Seltirningar duglegir að flokka
12.2.2014
Að sögn Stefáns Eiríks Stefánssonar bæjarverkfræðings hafa Seltirningar brugðist vel við þeirri áskorun bæjarins að flokka sorpið í tunnur sem þeim var úthlutað. Skipulögð flokkun á vegum bæjarins hófst í júní á síðasta ári þegar bæjarbúum stóð til boða að fá pappírstunnu við heimili sín, þeim að kostnaðarlausu. Losun á pappírstunnunum fer fram mánaðarlega en losun á heimilisúrgangi tvisvar í mánuði.
Á meðfylgjandi grafi má sjá losun fyrir tvö síðustu ár. Þar kemur fram að frá miðjum júní 2013 var skilað inn tæpum 77 tonnum af pappír eða u.þ.b. 13 tonnum á mánuði og 367 tonnum af heimilisúrgangi allt árið eða u.þ.b. 30 tonnum á mánuði. Vel er hægt að una við árangur af flokkuninni, en hann nemur nú um 21% þunga af heildarsorphirðu á Seltjarnarnesi, en samkvæmt Stefáni er rúmmál pappírsins samanborið við heimilissorpið nokkru meira eða sem nemur 30%.
Árið á undan, 2012, nam heildarmagn þess heimilissorps, sem bærinn losaði, um 640 tonnum eða rúmum 53 tonnum á mánuði sem gerir um 40 tonna minnkun á sorpi milli ára.