Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar 2015

8.4.2016

Ársreikningur 2015 sýnir að fjárhagsstaða bæjarins er traust og endurspeglar áfram þann stöðugleika sem einkennt hefur rekstur bæjarins á liðnum árum.  

Traust fjárhagsstaða – Bætt greiðslustaða og lækkun skulda

Heildarskuldir og skuldbindingar í árslok námu alls 1.753 m.kr. Þar af námu reiknaðar lífeyrisskuldbindingar 1.224 m.kr. en þær hækkuðu milli ára um 189 m.kr. Langtímaskuldir námu í árslok 183 m.kr. Veltufjármunir námu í árslok 1.242 m.kr. Veltufjárhlutfall í árslok 2015 var 3,2. Skuldahlutfallið er með því lægsta á landinu nú 53%. 

Rekstrarniðurstaða varð neikvæð um 126,7 m.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 6,6 m.kr. Meginskýringin á lakari afkomu, eru miklar launahækkanir umfram þær forsendur sem fjárhagsáætlun byggði á. Nýir kjarasamningar og hækkanir vegna starfsmats á haustmánuðum hækkuðu laun og tengd gjöld um 228 m.kr. 

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri er ánægð með sterka fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Þótt launaútgjöld bæjarins hafi orðið nokkru hærri en gert var ráð fyrir tókst að draga úr öðrum rekstrarútgjöldum á móti.  „Ég er afar ánægð að geta lagt fram ársreikning fyrir árið 2015 sem sýnir svo góða fjárhagsstöðu jafnframt því að álögum á íbúana er haldið í lágmarki eins og áður. Ég vil ekki síst þakka okkar frábæra starfsfólki og aga í rekstri þennan árangur.“

Íbúum fjölgar

Íbúar voru 4.418 í árslok 2015. Íbúum hefur fjölgað lítið eitt á síðastliðnum þremur árum og nemur fjölgun frá árslokum 2012 tæpum 2%. Líkur benda til að íbúum muni fjölga meira á komandi misserum en það mun treysta tekjustofna bæjarins, stuðla að betri nýtingu innviða og styrkja þá stefnu að halda álögum á bæjarbúa jafnan í lágmarki.

Ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði í gær og vísað til bæjarstjórnar til fyrri umræðu.
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: