Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Ný rafræn Seltirningabók & Sýningaropnun Sigursveins

18.11.2014

Frónari – Sigursveinn H. Jóhannesson
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði á dögunum blaðagrein undir yfirskriftinni Ég vil elska mitt land þar sem hann mærir föðurlandið og klikkir í lokinn út með setningunni „Ég fíla svo vel að vera Frónari“. Þessi lokaorð hittu í mark hjá listamanninum Sigursveini H. Jóhannessyni og fékk hann leyfi rithöfundarins til að heimfæra þau upp á sýningu sína Frónari sem opnuð verður í Eiðisskeri, sýningarsal Seltirninga í Bókasafninu, fimmtudaginn 20. nóvember. Á sýningunni eru á fjórða tug verka og þar af tæpur helmingur frá Seltjarnarnesi. Verkin eru unnin með blandaðri tækni, grafík, tússi og vatnslitum.

Sigursveinn starfaði á árunum 1985-1992 við leikmyndadeild Þjóðleikhússins og var kennari við málaradeild Ljungstedska Skolan í Linköping í Svíþjóð í lok áttunda áratugarins. Hann er kennari að mennt auk þess að hafa sótt fjölmörg málaranámskeið hérlendis og erlendis m.a. hjá Ríkharði Valtingojer. Sigursveinn hefur haldið nokkar sýningar á ferli sínum, en hann býr og starfar á Seltjarnarnesi. 
Rafræn Seltirningabók, Sýningaropnun Sigursveinn H. Jóhannesson
Seltirningabók ókeypis á netinu
Í tilefni af 40 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarness á þessu ári samþykkti bæjarstjórn að ráðast í gerð rafrænnar útgáfu á Seltirningabók eftir sagnfræðinginn Heimi Þorleifsson, en bókin hefur verið ófáanleg um alllangt skeið. Aðgangur að bókinni verður öllum að kostnaðarlausu en hún verður aðgengileg frá og með fimmtudaginum 20. nóvember, en dagurinn tengist rithöfundinum og Seltirningnum Heimi, sem hefði orðið 77 ára 22. nóvember, en hann lést um mitt síðasta ár.
Í bókinni er að finna mikinn fróðleik um þróun mannlífs og sveitarstjórnar í ört vaxandi byggð, en bókinni er skipt upp í sex hluta. Sá fyrsti fjallar einkum um landamerki og sveitarstjórn, annar um landsvæði núverandi kaupstaðar, þriðji um útgerð, fjórði um skólahald, fimmti um félagsstarfsemi á Nesinu og sjötti um kirkjuhald. Í bókarlok eru ítarlegar heimilda-, mynda- og nafnaskrár.
Heimir var mikilvirkur höfundur fræðirita og kennslubóka í sagnfræði. Hann flutti útvarpserindi og þætti, skrifaði fjölda greina í blöð, tímarit og safnrit um söguleg efni. Hann var kennari við Menntaskólann í Reykjavík og lét sig miklu varða sögulega geymd umhverfis, muna og heimilda og beitti sér sérstaklega fyrir slíkum verkefnum í heimabæ sínum Seltjarnarnesi. Það var Guðmundur Einarsson sem bjó bókina í rafrænt form en fyrirtækið Snara ehf. hýsir bókina.
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: