Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Umferðaröryggisáætlun samþykkt - Umferðarslys afar fátíð

22.5.2014

SeltjarnarnesAðeins tvö alvarlega umferðarslys hafa orðið á Seltjarnarnesi á síðastliðnum átta árum. Þetta kom fram á opnum fundi í gær, miðvikudaginn 21. maí, þegar  ný og heildstæð umferðaröryggisáætlun sem tekur til alls bæjarfélagsins var kynnt á opnum fundi í Íþróttahúsi Seltjarnarness. Áætlunin hefur verið samþykkt en hún verður þó áfram í stöðugri endurskoðun og tekur breytingum eftir þróun byggðarinnar. Þannig geta íbúar sent inn ábendingar á heimasíðu bæjarins um það sem betur má fara hvað varðar umferðaröryggismál á Nesinu. 

Við undirbúning áætlunarinnar var tekin saman tölfræði um slys og óhöpp á Seltjarnarnesi á árunum 2004-2013, ásamt því að staðsetning þeirra var rýnd fyrir árin 2008-2012. Þar kemur fram að á árunum 2004-2012 eða á átta ára tímabili voru aðeins tvö slys með alvarlegum meiðslum og 17 slys með litlum meiðslum, sem er með því allra minnsta sem mælist á landsvísu. Í skýrslunni er einnig að finna kort yfir þau svæði þar sem tíðust hafa orðið slys og óhöpp á Seltjarnarnesi á árunum 2008-2012. Starfshópurinn skipti Seltjarnarnesi niður í fimm svæði og forgangsraðaði verkefnum á hverju þeirra. Eftir stöðumat og greiningarvinnu var samráðshópur sammála um að leggja sérstaka 
áherslu á að bæta umferðaröryggi á svæði I þar sem m.a. skólar, sundlaug og íþróttamiðstöð eru og því var ákveðið að brýn verkefni á því svæði væru sett í forgang. 

Helstu markmið og áherslur sveitarfélagsins er varða umferðaröryggi eru að halda áfram að vinna að bættu öryggi óvarðra vegfarenda og leggja áfram sérstaka áherslu á öryggi gönguleiða barna í skólann. Auk þess minnka fjölda óhappa á bílaplönum, ná hraða bifreiða niður í hámarkshraða og taka fyrir svæði frekar en staði þegar unnið er með hraðatakmarkandi aðgerðir. 

Áætlunin er unnin að áeggjan Samgöngustofu en Seltjarnarnes gerði bindandi samning við Samgöngustofu um gerð áætlunarinnar. Bærinn vann að henni með fulltingi ráðgjafa hjá VSÓ Ráðgjöfum og fór sú vinna fram á tímabilinu september 2013 - apríl 2014. Þetta er í fyrsta skipti sem heildstæð umferðaröryggisáætlun er gerð fyrir sveitarfélagið, en undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að umferðaröryggi með því að bæta gönguleiðir skólabarna og með hraðatakmörkum gagnvart ökutækjum.

Í samráðshópnum sem stóð að undirbúningi áætlunarinnar voru bæjarverkfræðingur, fræðslustjóri, íþrótta- og tómstundafulltrúi, deildarstjóri grunnskóla, fulltrúi f.h. foreldraráðs leikskóla Seltjarnarnesbæjar og einnig fulltrúar frá Vegagerðinni, Samgöngustofu, Lögreglu, Strætó Bs. og VSÓ Ráðgjöf.

Íbúar jafnt sem aðrir eru hvattir til að kynna sér innihald skýrslunnar sem hægt er að finna hér:  Umferðaröryggisáætlun 2014
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: