Fréttir og útgefið efni

Viðburðir

20.11.2018, kl.20:00 Seltjarnarnesbær

Rithöfundakvöld í Bókasafni Seltjarnarness

Rithöfundakvöld 2018

Gestir að þessu sinni eru Lilja Sigurðardóttir með nýja bók sína Svik Sigursteinn Másson með ævisögu sína Geðveikt með köflum, Gerður Kristný með ljóðabók sína Sálumessa og Guðrún Eva Mínervudóttir með skáldsöguna Ástin, Texas – sögur.  ÞorgeirTryggvason heimspekingur og bókmenntarýnir stýrir umræðum.

 1. Svik Lilja Sigurðardóttir

  Úrsúla er nýlega flutt til Íslands eftir áralöng störf á hættusvæðum heimsins. Rólegt hversdagslífið í Reykjavík hentar henni engan veginn, svo að hún grípur fegins hendi óvænt boð um að taka sæti í ríkisstjórn landsins: þar getur hún aftur látið til sín taka! En stjórnmálin eru refskák og fjölmiðlar vaka yfir hverju fótmáli nýja ráðherrans. Hröð og hörkuspennandi saga um völd og valdaleysi, ofbeldi og þöggun; um að bregðast trausti og svíkja gefin loforð.

 2. Sigursteinn Másson: Geðveikt með köflum

  Geðveikt með köflum er einstæð frásögn Sigursteins Mássonar um lífshlaup sitt þar sem sannarlega hafa skipst á skin og skúrir. Sigursteinn var aðsópsmikill fréttamaður á sínum tíma og lét talsvert að sér kveða í fjölmiðlum. Þá hvarf hann af skjánum og af þjóðlífsvettvangi, en segir nú söguna af þeim hremmingum sem hann gekk í gegnum.

  Af mikilli einlægni, hispursleysi en líka af kankvísi fjallar Sigursteinn hér um andleg veikindi sín, hvernig hann sá og heyrði samsæri í hverju horni, um stríðið í Kósovó þar sem Sigursteinn var einna fyrstur vestrænna fréttamanna á staðinn, Guðmundar og Geirfinnsmálin og þátt þeirra í veikindunum. Og þegar hann fór fram á við Davíð Oddsson forsætisráðherra að fá einkaþotu til að komast úr landi og fjármagn til uppihalds að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

  Geðveikt með köflum er áhrifamikil frásögn samtímamanns um veikindi og tvísýna baráttu um andlega heill og velferð, og hvernig honum tókst, með hjálp góðra manna og kvenna, að ná tökum á geðsjúkdómi sínum.

 3. Guðrún Eva Mínervudóttir: Ástin, Texas – sögur

  Í þessum tengdu sögum Guðrúnar Evu eru samskipti fólks á öllum aldri í forgrunni; mæðgna, feðgina, elskenda, vinnufélaga, hyskis og góðborgara. Persónugalleríið er fjölbreytt og litríkt; sálfræðineminn Hildigunnur, Agnar sjoppueigandi, Jósteinn múrari, trúboðarnir Austin og David frá Texas, Jóhanna sem dregst háskalega að Kára, móðurbróður bestu vinkonu sinnar, , urbróður bestu vinkonu sinnarelskendurnir Sóti og Magga sem verja tíma sínum á knæpunni Dallas ...

  Af einstöku næmi og stílgáfu nær Guðrún Eva hér fágætri dýpt í mannlýsingum og bæði persónur og andrúmsloft sagnanna lifa með lesanda lengi á eftir. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir Allt með kossi vekur og síðasta bók hennar, Skegg Raspútíns, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016, og vakti mikla athygli.

 4. Sálumessa Gerður Kristný

  Sálumessa flytur bæn þeirra sem lifa um að sál þess látna megi bjargast. Í ljóðabálki Gerðar Kristnýjar er sungin messa yfir konu sem féll fyrir eigin hendi svo þjáning hennar og líf fái ekki að gleymast. Gerður Kristný er eitt víðlesnasta samtímaskáld okkar og ljóðabálkar hennar, Blóðhófnir og Drápa, hafa hlotið verðskuldaða athygli innan lands og utan fyrir meitlað ljóðmál og brýnt erindi.

 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: