Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Kraftlyftingakonan Fanney og júdókappinn Axel íþróttafólk ársins á Seltjarnarnesi

3.2.2016

Kjör Íþróttamanns- og konu Seltjarnarness fór fram þriðjudaginn 2. febrúar að viðstöddu fjölmenni í Félagsheimili Seltjarnarness. Kjörið fór fram í 23. skiptið en það var fyrst haldið 1993. Kjörið er í umsjón Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta og stuðla enn frekar að öflugu íþrótta- og tómstundalífi á Seltjarnarnesi.
Einnig voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks, Íslandsmeistara auk þess sem veitt voru voru sérstök verðlaun fyrir félagsmálafrömuði á Seltjarnarnesi.
Í kjöri til Íþróttafólks Seltjarnarness voru 10 einstaklingar úr 7 íþróttagreinum.

Axel Kristinsson og Fanney Hauksdóttir

Fanney Hauksdóttir – Íþróttakona Seltjarnarness
Fanney er 23 ára og byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir 4 árum eftir að hafa stundað fimleika í áraraðir. Fanney varð Íslandsmeistari í bekkpressu í 63 kg flokki með 125 kg lyftu sem var jafnframt Íslandsmet. Hún varði heimsmeistaratitil sinn á HM unglinga sem fram fór í Svíþjóð og setti um leið nýtt heimsmet unglinga þegar hún lyfti 145,5 kg og Evrópumeistari í opnum flokki (flokki fullorðinna) á Evrópumótinu sem fram fór í Tékklandi. Þetta var hennar fyrsta mót í flokki fullorðinna og lyfti hún 147,5 kg sem var jafnframt nýtt heimsmet unglinga, en hún átti metið fyrir sjálf.
Fanney setti Íslandsmet í opnum flokki í klassískri bekkpressu (bekkpressu án búnaðar) á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum með því að lyfta 100 kg og varð þar með fyrsta íslenska konan til að lyfta þeirri þyngd. Með þessari lyftu sett hún jafnframt Norðurlandamet unglinga. Í lok árs var Fanney tilnefnd til íþróttamanns ársins af Samtökum íþróttafréttamanna og endaði í 5. sæti í valinu. Er þetta besti árangur sem íslenskur kraftlyftingakeppandi hefur náð á þessum vettvangi eftir að kraftlyftingar urðu á ný íþróttagrein innan ÍSÍ. Fanney situr í 4. sæti á heimslista IPF í 63kg opnum flokki (flokki fullorðinna).
Fanney er mikil fyrirmynd og virkur þátttakandi í starfi kraftlyftingadeildar Gróttu, auk þess að þjálfa fimleika.

Axel Kristinsson – Íþróttamaður Seltjarnarness
Axel er 27 ára og hefur stundað júdó frá því hann var 11 ára en hann er uppalinn í júdódeild Ármanns. Allt frá upphafi júdóferilsins hefur Axel sýnt það og sannað að hann er afburðar íþróttamaður, en á árunum 2008-2013 varð hann Íslandsmeistari fullorðinna í júdó. Hann hefur einnig keppt á Smáþjóðaleikunum fyrir Íslands hönd.
Axel náði mjög góðum árangri í sínum íþróttum á árinu 2015, bæði í júdó og brasilísku jiu-jitsu (BJJ), en þar keppir Axel fyrir Mjölni. Hann varð í maí Norðurlandameistari í júdó en þar vann hann alla andstæðinga sína með uppgjafartaki (ippon). Með það í huga er sigur hans á einu stærsta og sterkasta móti sem haldið er á Norðurlöndunum því enn stærri. Hann varð einnig Íslandsmeistari í BJJ auk þess að lenda í 3. sæti á Evrópumeistaramótinu í sömu keppnisgrein sem haldið var í Lissabon en mótið þar hefur aldrei verið stærra.
Axel er jafnframt yfirþjálfari hjá íþróttafélaginu Mjölni ásamt því að æfa mjög keppnismiðað. Hjá Mjölni sér hann um barna- og unglingastarf ásamt því að þjálfa fullorðna í BJJ. Barna- og unglingastarfið byggir hann upp sem leik og leggur áherslu á ábyrgð sem fylgir því að læra hverskyns bardagaíþróttir.

Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: