síst þar sem ábyrgðartilfinning og öryggisvitund þeirra ykist í samræmi við ábyrgð heima fyrir.

Björn Ingi Hrafnsson formaður nefndar um stöðu íslensku fjölskyldunnar, gerði fæðingarorlofið að umtalsefni og sagði hann að í nálægri framtíð vildi hann sjá fæðingarorlofið lengt í allt að 15-16 mánuði ekki síst til þess að brúa bilið frá því að 9 mánaða fæðingarorlofi lýkur og þat til leikskólanám hefst.

Á ráðstefnunni „Hve glöð er vor æska?“Talið frá vinstri: Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Gunnhildur Sæmundsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Hrafnhildur Sigurðardóttir, Árni Sigfússon, Guðríður Helgadóttir, Gunnar Einarsson. (c) 2006 Eiríkur Hermannsson

Jóhanna Einarsdóttir dósent við Kennaraháskóla Íslands kynnti rannsókn á viðhorfi leikskólabarna til leikskólans. Kom skýrt fram í máli hennar að leikurinn er námsleið barnsins og að börn í leikskóla læra í leik. Hver dagur í lífi barna er því nám.

Í pallborði var rætt um ábyrgð foreldra og atvinnulífsins og möguleika foreldra lítilla barna á sveigjanlegum vinnutíma. Halldór Grönvold aðstoðar-framkvæmdarstjóri ASÍ sagði að vinnutíminn á Íslandi væri einna lengstur á Íslandi og því þyrfti að breyta.Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: