Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Ræða forseta Íslands í tilefni af 40 ára afmæli bæjarins

10.4.2014

Ávarp forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar á 40 ára afmælishátíð Seltjarnarnes 9. apríl 2014

Ólafur Ragnar GrímssonÁgætu Seltirningar
Bæjarstjórn
Góðir gestir

Tíminn er hraðfleygur fugl, þeytist áfram með vængjaþyt, dregur  langan slóða minninga sem safnast saman í dýran sjóð.

Fjörutíu ár liðin síðan Seltjarnarnes varð bæjarfélag, hreppurinn fékk  hið virðulega heiti og við, sem þá vorum önnum kafin við að stofna hér heimili heilsuðum Reykvíkingum hnarreistari en áður.

Þó hafði hreppurinn haft sinn sjarma, fjölskyldur kenndar við gömlu húsin, götulýsing af skornum skammti, kríuvarpið rétt hjá okkur á Barðaströnd, fjaran opin í veðurofsa, túnin stór, Valhúsahæðin enn eins  og skáldin lýstu og Plútóbrekkan kjörin fyrir sleðaferðir.

Þegar við Búbba vorum að keyra Döllu og Tinnu í tvíburakerrunni  hér um hálfbyggðar götur, gangstéttir vantaði víða, var þessi gamla veröld Seltjarnarnessins enn lifandi veruleiki; nánast eins og þorp í sveit; höfuðborgin annar heimur í stuttu ökufæri.

Það var okkur mikil gæfa, líkt og ykkur öllum, að eignast rætur í slíkri byggð, njóta þeirra forréttinda sem fegurð og andstæður náttúrunnar fela í sér; en umfram allt að tengjast mannlífinu sem Seltjarnarnes hélt áfram að fóstra.

Á margan hátt er það undrunarefni hvernig Seltjarnarnesi hefur  tekist að varðveita og styrkja sjálfstæðan bæjarbrag hér við túnfót Reykjavíkur. Í þeim efnum eiga skólarnir og íþróttirnar ríka hlutdeild vettvangar kenndir við Gróttu, Mýrarhús og Valhúsin; vitnisburður um hvernig gömul kennileiti lifa áfram í menntun og þjálfun æskunnar.

Unga fólkið hefur fengið hér notadrjúgt veganesti – um það get ég borið vitni; vinir sem dætur mínar eignuðust á fyrstu skólaárum eru það enn og fylgja nú hér margir börnum sínum á æfingar og í tónlistartíma.

Það segir sína sögu að nú búa hlið við hlið í raðhúsalengjunni neðst á Barðaströnd dóttir okkar Búbbu og dóttir Margeirs og Stellu og svo líka dóttir Jóhannesar og Ásu; þrjár stöllur sem kynntust í æsku enda pössuðu Kristín og Ása systir Brynju bæði Tinnu og Döllu.

Foreldrarnir eru allir látnir nema við Ása en nú leika barnabörnin sér í sömu görðum, njóta Esjunnar og gönguferða um fjöruna, æskuára á Seltjarnarnesi eins og fyrri kynslóð þótt Plútóbrekkan sé að vísu núna bara svipur hjá sjón og kríuvarpið lengra í burtu.

Það eru kannski bestu meðmæli sem bæjarfélag getur hlotið að börnin skuli helst kjósa fullorðin að ala hér upp börnin sín, að kynslóðirnar vilji varðveita ræturnar í heimabyggð sem mannlíf og náttúra hafa fléttað saman í farsæla heild – byggðarlag sem styrkist ár af ári; leysir á skapandi hátt ögrandi verkefni sérhverrar tíðar; hefur metnað til að búa sínu fólki það besta sem völ er á.

Saga Seltjarnarness í þessi fjörutíu ár er því á margan hátt lærdómsrík; vitnisburður um að stærðin er ekki endilega ávísun á gæði, að sérstaðan innan höfuðborgarsvæðisins hefur mikla kosti; að prófsteinn árangurs er ekki stjórnsýsluramminn eða skipuritið heldur gróska og gæði mannlífsins.

Í umræðum um framtíð sveitarstjórna er því gagnlegt að skoða vel vegferðina hér á Seltjarnarnesi og beita þeim mælikvörðum sem íbúarnir hafa smíðað; verkefni sem nýjar kynslóðir kjósa helst að halda áfram.

Slík meðmæli eru bestu afmælisgjafir sem bæjarfélag getur hlotið og Seltjarnarnes nýtur þeirra svo sannarlega í ríkum mæli.

Ég óska ykkur öllum til hamingju með tímamótin og þakka ykkur fyrir að bjóða okkur Dorrit að gleðjast með ykkur hér í dag.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: