Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Fréttir

Endurvinnsla á plasti tvöfaldast á Seltjarnarnesi

15.9.2016

Íbúar á Seltjarnarnesi hafa aukið plastsöfnun til muna það sem af er ári. Bæði hefur safnast meira í grenndargám við Eiðistorg, miðað við síðasta ár, og hluti íbúa nýtir sér sérstaka plastpoka fyrir plastumbúðir sem mega fara í heimilistunnuna. Plastpokarnir eru hluti af tilraunaverkefni SORPU og Seltjarnarnesbæ en verkefnið hófst í lok maí. Á aðeins þremur mánuðum hefur verkefnið skilað svipuðu magni af plastumbúðum til endurvinnslu og barst allt árið í fyrra í grenndargám við Eiðistorg. Gert er ráð fyrir að verkefnið standi yfir í um ár, en íbúar geta nálgast poka fyrir plastið í íþróttamiðstöð Seltjarnarness við Suðurströnd. 

Plast

Í pokana fara plastumbúðir sem falla til á heimilum, s.s. brúsar, flöskur og plastbakkar undan matvörum og hreinsiefnum, plastílát undan mjólkurvörum, plastpokar, umbúðir úr frauðplasti o.s.frv. Samkvæmt leiðbeiningum frá SORPU er best að fjarlægja allar matarleifar og skola efnið svo ekki komi ólykt við geymslu. Þegar pokinn hefur verið fylltur er bundið vandlega fyrir og hann settur í tunnur sem ætlaðar eru fyrir almennt heimilissorp. SORPA flokkar svo pokana frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu í Svíþjóð. 
Plastpokar
Með því að flokka plast stuðla íbúar að betri nýtingu auðlinda og sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum því fyrir hvert kíló af plasti sem fer til endurvinnslu sparast um tvö kíló af olíu. Stjórnendur bæjarins eru afar stoltir af samtakamætti bæjarbúa í verkefninu og hvetja þá sem enn hafa ekki tekið þátt í því að byrja að safna, en samkvæmt upplýsingum frá SORPU leynist enn töluvert plast í ruslinu sem getur orðið hráefni í nýjar vörur ef það er flokkað.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Gyða Sigríður Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Sorpu, 520-2200 / gyda.bjornsdottir@sorpa.is
Senda grein

Fréttir og útgefið efni
Leitaðu í eldri fréttum

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: