Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Yfirlýsing bæjarstjórnar

25.3.2011

Með bréf dags. 8. mars sl. óskaði Ólafur Melsted eftir afstöðu bæjarstjórnar til niðurstöðu matsgerðar sem dómkvöddum matsmönnum var falið að semja og laut að því hvort bæjarstjóri, Ásgerður Halldórsdóttir, hefði lagt Ólaf í einelti í skilningi laga. Í bréfinu setti Ólafur fram þrenns konar kröfur. Í fyrsta lagi krafðist hann greiðslu skaða- og miskabóta o.fl., í annan stað að bæjarstjórn veitti bæjarstjóra, Ásgerði Halldórsdóttur, formlega áminningu fyrir hennar þátt í málinu og í þriðja lagi að bæjarstjórn viki Ásgerði Halldórsdóttur úr starfi sem bæjarstjóra.

Vegna þeirra krafna sem Ólafur Melsted gerir í bréfinu vill bæjarstjórn Seltjarnarness koma eftirfarandi á framfæri:

Í bréfi, dags. 18. janúar 2010, krafðist Ólafur Melsted, að gengið yrði til samninga um starfslok við hann. Um svipað leyti hóf hann töku veikindaorlofs. Krafa Ólafs um starfslokasamning var svo endurtekin í bréfi dags. 2. febrúar sama ár. Þá fyrst hélt Ólafur því fram að hann hefði orðið fyrir einelti af hálfu bæjarstjóra. Bæjarstjórn leggur áherslu á að fram til þess tíma hafði Ólafur ekki haldið því fram að hann hafi orðið fyrir einelti í starfi. Þá bendir bæjarstjórn á þá staðreynd, að Ólafur taldi hvorki ástæðu til að leita til trúnaðarmanns starfsmanna né Starfsmannafélags Seltjarnarnesbæjar með kvörtun um einelti.

Eftir að viðræður um starfslok höfðu siglt í strand, ákvað Ólafur Melsted að höfða matsmál sem hér um ræðir. Skiluðu matsmenn Ólafi matsgerðinni 2. mars sl. Það var hins vegar ekki fyrr en hinn 17. mars sl., eftir ítrekaðar óskir bæjarstjórnar, sem Ólafur afhenti matsgerðina í heild sinni.

Bæjarstjórn hefur farið yfir forsendur og niðurstöðu matsgerðarinnar. Fram kemur í forsendum matsgerðarinnar að matsmenn hafi kannað 27 tilvik sem Ólafur taldi að fælu í sér meint einelti af hálfu bæjarstjóra í sinn garð. Í 24 tilvika fundu matsmenn ekki sannfærandi rök fyrir því að bæjarstjóri hefði lagt Ólaf Melsted í einelti. Hvað varðar þau þrjú atriði sem eftir standa og matsmenn leggja til grundvallar niðurstöðu þá telur bæjarstjórn allan rökstuðning skorta fyrir því hvað það var í háttsemi bæjarstjóra sem féll undir skilgreiningu eineltishugtaksins í skilningi laga. Vegna þessa álítur bæjarstjórn niðurstöður matsgerðarinnar ekki sýna, svo hafið sé yfir vafa, að bæjarstjóri hafi lagt Ólaf í einelti.

Bæjarstjórn lýsir því yfir að hún telur hvorki efni né ástæðu til að verða við kröfum Ólafs. Er bæjarstjórn þeirrar skoðunar að réttast sé að málið fari fyrir dómstóla en með því móti er einungis unnt að tryggja sanngjarna og og réttláta málsmeðferð.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: