Fréttir og útgefið efni

Viðburðir

07.06.2017 - 27.08.2017 Seltjarnarnesbær

List Officinalis - Samtal myndlistar við Urtagarðinn í Nesi

List Officinalis - Samtal myndlistar við Urtagarðinn í Nesi


Sumarsýning Nesstofu er að þessu sinni myndlistarsýning þar sem leitast er við að að varpa ljósi á sögu þessa merka húss, lækningar, lyf og Urtagarðinn á forvitnilegan hátt í gegnum verk átta listamanna. Húsið, Nesstofa - sem áður hét Nes, var reist á árunum 1761-1767 og á sér langa og merkilega sögu sem bústaður fyrsta landlæknis Íslendinga, Bjarna Pálssonar. Þar bjó einnig fyrsti lyfsali landsins, Björn Jónsson. Vitað er að á tímum Björns og Bjarna var mikið ræktað af lækninga- og matjurtum í Nesi og þar stundaðar fjölbreyttar tilraunir til ræktunar. 

Yfirskrift sýningarinnar vísar til plöntuheita og flokkunarkerfis Carolus Linnaeus þar sem officinalis er seinna nafn margra opinberra lækningajurta en listaverkin eiga það sameiginlegt að tengjast jurtum á einn eða annan hátt. Orðið officinalis birtist fyrst í verki Linnaeus, Systema Naturae, frá árinu 1735. Í því riti greindi hann plöntur, dýrategundir og steindir í flokka og birti fyrst tvínafnakerfi þar sem fyrra nafnið er ættkvíslarheiti og hið seinna lýsandi fyrir tegundina. Þetta kerfi er enn notað innan grasafræða. Orðið officinalis er sótt úr latínu og merkir það sem tilheyrir eða er komið frá officina, rýmum sem geymdu jurtir og lyfjablöndur græðandi guðsfólks í klaustrum fyrri tíma. Sýningin List Officinalis tengist því þannig hugmyndum um græðslu lands og líkama. 

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Alex Fretin, Birgir Andrésson, Clara Bro Uerkvitz, Eggert Pétursson, Ingibjörg Birgisdóttir, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Sara Riel, Steinunn Önnudóttir. 

Sýningin er unnin á vegum Seltjarnarnesbæjar í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Sýningarstjóri er Sigríður Nanna Gunnarsdóttir. 

Sýningin stendur frá 7. júní til 27. ágúst. 
Opnunartími Nesstofu er 12-17 alla daga nema mánudaga. 

 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: