Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Upphaf fasteignafélag kaupir lóð á Hrólfsskálamel 1-7

Byggja 34 litlar íbúðir á hagstæðu verði

17.3.2014

Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur samþykkt að taka tilboði Upphafs fasteignafélags í byggingaréttinn að Hrólfsskálamel 1 til 7 á Seltjarnarnesi. Þar hyggst félagið byggja 34 litlar tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir í þriggja til fimm hæða fjölbýlishúsi til að mæta síaukinni eftirspurn eftir hagkvæmu húsnæði. Íbúðirnar verða hannaðar með þarfir ungs fjölskyldufólks í huga sem vill kaupa sér sína fyrstu eða aðra íbúð og fyrir eldra fólk sem kýs að minnka við sig. T.a.m. er stefnt að því að íbúðir hússins verði í minni kantinum eða á bilinu 65-110 fermetrar.

Undirbúningur byggingu fjölbýlishússins er þegar hafinn og er stefnt að því að afhenda fyrstu íbúðir snemma árs 2016.

,,Hrólfsskálamelur er ákjósanlegur staður fyrir þann markhóp sem Upphaf fasteignafélag leggur höfuðáherslu á. Í næsta nágrenni eru leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, líkamsrækt og íþróttaaðstaða, sundlaug og önnur þjónusta í verslunarkjarnanum á Eiðistorgi“ segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri.

„Við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir litlum hagkvæmum og vel hönnuðum íbúðum  fyrir ungt fjölskyldufólk, miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Lóðin við Hrólfsskálamel á Seltjarnarnesi er kjörin fyrir uppbyggingu íbúða sem uppfylla þessar kröfur. Staðsetningin er líka frábær  þar sem öll þjónusta er í göngufæri. Þetta er kjörin staðsetning fyrir ungt fólk sem lætur stutta vegalengd milli heimilis og skóla sig miklu varða,“ segir Pétur Hannesson framkvæmdastjóri Upphafs fasteignafélags.

Um Upphaf fasteignafélag:

Upphaf fasteignafélag er umsvifamikill fjárfestir í þróun og byggingu lítilla og miðlungsstórra íbúða fyrir fjölskyldufólk. Félagið vinnur nú að fjölmörgum íbúðaverkefnum í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Hafnarfirði og og er um þessar mundir að ljúka við 75 íbúðir í Kórahverfi Kópavogs. Félagið er í eigu sjóðs í rekstri hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA en að baki sjóðnum stendur öflugur hópur fag- og stofnanafjárfesta. 

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: