Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Lionsklúbbur Seltjarnarness kom færandi hendi

17.2.2014

Kári Húnfjörð Einarsson og Sigurður EngilbertssonDagur tónlistarskólanna var haldinn hátíðlegur í Tónlistarskóla Seltjarnarness laugardaginn 15. febrúar. Fjöldi manns sótti opið hús, þar sem nemendur og kennarar  buðu upp á sýnishorn af öllum stílbrigðum tónlistar sem kennd er við skólann.

Einstaklingar, samspilshópar, big-band og lúðrasveitir komu fram á fjölbreyttri dagskrá. Í kennslustofum voru hljóðfærakynningar, þar sem kennarar kynntu sín hljóðfæri og var gestum boðið að prófa hljóðfærin undir leiðsögn.
Við þetta tækifæri afhenti Lionsklúbbur Seltjarnarness Skólalúðrasveit Seltjarnarness nýjan barítón-saxófón sem þeir tóku þátt í að fjármagna. Haukur Gröndal, kennari við skólann, fékk það hlutverk að vígja gripinn með  stórsveit skólans. Sveitin var sérstaklega sett saman af þessu tilefni og skipuð kennurum og fyrrverandi nemendum skólans.  

Kári Húnfjörð Einarsson, Haukur Gröndal og Sigurður EngilbertssonMargir lögðu leið sína í tónlistarskólann þennan dag, nutu tónlistarinnar og glæsilegra veitinga af borði Skólalúðrasveitarinnar sem var með fjáröflunarkaffi fyrir Spánarferð sveitarinnar næsta sumar.

Dagur tónlistarskólanna er haldinn í febrúarmánuði ár hvert. Við þetta tækifæri efna tónlistarskólarnir til hátíðar hver á sínum stað, sem er ávallt skemmtilegt innlegg í menningarlíf hvers byggðarlags. Í Tónlistarskóla Seltjarnarness eru nú um 220 nemendur og þar starfa rúmlega 20 kennarar. Auk þess eru starfandi tvær lúðrasveitir við skólann, fjöldi samspilshópa og hljómsveita.

Á myndunum má sjá Kára Húnfjörð Einarsson, stjórnanda skólalúðrasveitarinnar og Hauk Gröndal kennara með nýja hljóðfærið ásamt Sigurði Engilbertssyni formanni Lionsklúbbs Seltjarnarness.
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: