Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Skattar lækka á Seltjarnarnesi

14.5.2007

Skattar lækka á Seltjarnarnesi í kjölfar samhljóða samþykktar bæjarstjórnar á tillögu fulltrúa meirihlutans á fundi þann 9. maí s.l. Samkvæmt tillögunni verður álagningarstuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði árið 2008 lækkaður úr 0,24% í 0,20%. Álagningarstuðull vatnsskatts verður lækkaður úr 0,13% í 0,10% og álagningarstuðull fráveitugjalds verður 0,097% af fasteignamati, hinn lægsti á höfuðborgarsvæðinu. Þá mun útsvar einnig lækka árið 2008 og verður 12,10% í stað 12,35%. Samþykktin felur annars vegar í sér breytingu á innheimtu gjalda á Seltjarnarnesi og hins vegar heildarlækkun gjalda í bæjarfélaginu.


Seltjarnarnes hefur um skeið verið eina sveitarfélag landsins sem ekki leggur á fráveitugjald. Hefur þetta fyrirkomulag þýtt að bæjarsjóður hefur kostað rekstur Fráveitu Seltjarnarness en veitan ekki haft sjálfstæðan tekjustofn á móti bókfærðum útgjöldum. Endurskoðendur bæjarins hafa við gerð ársreikninga veitunnar bent á nauðsyn þess að veitan hafi tekjur á móti gjöldum til að stemma stigu við bókhaldslegu rekstrartapi. Af þeirri ástæðu er tekið upp hóflegt fráveitugjald sem verður það lægsta á höfuðborgarsvæðinu en nægir engu að síður fyrir útgjöldum fráveitunnar á grundvelli gildandi fjárhagsáætlunar, auk lítilsháttar rekstrarafgangs sem í fyllingu tímans mun leiðrétta neikvæða eiginfjárstöðu veitunnar. Aðrir gjaldstuðlar verða lækkaðir á móti og raunar umfram fráveitugjaldið. Um heildarlækkun gjalda því að ræða. Eftir ofangreinda breytingu verða allir gjaldastuðlar fasteignagjalda auk útsvars þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu sem endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu Seltjarnarnesbæjar.Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: