Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Borgin flytur sambýli af Seltjarnarnesi án samráðs

10.3.2016

Vegna fréttar, sem birtist í Fréttatímanum þann 4. mars síðastliðinn og um fyrirhugaðan flutning heimilisfestis einhverfs manns frá Seltjarnarnesi, vill bærinn taka eftirfarandi fram: 

Í fréttinni lýsti faðir manns, sem býr á sambýli við Sæbraut á Seltjarnarnesi, yfir óánægju sinni með að til stæði að leggja sambýlið niður og bjóða íbúum þess að flytja  í Breiðholtið. Seltjarnarnesbær var ekki hafður með í ráðum þegar ákvörðunin um flutning sambýlisins var tekin af Reykjavíkurborg, en lög um málefni fatlaðra banna sveitarfélögum á stærð við Seltjarnarnes að reka eigin þjónustu á þessu sviði. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar stýrir þjónustunni og ber þannig ábyrgð á rekstri sambýlisins á Sæbraut. 

Þjónusturáð sameiginlega þjónustusvæðisins, sem í sitja fulltrúar Seltjarnarness og Reykjavíkur, fundar reglulega um sameiginleg málefni fatlaðra í bænum. Á fundi ráðsins í febrúar kom fram að íbúar sambýlisins og aðstandendur þeirra væru almennt jákvæðir gagnvart þessum breytingum. Höfðu fulltrúar bæjarins enga ástæðu að draga það í efa. Í kjölfar umfjöllunarinnar hafa aftur á móti foreldrar tveggja heimilismanna á sambýlinu á Sæbraut haft samband við bæjarskrifstofuna og greint frá því að þeir séu mótfallnir flutningunum af Seltjarnarnesi. 

Seltjarnarnesbæjar telur að íbúar sambýlisins eigi að hafa val um hvort þeir flytji eða verði um kyrrt. Ákvörðun um að flytja heimilisfólk á sambýli þarf að vera tekin í samráði og sátt við heimilismenn og aðstandendur þeirra. Fulltrúar bæjarins í sameiginlegu þjónusturáði þess og Reykjavíkurborgar munu kalla eftir því að slíkt samráð fari fram áður en endanleg ákvörðun er tekin um framtíð sambýlisins.  

Í frétt Fréttatímans kom fram að viðhaldi sambýlisins á Sæbraut hafi verið ábótavant. Það er rangt. Varðandi athugasemdir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að bærinn hafi ekki markað sér stefnu í málaflokknum, þá hefur bæjarfélagið tekið fullan þátt í stefnumörkun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur unnið að. Stefna Seltjarnarnesbæjar í þjónustu við fatlað fólk getur ekki, samkvæmt núgildandi samningi við Reykjavík, verið önnur en sú sem velferðarsvið borgarinnar markar. 
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: