Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Fréttir og útgefið efni
Textaútdráttur úr viðtölum

Textaútdráttur úr viðtölum: Þátturinn Húsin í bænum á útvarpi Sögu með Kjartani Gunnari Kjartanssyni

22.07.2005

Viðtal við Jónmund Guðmarsson.

Byrjað er á að ræða um pólitískt landslag í sveitarfélaginu, Sjálfstæðisflokkurinn fékk meirihluta í kostningum árið 1962 og hefur verið í meirihluta allar götur síðan. Jónmundur er spurður að því hver sé meginástæða fyrir þessari ótrúlegu velgengni Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi. Hann segir að þessi árangur sé líklegast einsdæmi meðal stærri sveitarfélaga á landinu. Hann nefnir til nokkar ástæður. Sjálfstæðismenn hafa haldið uppi farsælli stefnumörkun í rekstri sínum á bænum, reynt að halda skuldum bæjarins í lágmarki en um leið veita góða þjónustu.

Jónmundur byrjaði að hafa afskipti af pólitík haustið 1998, þegar hann gaf kost á sér í opnu prófkjöri sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í 3ja sæti á lista. Hann sat sem bæjarfulltrúi kjörtímabilið 1998 - 2002. Í prófkjöri árið 2001 bauð Jónmundur sig fram í fyrsta sæti listans. Í kosningunum árið 2002 fékk Sjálfstæðisflokkurinn um 62% atkvæða og líklegast var það stærsti sigur flokksins á landsvísu í þeim kostningum.

Rætt var um hvort persónufylgi skipti meira máli í sveitarstjórnarkosningum heldur en alþingiskosningum. Jónmundur telur slíkt vera, persónuleg aðkoma og álit fólks á þeirri persónu eða þeim lista sem fer fyrir hvern flokk fyrir sig, skipti talsverðu máli. Í sveitarsjórnum er verið að fást við okkar nánasta umhverfi, málefnin sem fjallað er um fara ekki endilega eftir flokkslínum heldur einstaklingnum.

Einnig var rætt hvort sveitarstjórnarmálefni sitji á hakanum í fjölmiðlaumræðunni, hvort þau mál séu vanmetin? Jónmundur er á vissan hátt sammála því. Það er einungis einn fjölmiðill sem hefur sérstakt pláss fyrir umræðu um sveitarstjórnarmál og það er Morgunblaðið. Annars er bara fjallað um sveitarstjórnarmál ef tiltekin mál koma upp, t.d. deilumál. Sveitarstjórnarmál eru þau mál sem standa íbúum næst og eru e.t.v. ekki forsíðumálefni. Bæjarstjórnarfulltrúar mega vera duglegri að koma sínum málum á framfæri.

Jónmundur segir að bæjarfélagið hefur haft árangursríka fjármálastefnu, hafa verið varkár í fjárfestingum, aðaldsemi í fjármálum og reynt að veita íbúum góða þjónustu án þess að auka álagningu og skatta. Skattastefna hefur verið góð, útsvar hefur verið lágt, t.d voru fasteignagjöld lækkuð nýlega og Seltjarnarnes er eina sveitarfélagið sem ekki leggur á holræsagjöld á íbúa sína.

Fjallað var um bakgrunn Jónmundar, hann er með háskólapróf í heimspeki og stjórnmálafræði frá HÍ og í alþjóðastjórnmálum frá Edinborg.

Á Seltjarnarnesi hefur íbúum verið að fækka, eru nú um 4500 íbúar: Jónmundi finnst það vera áhyggjuefni að Seltjarnarnes er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúum hefur fækkað.

Hérna stoppar viðtalið.

 

21.7 2005

Viðtal við Ásgerði Halldórsdóttur og Bjarna Torfa Álfþórsson

Ásgerður er forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi og formaður æskulýðs- og íþróttanefndar og Bjarni er bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar.

Bjarni byrjar á því að tala um grunnskólann Mýrarhúsaskóla sem er einn af elstu grunnskólum landsins. Húsnæði fyrir hann var reist árið 1875 og nú eru þar félagsmálaskrifstofur bæjarins
Mýrarhússkóli var eini skólinn á nesinu í tæpa öld eða þar til Valhúsaskóli var stofnaður árið 1974. Skólarnir voru sameinaðir árið 2005 undir einni yfirstjórn,  einn skólastjóri og 2 aðstoðarskólastjórar í hverjum skóla. Í dag eru um 750 börn á skólaaldri og um 70 kennarar.

Ásgerður var spurð um meginhlutverk æskulýðs- og íþróttanefndar. Það er fyrst og fremst að styðja við æskulýðs- og íþróttastarf á staðnum, eru með öflugt íþróttafélag - Gróttu, styðja við æskulýðsstarf í kirkjunni, rekur félagsmiðstöðina Selið í samvinnu við Grunnskólann, bjóða upp á golfnámskeið á sumrin í samvinnu við golffélagið og bera ábyrgð á íþróttamiðstöðinni í heild sinni.

Næst fjallar Bjarni nánar um grunnskólann sem er einn stærsti vinnustaður bæjarfélagsins. Skólinn er einsetinn og bæjarfélagið var með þeim fyrstu til að gera grunnskóla einsetinn.
Þá fara nemendur í svokallað skólaskjól eftir skólann, aðallega fyrir 1.- 3. bekk. Foreldrar mjög ánægðir með þá breytingu. Skólinn var með þeim fyrstu til að bjóða upp á heitan mat í skólanum, nú er komið nýtt mötuneyti við skólann og um 90% barna kaupa mat við skólann.

Bjarni er spurður að því hvernig sambandið er við foreldra og hvort eitthvað foreldrastarf sé við skólann. Það er foreldraráð starfandi við skólann, og foreldrafélag við báða skóla. Þau eiga svo fulltrúa í skólanefnd sveitarfélagsins og sitja alla fundi hennar. Þeir eru því með á nótunum um hvað gerist í skólamálum í  sveitarfélaginu.

Ásgerður segir frá samráðshópi um áfengis- og fíkniefnavanda sem samanstendur af hópi sem vinnur með börnum og unglingum hjá sveitarfélaginu.

Hérna stoppar viðtalið.

 


20.7 2005

Viðtal við Sigurgeir Sigurðsson og Magnús Erlendsson

Í þættinum er farið yfir sögu Seltjarnarness með þeim Sigurgeiri og Magnúsi. Sigurgeir sat fyrst í hreppsnefnd og bæjarstjórn frá árunum 1962 til 2002 eða í 40 ár. Hann var bæjarstjóri frá 1965 til 2002 eða í 37 ár. Sigurgeir sat sem bæjarstjóri í bæjarstjórnarmeirihluta eins stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, allan þennan tíma sem er líklegast einsdæmi á Íslandi. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn í 10 kosningum í bæjarfélaginu. Magnús var í hreppsnefnd frá 1962 og var forseti bæjarstjórnar frá 1986 – 1996.

Varðandi sögu byggðar á Seltjarnarnesi, þá var bærinn Nes líklega byggður á landnámsöld en fyrstu heimildir um bæinn eru frá því um 1200. Þá er bærinn orðinn að stórbýli og þar komin kirkja. Þar bjó Magnús Guðmundsson Alsherjargoði, í lok 13 aldar bjó þar Hafurbjörn sem var einn af ríkustu mönnum þess tíma. Magnús er spurður að því hvar bærinn Nes hafi staðið, og talið er að það hafi verið þar sem Nesstofa er í dag.

Við bæinn Nes var kirkja og kirkjugarður og ennþá má sjá rústir hans, sunnan megin við Nesstofu. Á svæðinu hafa verið gerðar nokkrar fornleifarannsóknir. Aðrir bæir sem getið er um á Seltjarnarnesi eru: Frá 14. öld eru það bæirnir Bakki, Bygggarður og Eiði en Bakki og Bygggarður voru lengi kirkjujarðir. Á 15. öld var getið um Lambastaði og Hrólfsskála og á 16. öld Mýrarhús.

Í upphafi 18. aldar var Seltjarnarnes að verða eitt af mestu þéttbýlistöðum landsins. Á 18. öld var stofnað landlæknisembætti á Seltjarnarnesi og þá var Nesstofa byggð. Nesstofa er fyrsti íslenski landlæknisbústaðurinn og fyrsti landlæknir þjóðarinnar var í Nesstofu en þar sátu 4 landlæknar. Þarna er líklegast fyrsta sjúkrahús landsins. Nú er þar lækningaminjasafn og lyfjafræðisafn.

Á 18. öld fékk Reykjavík kaupstaðarréttindi og þá hófst hið mikla landaafsal Seltjarnarneshrepps og enginn hreppur varð fyrir jafn miklu landaafsali og Seltjarnarneshreppur til forna. Gamli Seltjarnarneshreppur til forna náði yfir þar sem nú er Reykjavík og Kópavogur. Smám saman fóru fleiri jarðir undir Reykjavík.
Sama með eyjarnar Viðey og Engey og um tíma var rekinn barnaskóli í Viðey frá Mýrarhússkóla á Seltjarnarnesi.

Á síðari hluta 19 aldar var mikill uppgangur í útgerð á Seltjarnarnesi, þarna voru stórútgerðarmenn sem áttu nokkra sexæringa. Talið er að á þessum tíma hafi verið til  44 sexæringar á þessu svæði sem er mun meira en í nágrannabyggðarlögum. Helstu varir og naust svæðisins eru þekkt, til er örnefnakort af Seltjarnarnesi þar sem öll helstu örnefni eru merkt inn.

Hérna stoppar viðtalið.

efst á síðu

 


19.7 2005

Viðtal við Bjarna Dag Jónsson og Hrafnhildi Sigurðardóttur

Bjarni Dagur starfrækir auglýsingarstofu en var á árum áður útvarpsmaður og situr í menningarnefnd Seltjarnarness. Hrafnhildur er leikskólafulltrúi og kennsluráðgjafi en hún hefur verið að byggja upp fræðslusetrið í Gróttu.

Fyrst eru þau spurð hvort þau séu sátt við niðurstöðu úr kosningu um skipulagsmál í bænum sem var fyrir skömmu um skipulag á Hrólfsskálamel. Bjarni svarar því neitandi, hann er óánægður með ferlið, þessa aðferð sem var notuð til ákvörðunar. Honum finnst eðlilegra að kjörnir fulltrúar taki ákvörðun um skipulagsmál heldur en lítill hópur bæjarbúa. Einnig var hann óánægður með niðurstöðuna úr kosningunum. Ekki sama að hafa skoðun á einhverju máli eða hafa vit á því. Skipulags-, byggingar- og umhverfismál almennt eru orðin svo tæknileg- og verkfræðileg mál. Bjarni er spurður að því hvaða áherslupunkta honum finnist vanta í núverandi niðurstöðu. Hann segist hafa verið hrifinn af tillögu sem byggðist á blandaðri byggð, íbúabyggð og smá þjónustu, þéttri og fjölmennari byggð.

Hrafnhildur er síðan spurð um hennar skoðun á þessu málefni. Hún segir þetta svæði vera mjög vinsælt til bygginga og þar hafi verið gamlar skemmur sem hafi verið gott að losna við. Hún segist vera sammála Bjarna um það að kjörnir fulltrúar eigi að taka ákvarðandir varðandi svona mál.  Bjarni er sammála henni með að það sé gott að losna við skemmurnar en hann hefði viljað sjá grasvöllinn inn á svæðinu, nálægt skólunum og íþróttamannvirkin til að mynda n.k íþróttahverfi.

Næst er rætt um félagsheimilið á Seltjarnarnesi, en það er eins og gömlu félagsheimilin og það bíður upp á marga notkunarmöguleika. Húsið hefur verið mikið notað á Seltjarnarnesi fyrir alls konar viðburði. Þau eru spurð hvort einhver áform hafi verið um að byggja menningarhallir eða menningarbyggingar. Það hefur verið rætt um að byggja betri aðstöðu fyrir menningarlífið og sumir hafa sagt að það væri gaman að byggja slíka höll upp á Valhúsahæðinni. Þó eru margir bæjarbúar viðkvæmir fyrir Valhúsahæðinni, þar eru sögulegar minjar, grænt svæði og ekki allir sem vilja breytingar á henni.

Margir bæjarbúar vilja vernda þessi svæði og hafa aðrar hugmyndir um uppbyggingu bæjarfélagsins. Seltjarnarnes er ólíkt flestum sveitarfélögum með að það getur ekki stækkað landfræðilega, nema fara út í landfyllingar. Seltjarnarnes á reyndar land fyrir austan Sandskeið.

Hrafnhildur er spurð um fræðasetrið í Gróttu, Grótta er einstök náttúruperla, fólk getur verið tímunum saman í fjörunni, þar er iðandi lífríki, fuglar og ungar. Það er alveg einstakt að vera í nábýli við svona svæði.

Hérna stoppar viðtalið.

 


18.7 2005

Þátturinn Húsin í bænum með Kjartani Gunnari Kjartanssyni. Viðtal við Sigurð Grétarsson og Ingimar Sigurðsson

Í byrjun viðtalsins er örstutt farið yfir sögu Seltjarnarness. Landsvæði Seltjarnarneshrepps hins forna náði yfir það svæði sem meirihluti landsmanna búa í dag, yfir meirihluta byggingarsvæða Reykjavíkur og Kópavogs. Eftir að Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi fór smám saman að minnka landsvæði Seltjarnarneshrepps. Seltjarnarnes var framarlega í fiskveiðum og útgerðarmálum á seinni hluta 19. aldar. Síðan verður Seltjarnarnes fyrst og fremst landbúnaðarhérað, þangað til byggð fer að sækja á.

Vegna nábýlis við Reykjavík hefur Seltjarnarnes enga möguleika að stækka samfellda byggð, nema með landfyllingu. Því er ekki sama hvernig er skipulagt og byggt á þeim svæðum sem eru eftir til að byggja á. Miklar deilur voru þennan vetur (2004-2005) um skipulagsmál á Suðurströnd og settar voru fram 2 megintillögur að skipulagi á svæðinu, sem bæjarbúar kusu svo um.

Í þessum þætti verður aðallega rætt um skipulagsmál, Ingimar er formaður umhverfisnefndar og varaformaður skipulagsnefndar og Sigurður prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands.

Ingimar er fyrst spurður um hvaða svæði þetta eru nákvæmlega sem um ræðir. Svæðið er við Hrólfsskálamel sem hýsir verslunina Bónus, dekkjarverkstæði, líkamsrækt og gamla Ísbjörninn sem nú er búið að rífa. Á svæðinu sem gamli Ísbjörninn var staðsettur var fyrirhugað að reisa knattspyrnuvöll og þar sem malarvöllurinn er átti að byggja fjölbýlishús. Bæjarbúar mótmæltu þessari hugmynd.

Sigurður var spurður hvort Seltirningar hefðu ákveðnar skoðanir á skipulagsmálum almennt. Hann segist ekki vera viss um það en það eru þessar sérstöku aðstæður á Seltjarnarnesi að það sé lítið landsvæði þar sem hægt er að koma upp nýjum hverfum. Á síðustu 15 árum hefur það gerst þrisvar sinnum að áform bæjarstjórnar um að auka íbúafjölda, hafa mætt andstöðu. Hann telur að áhugi almennings á skipulagsmálum hafi aukist síðustu árin og fólk er meira að láta sig varða sitt nánasta umhverfi.

Sigurður var spurður um hverjir væru helstu áherslupunktar þeirra sem voru að gagnrýna skipulagið. Hann segir að það sé aðallega þrennt. Í fyrsta lagi magn bygginga og hæð þeirra og samhliða því mikil aukning á umferð. Í öðru lagi áherslur kringum miðbæ, verslun og þjónustu sem væri ekki sinnt nógu vel. Í þriðja lagi íþróttavöllurinn, sumum fannst ómögulegt að hafa hann á melnum við íþróttamiðstöðina. Í kosningunum tóku um 52% íbúa þátt og skiptingin milli tillaga var um 54% og 46%. Þetta er líklegast með fystu skiptum sem íbúar sveitarfélags fá að kjósa um deiliskipulag.

Núna er komin niðurstaða, íþróttavöllurinn verður á sínum gamla stað og byggt verður á Hrólfskálamel og núna er bæjarstjórn byrjuð að vinna að þessum verkefnum.


Hérna stoppar viðtalið.

efst á síðu

 


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: