Fréttir og útgefið efni

Viðburðir

14.11.2013 - 31.12.2013 Seltjarnarnesbær

Álfabækur 

Þúsundir álfabóka Guðlaugs Arasonar til sýnis í Eiðisskeri 17. nóvember til 31. desember 2013


Á meðan flestir rithöfundar keppast nú við að gera bækur sínar sem sýnilegastar út á við situr rithöfundurinn Guðlaugur Arason við og einbeitir sér að því að setja saman agnarsmáar bækur og rit sem hann nefnir Álfabækur. Bókunum raðar hann á heimilislega máta í smágerðar bókahillur, sem hann hefur smíðað sjálfur, rammar hillurnar inn og hengir upp á vegg eða stillir upp á stöpla.  Þarna er samankominn þverskurður af litteratúr veraldarinnar í svo smækkaðri mynd að til að minnstu núansarnir njóti sín þarf að setja þá undir stækkunargler. Álfabækur Guðlaugs verða til sýnis í Eiðisskeri, sýningarsal Seltirninga á Eiðistorgi inn af Bókasafninu, frá og með fimmtudeginum 14. nóvember kl. 17 þegar sýning hans verður opnuð formlega með kaffi og álfakleinum.
Verkin á sýningu Guðlaugs eru unnin á undanförnum þremur árum en fyrsta og eina sýningin  á þeim til þessa var haldin síðastliðið sumar í Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar seldust öll verkin upp, en Guðlaugur hefur bætt í safnið og farið nýjar leiðir á sýningunni í Eiðisskeri. Nú sýnir hann meðal annars nokkurs konar sviðsetningu af heilu bókaherbergi með persónum og leikendum og gefur áhorfandanum með því tækifæri til að skapa sitt eigið ævintýri, sína eigin sögu. Í fyrsta sinn hefur Guðlaugur á þessari sýningu einnig hannað bókaskáp utan um verk eins rithöfundar en um er að ræða verk Vigdísar Grímsdóttur. 
Guðlaugur Arason, Garason, ÁlfabækurGuðlaugur Arason
Rithöfundurinn Guðlaugur Arason gaf út sína fyrstu skáldsögu, Vindur, vindur vinur minn, 25 ára gamall. Síðan hefur hann skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og tvær bækur um Kaupmannahöfn. Ritverk hans hafa notið mikilla vinsælda og verið verðlaunuð. Hann er kunnari sem rithöfundur en myndlistarmaður þótt hann hafi alla tíð unnið að myndlist jöfnum höndum með ritstörfum sínum. Meðal helstu ritverka Guðlaugs má nefna Víkursamfélagið, Sóla, Sóla, Eldhúsmellur, Pelastikk og Gamla góða Kaupmannahöfn. Guðlaugur er fæddur og uppalinn á Dalvík og er nú nýlega sestur að á höfuðborgarsvæðinu eftir um hálfrar aldar búsetu í Danmörku, Sviss og Finnlandi.
 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: