Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Þjóðhátíðardagurinn á Seltjarnarnesi aldrei stærri

13.6.2014

Allt frítt!
Frítt er í öll leiktæki á staðnum en meðal þess sem boðið er upp á eru vatnaboltarnir sem alls staðar eru að slá í gegn, risarennibraut, júmbóhoppukastali og trampólín. Einnig er boðið upp á ókeypis andlitsmálun og hestateymingar, spákonulestur og fleira og fleira. 

Hátíðin hefst kl. 13 með skrúðgöngu frá Mýrarhúsaskóla sem skólahljómsveit Tónlistarskóla Seltjarnarness leiðir en með í för verða trúðar, stultufólk og ýmsar furðurverur.
 
Vinsælustu skemmtikraftarnir í Bakkagarði
Dagskrá á tónleikasviðinu í Bakkagarði hefst kl. 13:15 og er dagskráin sérstaklega sniðin að unga fólkinu. Grínarinn góðkunni Sveppi stýrir dagskránni frá upphafi til enda og kynnir til leiks hæfileikafólk úr ýmsum áttum m.a. einn fremsta dansara landsins, Brynjar Dag Albertsson, sigurvegarann úr Ísland got Talent, söngvarann ástsæla Jón Jónsson, trúðinn óútreiknanlega hann Wally og Eurovision gleðipoppsveitina FUNK. Leik- og söngatriði úr hinu sívinsæla barnaævintýri  Ástarsögu úr fjöllunum verður flutt og fjallkonan, sem að þessu sinni kemur úr röðum íþróttaafreksmanna, flytur ávarp sitt.

Danshópurinn Raven Dance hefur unnið með ungmennum á Nesinu og sýnir afraksturinn á túninu og býður gestum að slást í dansinn.
 
Í garðinum verða sölutjöld með hefðbundum og óhefðbundnum 17. júní veitingum og fjölbreyttum varningi til að halda stemningunni gangandi.

Tónleikastuð um kvöldið
Kvöldtónleikar verða í Bakkagarði frá klukkan átta um kvöldið þar sem fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá verður í boði. Fyrst til að stíga á stokk er hin rómaða og fjölhæfa söngkona Sara Pétursdóttir sem sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir skemmstu. Seltirningurinn, hinn hæfileikaríki Bjössi sax treður upp með bandi sínu White Signal og hljómsveitin Hvítir hrafnar og söngvarar úr Meistara Jakob frá Seltjarnarnesi syngja þekkt lög. Gæðareggísveitin Ojba Rasta slær svo botninn í kvöldið með snilldartöktum fram til klukkan tíu um kvöldið.

Siglingar og Guðsþjónusta að morgni þjóðhátíðardags
Að morgni 17. júní, frá kl. 10-12, verður boðið upp á siglingar frá smábátahöfninni við Bakkavör. Kl. 11 verður guðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju með Sr. Bjarna Þór Bjarnasyni og organistanum Friðriki Vigni Stefánssyni. Þórarinn Jóhannes Ólafsson tenór syngur einsöng og Daniel Teague, forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness flytur hugleiðingu. Rótarýfélagar bjóða upp á kaffiveitingar að messu lokinni í safnaðarheimilinu.

Sjáumst í hátíðarskapi!

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: