Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

17. júní í Bakkagarði

11.6.2013

17. júní 2013

Í fyrsta skipti um langt skeið verður þjóðhátíðardeginum á Seltjarnarnesi fagnað undir berum himni eða í Bakkagarði. Bakkagarður stendur við Suðurströnd og var sérstaklega hannaður utan um bæjarsamkomur sem þessar, en vel hefur gefist að koma þar saman og fagna tímamótum í skólastarfinu eins og börnin í bænum kannast vel við. Auk þeirrar nýbreytni að færa dagskrána út þá verður tónleikadagskrá um kvöldið. 

Fjölskyldudagskráin að deginum verður bæði lengd og þétt og fer að mestu fram í kringum garðinn, en eins og endranær verður hún sniðin að ungu kynslóðinni. Meðal þeirra sem skemmta eru stuðboltarnir úr Pollapönki, trúðurinn Wally, sem leikur listir sínar fyrir  áhorfendur, Selma Björns, Friðrik Ómar og Regína Ósk, sem flytja okkur flotta Eurovisionsyrpu, Birkir Örn Karlsson sigurvegari úr Dans dans dans sýnir glæsilega dansa ásamt Rakel Matthíasdóttur og söngkonan Margrét Aðalheiður Önnu og Þorgeirsdóttir syngur ásamt öllum þremur kórunum hennar Ingu Bjargar Stefánsdóttur. 

Þá má ekki gleyma að nefna gleðigjafann hann Góa, eða Guðjón Davíð Karlsson leikara sem börnin þekkja vel en hann verður kynnir og skemmtir inn á milli atriða. Björgunarsveitin Ársæll og siglingaklúbburinn Sigurfari munu bjóða upp á bátasiglingar frá kl. 10-12 og hátíðarguðsþjónusta verður í Seltjarnarneskirkju kl. 11 með þátttöku Rótarýfélaga á Seltjarnarnesi þar sem nýstúdentar eru hvattir til að mæta með hvíta kollinn. Kirkjukaffi verður að lokinni messunni. Þá verður boðið upp á hestateymingar milli 14-15 við Bakkagarð.

Skrúðgangan leggur að þessu sinni upp frá Mýrarhúsaskóla og hefst hún kl. 13. Gengið verður fylktu liði með Lúðrasveit Tónlistarskóla Seltjarnarness eftir Skólabrautinni, framhjá Valhúsaskóla og niður í Bakkagarð þar sem hátíðahöldin hefjast þegar þangað er komið.

Í garðinum sjálfum verður komið upp fjölbreyttum og óvenjulegum leikja- og sölustöðvum. Þar verður hægt að skyggnast inn í framtíðina hjá spákonu, spreyta sig á vísnagátum, leita tengsla við aðra gesti á staðnum, kveðast á, fara í frúnna í Hamborg, sippa, húlla og margt, margt fleira. Gestir eru hvattir til að mæta með teppi og hafa það huggulegt í garðinum.

Klukkan átta um kvöldið verður létt tónleikadagskrá fyrir fjölskylduna frá kl. 20-22 þar sem fram koma meðal annars bönd af Nesinu eins og Útidúr og Dýri Guðmundsson með sínum mönnum. Hægt er að lofa sannkallaðri bæjarhátíð, sem stendur frá morgni til kvölds og er um að gera að njóta dagsins í góðra vina hópi í fjölbreyttri dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

17. júní 2013

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: