Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Fornleifauppgröftur á Seltjarnarnesi

27.5.2015

MóakotSeltirningar hafa ef til vill veitt því athygli að undanfarin vor hefur farið fram fornleifauppgröftur vestan og norðan við Nesstofu. Enn á ný er hafinn uppgröftur á svæðinu norðan við Nesstofu og geta áhugasamir lagt leið sína þangað og fylgst með. Eftirfarandi grein tóku Gavin Lucas forleifafræðingur og Guðmundur Ólafsson fræðimaður hjá Þjóðminjasafni Íslands saman fyrir Seltjarnarnesbæ til að bæjarbúar gætu glöggvað sig betur á hverju fornleifauppgröfturinn hefur skilað.

Fornleifarannsókn í Móakoti
Frá árinu 2013 hefur Háskóli Íslands, í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands, staðið fyrir fornleifarannsókn á litlu 18. aldar kotbýli á Seltjarnarnesi. Kotið nefnist Móakot og er nefnt í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalin frá 1703, þar sem ábúandinn var Grímur Erlendsson. Samkvæmt Manntalinu 1703 var Grímur fæddur árið 1640 og giftur Gróu Andrésdóttur, fæddri 1664. Þau áttu tvo syni, Erlend, f. 1689 og Jón, f. 1697. Búseta í kotinu virðist hafa lagst af 1779. Ekki er meira vitað um þetta býli úr heimildum, þó að ýtarlegri rannsókn í skjalasöfnum geti hugsanlega skilað einhverjum viðbótarupplýsinum. Helstu upplýsingar um staðinn er núna að fá úr gögnum fornleifarannsóknarinnar.
Móakot var fyrst skráð af fornleifafræðingum við fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands árið 1980 og svo aftur rúmum áratug síðar af Fornleifastofnun Íslands. Árið 2013 hófu fornleifafræðinemar frá HÍ rannsókn þar undir leiðsögn Gavin Lucas, prófessors, Guðmundar Ólafssonar, fagstjóra fornleifa í Þjóðminjasafni, með aðstoð Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Þess má geta að vettvangsrannsóknir fornleifafræðinema hafa staðið yfir við Nes frá árinu 2007, fyrst umhverfis Nesstofu (2007-2011), þá á litlu sjómanns koti frá fyrri hluta 20. aldar (2012) áður en rannsóknin beindist að Móakoti árið 2013.  

Undanfarin tvö ár hafa nemendur unnið í fjórar vikur frá maí til fyrri hluta júní við að grafa upp a.m. k. tvö herbergi af Móakoti, sem virðast hafa verið samsíða, með bæjargöngum á milli. Rannsóknin hefur til þessa einskorðast við eystri hluta kotsins, sem er 7x8,5 m að stærð og var með þykka veggi hlaðna úr torfi og grjóti. Gólf bæjarganganna var lagt stórum hellum, en moldargólf voru í herbergjunum beggja vegna. Skaddað eldstæði fannst í norðausturhorni hússins. Inngangur í bæinn var á suðurhlið hans en á norðurhlið var hálfhringlaga viðbygging, sem var hugsanlega notuð sem geymsla.

Nokkuð hundruð gripir hafa fundist við rannsóknina, ásamt fjölda dýra- og fiskbeina. Flest er þó úr mannvistarlögum frá 19. öld, sem eru yngri en bærinn. Það bendir til þess að bæjarrústin hafi af og til verið notuð sem ruslahaugur. Hingað til hafa aðeins fundist fáir gripir úr sjálfri byggingunni. Það eru aðallega brot úr leirkerum, glerflöskum og járnnöglum. Nákvæm greining á gripunum hefur þó ekki enn farið fram. 
Enn er of snemmt að draga miklar ályktanir um staðinn af niðurstöðum rannsóknarinar. Sá hluti bæjarins sem búið er að rannsaka virðist hafa verið eldhús og geymsla eða búr, auk bæjarganganna. Vesturhelmingur bæjarins er enn órannsakaður. Gripir sem hafa fundist styðja vel við hugmyndir manna um að bærinn sé frá 18. öld, en þó er ljóst að hann hefur gengið í gegn um nokkrar breytingar og að hann gæti upphaflega hafa verið stærri. Einnig fundust ummerki um eldri mannvirki norðan við bæinn, þannig að hugsanlega hefur búseta hafist á staðnum fyrr en áður var vitað. Þar til frekari rannsóknir hafa farið fram, er þó ekki hægt að segja nánar til um upphaf búsetu í Móakoti. Rannsókninni verður haldið áfram vorið 2015 og vonandi mun hún varpa skýrara ljósi á minjarnar.
Gavin Lucas og Guðmundur Ólafsson í maí 2015

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: