Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Þjóðhátíðardagurinn á Seltjarnarnesi

18.6.2014

Þjóðhátíðardagurinn á Seltjarnarnesi fór afskaplega vel fram þó óneitanlega hafi veðrið sett strik í reikninginn. Frá því að fyrsta dagskráratriðið á sviðinu hófst upp úr kl. 13 byrjaði að rigna og rigndi linnulaust fram á kvöld.

Þrátt fyrir það fóru hátíðarhöldin í Bakkagarði vel fram og góður rómur var gerður að skemmtiatriðum og leiktækjum sem voru á svæðinu. Hátíðarhöldin voru með veglegri hætti en áður þar sem Seltjarnarnesbær fagnar fjörutíu ára kaupstaðarafmæli á þessu ári. Þeir sem fram komu á hátíðinni í ár voru 
Sveppi, sem stýrði dagskránni, einn fremsti dansari landsins, Brynjar Dagur Albertsson, sigurvegarinn úr Ísland got Talent, söngvarinn ástsæli Jón Jónsson, trúðurinn Wally og Eurovision gleðipoppsveitin FUNK. Einnig flutti Möguleikhúsið leik- og söngatriði úr hinu sívinsæla barnaævintýri Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur. Fjallkonan kom að þessu sinni úr röðum íþróttaafreksmanna, en hún var Fanney Hauksdóttir sem flutti ljóð Huldu, Hver á sér fegra föðurland, með glæsibrag.

Danshópurinn Raven Dance sló botninn í dagskrána í Bakkagarði um daginn. Gestir kunnu auðsjáanlega að meta að frítt var í öll leiktæki á staðnum. Vatnaboltarnir vöktu mikla athygli og var löng röð við þá allan tímann. Einnig skemmti yngri kynslóðin sér í risarennibraut, júmbóhoppukastala og trampólínum og sóttu stíft í andlitsmálun, hestateymingar og lestur hjá spákonu svo eitthvað sé nefnt.

Hátíðin hófst að vanda með skrúðgöngu frá Mýrarhúsaskóla sem skólahljómsveit Tónlistarskóla Seltjarnarness leiddi undir stjórn Kára Húnfjörð Einarssonar en í för með göngunni voru trúðar, stultufólk og kynjaverur, sem einnig settu skemmtilegan svip á hátíðina allan daginn.
  
Í garðinum seldu Ungmennafélag Seltjarnarness veitingar, Slysavarnarkonur seldu Candy Flos og sjálfstæður söluaðili seldi líka ýmsan varning.


17.juni_2014
17.juni_201417.juni_2014
17.juni_2014

Kvöldtónleikar
Klukkan átta að kvöldi þjóðhátíðardagsins hófust tónleikar í Bakkagarði, sem löðuðu fáa gesti að, enda veðrið afleitt, úrhellisrigning og vindur. Þrjú bönd stigu á svið, söngkonan Sara Pétursdóttir, sem sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir skemmstu, ásamt píanóleikara, Seltirningarnir Hvítir hrafnar og hljómsveitin White Signal með Bjössa sax innanborðs. Þegar kom að aðaltónleikaatriði kvöldsins var rigningin og rokið farið að hafa áhrif á tækjabúnað og því afráðið að gæðareggísveitin Ojba Rasta, sem átti að slá botninn í kvöldið, myndi fresta sínum tónleikum þar til síðar í sumar. Þeir fáu gestir sem voru á svæðinu sneru því heim um klukkan níu, en til stóð að hafa dagskrána til kl. 22.

Þá má geta þess að siglingar frá smábátahöfninni um morguninn slógu heldur betur í gegn og einnig var haldin hátíðarguðsþjónusta í kirkjunni þar sem Þórarinn Jóhannes Ólafsson tenór söng einsöng og Daniel Teague, forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness flutti hugleiðingu.
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: