Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Fulltrúar ríkis og SSH semja um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna

8.5.2012

Við undurritun samning um eflingu almenningssamgangnaFulltrúar Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu í dag undir samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur verkefnisins er að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, lækka samgöngukostnað heimila og samfélagsins og stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Ríkisstjórnin heimilaði innanríkisráðherra og fjármálaráðherra að ganga frá samningnum á fundi sínum þann 17. apríl og borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarráð allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem eru aðilar að Strætó bs. hafa samþykkt að veita stjórn SSH heimild til undirritunar. Sveitarfélögin eru Reykjavík, Seltjarnarneskaupstaður, Kópavogsbær, Garðabær, Hafnarfjörður, Sveitarfélagið Álftanes og Mosfellsbær.

 Innanríkisráðherra, fjármálaráðherra, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og fulltrúi Vegagerðarinnar undirrituðu síðastliðið haust  viljayfirlýsingu um tilraunaverkefnið og með undirritun nú verður hægt að hefja öflugri þjónustu strax í haust.

Meginmarkmið og tilgangur tilraunaverkefnisins er m.a. eftirfarandi:

  • Að minnsta kosti að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum.
  • Að vinna að lækkun á samgöngukostnaði heimila og samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa.
  • Að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.
  • Að skapa forsendur til frestunar á stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum með öflugri almenningssamgöngum sem dragi úr vexti bílaumferðar á stofnbrautakerfinu á annatímum.

Samningsaðilar skuldbinda sig til að leggja fjármuni til verkefnisins sem hér segir:

a) Vegagerðin leggur fram 350 milljónir króna á árinu 2012, eftir það 900 milljónir króna árlega á samningstímanum og 550 milljónir króna lokaárið 2022 til reksturs almenningssamgangna á starfssvæði SSH.

b) Eigendur Strætó bs. skuldbinda sig til að árlegt framlag þeirra til reksturs Strætó bs. verði ekki lægra á samningstímanum en sem nemur framlagi þeirra til reksturs byggðasamlagsins á árinu 2012.

Fjárframlög samningsaðila skulu taka breytingum í samræmi við vísitölur sem tilgreindar eru í samningnum.

Í samningaviðræðum hefur verið gengið út frá því að viljayfirlýsingin frá september 2011 standi óbreytt, að ríkið leggi 1.000 milljónir króna á ári í tíu ár í verkefnið, alls 10 milljarða króna. Til SSH fari 90% af þeirri fjárhæð og 10% í rekstur almenningssamgangna milli höfuðborgar­svæðisins og byggðakjarna á áhrifasvæði þess að undangengnum samningum við viðkomandi landshlutasamtök sveitarfélaga.

Stýrihópur, skipaður tveimur fulltrúum ríkisins og tveimur fulltrúum sveitarfélaganna skal hafa yfirumsjón með framkvæmd og úrvinnslu samningsins. Undir stjórn stýrihópsins verður framvinda og árangur verkefnisins metinn með kerfisbundnum hætti á tveggja ára fresti og samningurinn endurskoðaður. Við þessa reglubundnu endurskoðun skulu samningsaðilar skilgreina aðgerðir og viðbrögð sem þörf er á til að tryggja framvindu í samræmi við markmið samningsins. Meðal annars verða forsendur fyrir frestun umfangsmikilla vegaframkvæmda endurmetnar.

Starfshópur innanríkisráðuneytisins undirbjó samningsgerðina af hálfu ríkisins og sátu í eftirtaldir: Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri sem var formaður hans, Baldur Grétarsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni. Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri, Vegagerðinni, Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri, Vegagerðinni. Þorsteinn R. Hermannsson, verkfræðingur, innanríkisráðuneytinu og Ögmundur Hrafn Magnússon, fjármálaráðuneytinu.

Í samninganefnd SSH sátu eftirfarandi: Gunnar Einarsson, bæjarstjóri sem var formaður hennar, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Ellý Katrín Guðmundsdóttir borgarritari og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. Með nefndinni starfaði Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri SSH.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: