Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Menningarhátíð Seltjarnarness í startholunum

9.10.2015

Helgi Hrafn Jónsson og Tina DickowNú fer hver að vera síðastur að tryggja sér miða á tónleika helsta stjörnuparsins á Nesinu þeirra Helga Hrafns Jónssonar bæjarlistamanns 2015 og eiginkonu hans Tinu Dickow, hinnar dáðu, dönsku söngkonu og lagaskálds. Miðarnir eru seldir á tix.is og hefur gengið hratt á þá frá því að opnað var fyrir söluna fyrr í vikunni. 

Tónleikarnir eru hápunktur Menningarhátíðar Seltjarnarness 2015 sem fram fer dagana 15. – 18. október. Með Helga og Tinu koma fram tónlistarmenn sem hafa fylgt þeim á tónleikaferðalagi um Evrópu frá síðasta hausti þar sem þau léku fyrir yfir 300.000 áhorfendur á mörgum af stærstu tónlistarhátíðum og í stærstu tónleikasölum álfunnar. Í ágúst síðastliðnum kom bandið fram í Tívolí og lék þar fyrir 25.000 gesti, svo eitthvað sé nefnt.

Á tónleikunum sem fram fara laugardaginn 17. október kl. 21 í Félagsheimili Seltjarnarness, bjóða Helgi og Tina áheyrendum í notalegt tónleikaferðalag í gegnum sögur og hrífandi lagasafn þeirra beggja. Umgjörðin í Félagsheimilinu býður einnig upp á mikla nálægð við listamennina. Um einstakan listviðburð er að ræða, en Helgi og Tina hafa til þessa afþakkað nánast öll boð um tónleikahald á Íslandi og munu sökum anna ekki koma fram hér á landi á næstu misserum.

Viðburðir á Menningarhátíðinni
Hátíðin mun að miklu leyti hverfast um bæjarlistamanninn Helga Hrafn, sem eins og menn muna, lét af einstöku örlæti sínu verðlaunaféið renna til lúðrasveitar Tónlistarskóla Seltjarnarness. Auk tónleikanna verður vegleg opnunarhátíð í sýningarýminu í Nesi, áður Lækningaminjasafninu, þar sem Helgi sýnir nýja, magnaða málverkaseríu ásamt vídeóupptökum af tilurð verkanna. Um nokkurs konar skjalfestan gjörning er að ræða þar sem dansari málar stigann. Dansarinn er Berlínarbúi og kemur hingað til lands og dansar við opnunardagskránna ásamt öðrum dansara undir frumsaminni tónlist Helga Hrafns, sem hann flytur ásamt tónlistarmönnum úr fremstu röð. Á hátíðinni frumsýnir Helgi einnig sína fyrstu stuttmynd, sem hann vann með döskum félögum sínum, sem einnig verða viðstaddir opnunina.

Á hátíðinni er lögð áhersla á að virkja hæfileika og krafta bæjarbúa, en þar leynist mikll fjársjóður í hæfileikaríkum listamönnum og áhugafólki. Haldin verður hátíðardagskrá um einn elsta og dáðasta Seltirninginn, Jennu Jens, þar sem framsögumenn eru meðal annars Ásgerður Halldórsdóttir, Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir, Styrmir Gunnarsson og Þorgrímur Þráinsson auk tónlistarmanna. Einnig verða allar fáanlegar bækur Jennu til sýnis á Bókasafni Seltjarnarness. 

Tónlistarparið og Seltirningarnir Björg Þórhallsdóttir og Hilmar Örn Agnarsson standa að skipulagningu stórtónleika í kirkjunni þar sem þau koma fram ásamt fjölda tónlistarmanna af Nesinu og víðar, en helsti gestur tónleikanna er Diddú. Meðal tónlistarmanna eru Gunnar Kvaran, Guðný Guðmundsdóttir, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson, Anna Thoroddsen, Maren Finnsdóttir, Árni Freyr Gunnarsson og Nína Hjördís Þorkelsdóttir. Auk þeirra koma fram Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Selkórinn, lúðrasveit Tónlistarskóla Seltjarnarness og kórar úr Grunnskóla Seltjarnarness.

Frá síðustu áramótum hefur Sigurlaug Arnardóttir kennari og menningarmiðlari verið að vinna að stóru sýningarverkefni í Gallerí Gróttu undir yfirskriftinni Taktur í 100 ár. Sýningin er unnin í samstarfi við nemendur og kennara í Való og félagsstarf eldri borgara með áherslu á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Þar er dregin fram þróun konunnar í gegnum hið bundna mál og tónlist. Auk þess sem klæðnaður konunnar eftir 100 ár, í túlkun nokkurra elstu nemenda Grunnskóla Seltjarnarness, verður sýndur fullgerður. Elstu bekkingarnir hafa einnig samið einstök ljóð sem tengist afmælinu og verða þau sett í bók og sýnd í Bókasafninu. Þá unnu börn í myndmennt grunnskólans gripi sem verða til sýnis.

Friðrik Vignir Stefánsson organisti býður 5. og 6. bekkingum upp á einstaka tónlistarkynningu í kirkjunni þar sem hann reynir m.a. að slá eigið hraðamet með því að spila 663 nótur í fúgu eftir Bach á innan við mínútu auk þess að kynna hið virta tónskáld fyrir börnunum á nýstárlegan máta.
Ungmennaráð Seltjarnarness mun standa fyrir Popp Quiz á Eiðistorgi þar sem fjölskyldur og vinir geta stofnað lið og keppt til veglegra verðlauna. 
Hafnfirski rithöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir og Dagbjört Kjartansdóttir myndasögusérfræðingur úr Nexus bjóða unglingum að hitta sig í unglingadeild Bókasafns Seltjarnarness til að ræða um það sem skiptir máli til að bækur séu að virka. 
Á Eiðistorgi mun Lúðrasveit tónlistarskólans halda flotta tónleika til heiðurs Helga Hrafni bæjarlistamanni en þar má búast við úrvali blásara sem hafa verið að hasla sér völl á undanförnum árum. 
Trimmklúbbur Seltjarnarness lætur sitt ekki eftir liggja á Menningarhátíðinni og í samstarfi við menningarsviðið efnir það til fjölskyldu skemmtiskokks og afmæliskaffis fyrir alla bæjarbúa á Eiðistorgi, en þess má geta að TKS fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. 
Seltjarnarneskirkja verður með vandaða dagskrá þar sem blandast saman fræðsla, tónlist og fleira nýstárlegt. Einnig verður þar sett upp einstök sýning á handsaumuðum dúkum, sem koma af fjölmörgum heimilum. 
Í Nesstofu mun Þjóðminjasafn Íslands setja upp sýningu á ljósmyndum hinnar heimsþekktu Mary Ellen Mark, sem lést síðastliðið sumar. 
Systrasamlagið mun koma bæjarbúum skemmtilega á óvart eins og það er þekkt fyrir og gítarleikarinn snjalli, Friðrik Karlsson slær botninn í hátíðina með hugleiðslu í samstarfi við Nýjaland. 
Til stendur að gefa út dagskrá hátíðarinnar sem dreift verður á hvert heimili á Seltjarnarnesi og nágrenni. 
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: