Gallerí Grótta

Sýningarsalur Seltjarnarness


Gallerí Grótta lógó/merkiEiðistorgi 11, 2. hæð

hafqaSeltjarnarnes
Sími 5959 170
gallerigrotta@seltjarnarnes.is


Sýningar í Gallerí Gróttu

____________________________
Ragnhildur Ágústsdóttir - Nema fuglinn fljúgandiNema fuglinn fljúgandi - Ragnhildur Ágústsdóttir opnar sýningu í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 8. september kl. 17
Ragnhildur Ágústsdóttir - Rauðbrystingar
Listamaðurinn Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir er fyrst til að sýna verk sín í Gallerí Gróttu á nýju sýningartímabili salarins, sem nú fer í hönd. Viðfangsefni Ragnhildar á sýningunni eru náttúrumyndir þar sem íslenskir fuglar eru í lykilhlutverki. Fuglar skipa ríkan sess í  þjóðsögum og hjátrú Íslendinga en á sýningunni eru þessar tengingar raktar í litlu riti sem tekið hefur verið saman. 

Ragnhildur vinnur verk sín með vatnslitum, gouache og kaffi á pappír, en verkin á sýningunni eru flest gerð á síðastliðnum þremur árum. Ragnhildur á að baki nokkrar einka- og samsýningar þar sem hún sýndi náttúrumyndir sem að stórum hluta voru unnar með olíulitum. Talið er að vatnslitir séu ein elsta listgrein mannsins að steinhögginu undanskildu. Það sem einkennir þá er hin mjúka, viðkvæma og gagnsæja áferð. Náttúrumyndir Ragnhildar á sýningunni varpa ljósi á ótal blæbrigði vatnslitanna og miðillinn nýtur sín sérlega vel í fjölbreytilegri lita- og mynstursamsetningu fuglanna. Verkin eru unnin af einstakri nákvæmni og tilfinningu fyrir viðfangsefninu þar sem fuglarnir eru ýmist í kyrrstöðu eða ærslafullum leik. Í hugum margra eru dýrgripir menningararfsins skráðir með olíu á striga, en vert er að rifja upp að listamenn á borð við Finn Jónsson, Gunnlaug Scheving og Svavar Guðnason skildu eftir sig mörg áhrifamikil vatnslitaverk. 

Í tengslum við sýningu Ragnhildar hafa margir af dýrgripum Náttúrugripasafns Seltjarnarness verið dregnir fram í dagsljósið og eru nú sýndir í Bókasafni Seltjarnarness, sem stendur við sýningarsalinn. Má þar nefna örn, himbrima, álft á hreiðri, uglur og fleiri tegundir.

Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir (1976) er fædd í Stykkishólmi en býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá Roger Williams University í Bandaríkjunum árið 2002. Hún hefur haldið einkasýningar í Gallerí Fold í Reykjavík og í Norska húsinu í Stykkishólmi en auk þess hefur hún tekið þátt í samsýningum. 

Sýningaropnun er fimmtudaginn 8. september kl. 17. Allir eru velkomnir.

____________________________

Sigurður Örlygsson - Málaðar klippimyndirMálaðar klippimyndir -Sigurður Örlygsson opnar í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 28. júlí
kl. 17:00
Undirstöðuþættir málverksins þ.e.s. litur, form, bygging og hreyfing hafa alltaf höfðað sterkt til mín. Geometrían hefur ávallt verið til staðar hjá mér hvað sem ég mála. 
Sigurður Örlygsson
Sigurður Örlygsson opnaði sýningu sína Málaðar klippimyndir í Gallerí Gróttu í gær 28. júlí en þá fagnaði listamaðurinn jafnframt 70 ára afmæli sínu. Sýningin stendur til 19. ágúst.

____________________________
Gallerí Grótta, Árni Rúnar Sverrisson - NÆR-FJÆR
NÆR-FJÆR - Árni Rúnar Sverrisson opnar í Gallerí Gróttu
fimmtudaginn 2. júní kl. 17:00
Árni  Rúnar Sverrisson (f. 1957) lærði myndlist við Myndlista-og 
handíðaskóla Íslands og Myndlistakóla Reykjavíkur  og hefur sýnt víða frá því hann hélt sína fyrstu einkasýningu á Mokka 1989. Árni hefur fyrst og fremst unnið og sýnt á Íslandi, en einnig erlendis.  Árið 1999 dvaldi hann á Sikiley þar sem hann starfaði að list sinni og hélt sýningu í Palermo.   Hann á að baki hátt á annan tug einkasýninga,  auk þess sem hann hefur tekið þátt í samsýningum og samkeppnum.

Líkt og áður er náttúran nálæg í myndum Árna Rúnars.  Málverkin klippa 
áhorfandann frá sínu venjulega sjónarhorni á náttúruna og varpar honum 
inn í smáveröld steinanna og þeirra harðgerðu plantna sem þrífast á 
vindsorfnu og frostsprungnu yfirborði þeirra.  Þar sjáum við samhengið 
milli þess stóra og hins smáa og getum velt fyrir okkur undrum 
náttúrunnar sem endurspegla bæði reglu og óreglu sína hvert sem litið 
er, jafnvel í grjótinu undir fótum okkar. Undanliðin tvö ár hafa sumar myndanna fengið víðari skírskotun, það eru 
hugrenningar listamannsins um tengsl manns við náttúru.

Opið mánudaga til fimmtudaga kl. 10:00 - 19:00, föstudaga kl. 10:00 - 17:00 og laugardaga kl. 14 - 16

Sýningunni lýkur 24. júní kl. 17:00.

____________________________

Recollection - Theresa Himmer í Gallerí GróttuRecollection - Theresa Himmer opnar í Gallerí Gróttu 

Miðvikudaginn 4. maí kl. 17 verður opnuð í Gallerí Gróttu sýning á verkum listamannsins og arkitektsins Theresu Himmer. Um er að ræða nýja verkaheild sem samanstendur af ritverki, sem ber sama heiti og sýningin og tveimur ljósmyndaseríum sem tengjast innbyrðis. Theresa á að baki myndlistarnám frá School of Visual Arts og Whitney Museum í New York og arkitektanám frá arkitektaskólanum í Árósum. Verk hennar hafa verið sýnd á samsýningum víða um heim og hér heima. 

Sýning Theresu Himmer, Recollection,  er ný verkaheild sem samanstendur af ritverki, sem ber sama heiti og sýningin, og tveimur ljósmyndaseríum sem tengjast innbyrðis. Saman mynda þessir þrír kjarnar sýningarinnar eins konar ritgerð um ferðalag, eða tilraun til að íhuga rýmisþætti minninga þar sem arkitektónískt rými og myndrými mætast. Með því að rannsaka aðferðir sem felast í því að mætast, deila, skilja að og gleyma finna verkin jafnvægi á milli tilrauna með strúktúr og ljóðrænnar endurspeglunar.

Ljósmyndaverkin byggja á rannsóknarferð listamannsins til Búlgaríu vorið 2015, í boði Ruse Art Gallery.

Ritverkið Recollection er unnið í samvinnu við Arnar Frey Guðmundsson, grafískan hönnuð og með stuðningi frá Statens Kunstfond, Danmörku.

Theresa Himmer
Theresa á að baki myndlistarnám frá Whitney Museum og School of Visual Arts í New York og arkitektanám frá arkitektaskólanum í Árósum. Verk hennar hafa verið sýnd víða á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Westfälische Kunstverein-Münster-Þýskalandi, Soloway Gallery og Art in General, New York. Hún hefur hlotið verðlaun og styrki frá m.a. Myndlistarsjóði Íslands, Statens Kunstfond (DK) og The American-Scandinavian Foundation.
_________________________________
Daði Guðbjörnsson í Gallerí Gróttu
Ferð andans í frumskógi efnisins - Daði Guðbjörnsson

Daði Guðbjörnsson í Gallerí Gróttu – Fimmtudag 7. apríl kl. 17 

Listmálarinn Daði Guðbjörnsson (1954) hefur þegar skipað sér á bekk með athyglisverðustu myndlistamönnum sinnar kynslóðar. Hann hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og skapað sér sérstæðan og persónulegan stíl þar sem hugmyndir, tákn og tilvitanir eru honum óþrjótandi viðfangsefni. 

Á sýningunni hans, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 7. apríl kl. 17, kannar Daði nýjar lendur málaralistarinnar þar sem hann vinnur með kunnuleg tákn úr verkum sínum beint á ljósmyndir. Sýningin nefnist Ferð andans í frumskógi efnisins en þar skoðar listamaðurinn samhengið á milli lífsins og ferðalags sem bæði fela í sér að ná áfangastað sem oft er ekki fyrirsjáanlegur. Eftir nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Myndlista- og handíðaskóla Íslands nam Daði við Rijksakademi van Beldende Kunsten í Amsterdam til ársins 1984. Hann hefur haldið fjölda samsýninga og einkasýninga, oftast á Íslandi en einnig erlendis. 

Eftir Daða liggja bókverk og bókaskreytingar og stærstu listasöfn þjóðarinnar eiga verk eftir hann. Árið 1993 gaf Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningaskrá um listamanninn. 


Sýningaropnun fimmtudaginn 7. apríl kl. 17:00
Opið virka daga 10-19, föstudaga 10-17
Opið alla laugardaga frá kl. 14 til 16 
_________________________________


Hönnunarmars 10. mars - 1. apríl 2016

FRÍMÍNÚTUR - Þórunn Árnadóttir

Hönnunarmars 2016 Sturla Már og Þórunn Árnadóttir

Þórunn Árnadóttir sýnir nýjar viðbætur við vörulínuna sína "Sipp og Hoj!" sem unnin er í samstarfi við Egersund netaverkstæði á Eskifirði, Jónsver saumastofu á Vopnafirði og Þórhall Árnason smið á Egilsstöðum.

Þema vörulínunnar er "frímínútur" og í henni fléttast hefðbundið netagerðarhandverk og efni frá netaverkstæðinu saman við Austfirsk náttúruefni eins og lerki úr Hallormsstaðaskógi og hreindýraleður. Vörurnar eru allar hannaðar með það að markmiði að nýta staðbundið hráefni og handverk Austurlands á þann hátt að auðvelt sé að framleiða þær.

 "Sipp og Hoj" var upphaflega frumsýnd á Hönnunarmars 2014 í Spark Design Space undir samstarfsverkefninu "Austurland: Designs from Nowhere" sem snerist um að rannsaka möguleika til smáframleiðslu á 

Austurlandi.Verkefnið hlaut Hönnunarverðlaun Íslands árið 2014.

PRESTAR OG PRJÁL - Sturla Már Jónsson

Sturla Már Jónsson (1947) nam trésmíði og síðan húsgagna- og innanhússhönnun við London College og Furniture. Hann hefur hannað innréttingar í hús af öllum gerðum og hannað húsgögn fyrir helstu húsgagnaframleiðendur landsins í meira en tvo áratugi. 

Sturla hefur einbeitt sér að hönnun húsmuna fyrir fjöldaframleiðslu og eru húsgögn hans notuð af þúsundum fólks á degi hverjum. Hann hefur verið fastagestur á Hönnunarmars undanfarin ár og unnið til ýmissa verðlauna fyrir hönnun sína.

Á sýningunni í Gallerí Gróttu sýnir Sturla á sér aðra hlið og bregður á leik í hönnun hluta sem hann smíðar sjálfur sérstaklega fyrir sýninguna. Þetta eru hugmyndir sem hafa legið í skúffu í skissuformi og ekki gefist tími til að sinna fyrr en nú. Hlutirnir eiga samhljóm hvað notkun og form varðar en samt er hver hlutur einstakur og ekki endilega reiknað 

með að smíði hans verði endurtekin. Smíðað er úr uppáhalds efni Sturlu: gegheilum við og málmi._________________________________

Reykjavík 1985-1990 - Húbert Nói Jóhannesson

Húbert Nói Jóhannesson - Reykjavík 1985-1990

Reykjavík 1985-1990 er yfirskrift sýningar Húberts Nóa Jóhannessonar sem verður opnuð í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 11. febrúar kl. 17. Á sýningunni eru nokkur verka Húberts Nóa frá árunum 1985-1990 og hafa sum þeirra ekki verið sýnd áður opinberlega. Verkin eru af stöðum í Reykjavík sem málaðir eru eftir minni en strax á námsárum sínum var það leiðarstef listamannsins að færa umhverfið, byggingarlist og landslag inn í manneskjuna og yfirfæra það aftur út í umhverfið, hafandi staldrað við um stund í efnaferli líkamans. 
  Húbert Nói - 1989 VesturbærÁ þeim tíma, sem verkin vísa til, kom upp á yfirborðið stefna í myndlist er nefndist  neo geo eða ný geometria, sem er m.a. kennd við listamennina Helmut Federle, John Armleder, Gerwald Rockenschaub og Franz Graf. Áhrifa stefnunnar gætti talsvert hjá ungum myndlistarmönnum sem voru að hasla sér völl á Íslandi um miðjan níunda áratuginn og margir snérust á sveif með henni einkum eftir gestakennslu Helmut Federle við MHÍ 1984. 
Myndlistarmaðurinn Húbert Nói felldi þessa stefnu að sínum myndheimi þar sem borgarumhverfi og landslag er einfaldað í geometrisk form. Framsetning og viðfangsefni eru persónuleg en sjálfsprottin nálgun við listsköpun var ein meginstefa í hugmyndafræði nýja málverksins og pönksins, sem voru nánast samtíða neo geo stefnunni.  

Hugmyndalist (concept) var allsráðandi í listheimi áttunda áratugarins og voru verk Húberts Nóa, rómantísk og upphafin, meðvitað samtal eða andsvar við stefnuna eins og hún birtist honum.  Í viðtali sem tekið var við Húbert Nóa í Þjóðviljanum 1. ágúst 1987 sagði hann um verkin sín:    „Þetta eru hús í borginni, Skólavörðuhæðin, Elliheimilið Grund…Þjóðminjasafnið …….En ég mála þetta eftir minni, svona eftir að myndin af húsinu eða staðnum er búin að gerjast í undirmeðvitundinni í dálítinn tíma”. Til að undirstrika að upplifunin hafi farið í gegnum vefi líkamans lýsir Húbert Nói pensilskrift verkanna lagskiptri og gagnsærri  þannig í texta sýningarskrár (Gallerí Sævars Karls 1990):

 „Tími, tilfinningar, minningar hafa ákveðið gegnsæi: Hugsanir leggjast hver yfir aðra, þar er upplifunin, eilítið á skjön við hinn ytri veruleika… “ 

Samspil innri og ytri heims hefur verið viðfangsefni manna um aldir microcosmos og macrocosmos en Húbert Nói skoðar með aðferð sinni meðvitað færsluna milli þessara heima. Fyrirmynd verkanna er ekki hinn ytri heimur beint heldur minningin um hann, hún er síðan færð út í ytri heiminn í formi listaverks og verður þannig hluti af honum. 

Heiti verkanna hér er oft skilgreint með götuheiti eða götunúmeri viðfangsefnisins, minningarinnar. Síðar á ferlinum táknar Húbert Nói staðsetningar með hnattstöðu, lengdar- og breiddarbaugum, en með þeirri nálgun verður landslagsmálverk að rúmfræði eða geometriu.  Sýningarsalurinn sem mótíf  eða viðfangsefni kemur inn í myndheim Húberts Nóa 1985 og staðsetningarverk (site specific ) unnin í sýningarrými mynda óslitið ferli í höfundarverkinu. Með þessum verkum og síðar „málverkum af málverkum” gerir hann minni áhorfandans að beinum þátttakanda í ferlinu milli fyrirmyndar /eftirmyndar og hreyfingarinnar milli rýmis hins innri heims og rýmis hins ytri heims.  Í verkum Húberts er geometrian myndlíking (metafora) fyrir innviði manneskjunnar. Að nota minnið við gerð listaverks er að setja upplifun hennar í forgrunn, kortleggja hinn innri heim og staðsetja og skoða hugsanaferli.  Minnið er þannig hin persónulega upplifun en á sama tíma sammannlegt fyrirbæri (collective).

_________________________________

Elsa Nielsen bæjarlistamaður Seltjarnarness

#einádag - Elsa Nielsen Bæjarlistamaður Seltjarnarness

Elsa Nielsen grafískur hönnuður og myndlistarmaður var í dag útnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness. Hún er tuttugasti Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina.

Elsa hefur sýnt og sannað með verkum sínum að hún er meðal okkar fremstu hönnuða í dag. Viðfangsefni hennar eru fjölbreytt og hafa hlotið verðskuldaða athygli hvort sem er á sviði grafískrar hönnunar, merkjahönnunar, auglýsingaherferða, málaralistar, stafrænnar myndvinnslu, teikninga, myndskreytinga, frímerkjahönnunar eða bókaútgáfu. Þannig vermdi litabók hennar  Íslensk litadýrð efstu sæti bóksölulista undir lok síðasta árs. Mörg hundruð manns fylgdust af áhuga með dagbókarfærslum hennar á Instagram og Facebook undir yfirskriftinni #einádag, þar sem hún skrásetti líf sitt með því að teikna eina mynd á dag allt árið um kring.  Í tilefni af útnefningunni hefur verið opnuð sýning á öllum dagbókarfærslunum 365 í Gallerí Gróttu og stendur sýningin yfir til 5. febrúar. 

Elsa er fædd í Reykjavík árið 1974. Hún útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 1999. Hún starfaði í 13 ár sem hönnunarstjóri á auglýsingastofu ENNEMM en frá september 2013 hefur hún rekið sitt eigið hönnunarfyrirtæki, Nielsen hönnunarstofu. Hún býr á Seltjarnarnesi ásamt eiginmanni og þremur börnum.

Á sviði málaralistarinnar hefur Elsa einkum einbeitt sér að því að mála uppstækkaðan grafískan myndflöt á striga með akrýllitum. Verkunum ljær hún dýpt með því að byggja flötinn upp með sparsli og sandi. Þó að málverk Elsu standi sjálfstæð sýna þau glöggt hvernig Elsu tekst að færa margra ára reynslu og kunnáttu með grafíska miðlun yfir á annað stig.

Verk eftir Elsu NielsenStrax á námsárum sínum fór Elsa að sýna verk sín og á nú að baki fjölda sam- og einkasýninga á sviði málaralistar. Á síðustu tveimur einkasýningum Elsu í Gallerí Gróttu og Mokka-Kaffi sýndi hún svo ljósmyndir unnar með stafrænni tækni. Þannig vann Elsa með mörg helstu  kennileiti Seltjarnarness og Reykjavíkurborgar og setti í nýjan og ævintýralegan búning. Verkin hafa hvarvetna vakið athygli og verið seld utan sem innanlands.

Elsa er einn af fáum frímerkjateiknurum landsins. Hún er félagi í FÍT (Félag íslenskra teiknara) og gegndi þar stjórnarsetu frá 2010-2011. Hún er fyrrum félagi SÍM (Sambands íslenskra myndlistarmanna) og hefur unnið við ýmis dómarastörf innan FÍT og einnig fyrir ÍMARK (samtök markaðsfólks á Íslandi). Í dag situr hún í stjórn SÍÓ ( Sambandi íslenskra Ólympíufara).

Elsa hefur hlotið margar viðurkenningar og verðlaun fyrir grafíska hönnun, bæði hérlendis og erlendis, en skemmst er að minnast tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013 fyrir Brosbókina, barnabók sem hún myndskreytti, hannaði og er meðhöfundur að. Að auki hefur hún myndskreytt og komið að útgáfu fjölmargra annarra barna- og unglingabóka. 

Farsæll ferill og velgengni Elsu hefur ekki einskorðast við sköpun á sviði hönnunar og lista, en margir þekkja hana betur fyrir afrek hennar á sviði íþrótta þar sem hún hampaði margsinnis Íslandsmeistaratitli í badminton og var fulltrúi Íslands í einliðaleik á Ólympíuleikunum í tvígang.

Menningarnefnd Seltjarnarness var einróma í vali á Bæjarlistamanninum 2016. Elsa hefur sýnt að hún er vel að nafnbótinni komin og Seltirningar mega vera stoltir af að eiga jafn hæfileikaríkan einstakling innan sinna raða. Auk nafnbótarinnar hlýtur Bæjarlistamaðurinn verðlaunafé að upphæð einni milljón króna. Við útnefninguna tilkynnti Elsa að nafnbótinni fylgdi mikill heiður og að eitt af verkefnum hennar á árinu væri að miðla og vinna með skólabörnum á Nesinu.

Gallerí Grótta er til húsa á Eiðistorgi, 2. hæð og er það opið mánudaga-fimmtudaga kl. 10-19 og föstudaga kl. 10-17. Fyrsta laugardag sýningarinnar, 16. janúar verður enn fremur opið frá kl. 11-16.

Fyrrum bæjarlistamenn Seltjarnarness eru:
Helgi Hrafn Jónsson, tónlistarmaður 2015
Ari Bragi Kárason, trompetleikari 2014
Sigríður Heimisdóttir, hönnuður 2013
Jóhann G. Jóhannsson, leikari 2012
Birna Hallgrímsdóttir, píanóleikari 2011
Freyja Gunnlaugsdóttir, klarínettuleikari 2010
Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona 2009
Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarkona 2008
Jóhann Helgason, tónlistarmaður 2007
Sigríður Þorvaldsdóttir, leikari 2006
Auður Hafsteinsdóttir, fiðluleikari 2005
Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona  2004
Ásbjörn Morthens (Bubbi), tónlistarmaður 2002
Messíana Tómasdóttir, myndlistarkona 2001
Rúna Gísladóttir, myndlistarkona 2000
Guðrún Einarsdóttir, listmálari 1999
Ragna Ingimundardóttir, leirlistakona 1998
Herdís Tómasdóttir, veflistakona 1997
Gunnar Kvaran, sellóleikari 1996

_________________________________

Kristján Jónsson - Portrett og landslag í Gallerí GróttuPortrett og landslag – Kristján Jónsson kl. 17:00

Portrett og landslag í Gallerí Gróttu
Listamaðurinn og leiðsögumaðurinn Kristján Jónsson opnar sýningu sína Portrett og landslag í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 10. desember kl. 17. 

Líkt og titillinn gefur til kynna er viðfangsefni sýningarinnar sótt í gamalkunnugt stef myndlistararfsins. Kristján vill með því hylla okkar ástsælu landslagsmálara og um leið að máta sig við þá málarahefð, sem flestum er kunn, með persónulegri nálgun. Verkin bera með sér djúpstæða ást listamannsins á landinu þar sem hann ver drjúgum hluta lífs síns sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn. 

Kristján stundaði nám í Escola Massana listaskólanum í Barcelona og hefur sýnt reglulega bæði hér á landi og erlendis síðustu 20 ár. Verk eftir hann eru í eigu fjölda einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og safna.
Allir eru velkomnir á sýningaropnunina en Gallerí Grótta er á 2. hæð á Eiðistorgi við hlið Bókasafnsins. Opnunartími er mán.-fim.dag 10-19 og fös. 10-17. Einnig verður opið laugardaginn 12. desember kl. 14-17.
Aðgangur er ókeypis. Sýningin stendur til 8. janúar. 

Sjá nánar á: www.kristjanjonsson.com


_________________________________

Sýningaropnun - Farvegir vatns – Samsýning þriggja systra kl. 17:00

Ingileif, Áslaug og Sigrún Thorlacius - Farvegir vatnsThorlacius systurnar þrjár Ingileif, Áslaug og Sigrún gengu allar í Ísaksskóla, Æfingaskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð en völdu ólíkar leiðir þegar kom að háskólanámi. Þær áttu eftir að sameinast aftur undir merkjum myndlistarinnar; útskrifaðar úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands auk þess að hafa sótt sér framhaldsmenntun í myndlist og tengdum greinum.

Nú sameinast systurnar þrjár í fyrsta sinn á samsýningu, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 12. nóvember kl. 17 og velta fyrir sér áhrifum vatns út frá fagurfræðilegu sjónarmiði, nýtingu þess og krafti.

Ingileif og Áslaug eiga fjölmargar sýningar að baki en Sigrún sýnir hér í fyrsta sinn opinberlega eftir útskrift. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands á síðasta ári þar sem hún vakti athygli á því hvernig sveppir geta unnið eitur úr jarðvegi.

Ingileif Thorlacius

Vatnið er rauður þráður í höfundarverki Ingileifar, bæði sem myndefni og miðill. Við upphaf ferils síns málaði hún stór olíumálverk af vatni í stríðum straumum. Með tímanum sneri hún sér æ meir að vatnslit. Um leið varð myndefnið naumara og litunum fækkaði. Síðustu verkin hennar eru einföld rannsókn á ferðalagi vatnsins um pappírinn. Myndirnar á sýningunni falla í þann flokk.

Áslaug Thorlacius

Áslaug notar teikninguna sem rannsóknartæki. Með henni lærir hún ekki eingöngu að þekkja yfirborðið heldur öðlast hún djúpa persónulega vitneskju um innri gerð viðfangsefnisins. Hún sýnir blýantsteikningar og röð blekmynda af vestfirskum fjallahvilftum, giljum og klettabeltum sem vatn og aðrir kraftar náttúrunnar hafa mótað.

Sigrún Thorlacius

Verk Sigrúnar er hugvekja um votlendi. Íslendingar hafa ræst fram mýrar af miklum ákafa og þurrkað upp meirihluta votlendissvæða á láglendi í nafni landnýtingar. Hnattræn áhrif þessara aðgerða eru mun meiri en flestir gera sér grein fyrir. Á sýningunni túlkar hún vísindalegar niðurstöður íslenskra sérfræðinga. Með því vill hún vekja til umhugsunar um hvar við stöndum og hvert við stefnum í meðferð og nýtingu vatns, lands og náttúrugæða.

Um systurnar/listamennina

Ingileif fæddist 5. ágúst 1961, Áslaug 11. september 1963 og Sigrún 10. febrúar 1968. Allar gengu í Ísaksskóla, Æfingaskólann og Menntaskólann við Hamrahlíð en Ingileif lauk stúdentsprófi 1981, Áslaug 1983 og Sigrún 1988.

Ingileif

Ingileif las bókmenntafræði við HÍ í eitt ár að loknu stúdentsprófi en fór svo í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk málaradeild 1986. Hún stundaði framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1986-88, tók diplómapróf í listkennslufræðum frá LHÍ 2004 og hóf meistaranám í menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst haustið 2005. Þar lauk hún öllum kúrsum en átti meistaraverkefnið eftir.

Ingileif fékk hálfs árs listamannalaun árið 1989. Hún var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Valand listaháskólann í Gautaborg og Listaháskóla Íslands. Hún vann við fræðsludeild Listasafns Reykjavíkur árin 1997-2003 og kenndi einn vetur við Ljósafossskóla eftir kennsluréttindanámið. Árið 2005-6 var hún framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands á Blönduósi. Ingileif lést 22. mars 2010.

Ingileif hélt fimm einkasýningar á níu árum, eina í Maastricht, aðra í Ásmundarsal og þrjár í Nýlistasafninu en hún var mjög virk í starfi félagsins og sat þar um tíma í stjórn. Hún tók þátt í átta samsýningum á Íslandi og í Svíþjóð og sýndi auk þess í tvígang ásamt Áslaugu systur sinni. Í janúar 2014 stóð fjölskylda hennar fyrir yfirlitssýningu á verkum hennar í Listasafni ASÍ undir yfirskriftinni Myndir Ingileifar. Af því tilefni gaf Eyja - útgáfufélag út bók með sama nafni.

Áslaug

Áslaug var við rússneskunám í Sovétríkjunum árið 1984-85. Hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og lauk þaðan námi við fjöltæknideild árið 1991. Hún lauk BA gráðu í rússnesku og bókmenntafræði 1993 og diplómaprófi í listkennslufræðum frá LHÍ 2004.

Áslaug var framkvæmdastjóri Samtaka um kvennalista árin 1995-2000. Samhliða því var hún formaður stjórnar Nýlistasafnsins í Reykjavík 1995-97 og myndlistargagnrýnandi DV 1997-2000.  Hún starfaði á skrifstofu Myndlistaskólans í Reykjavík árin 2001-3 og var formaður Sambands Íslenskra myndlistarmanna 2002-9 samhliða kennslu við Melaskóla 2004-11. Hún var prófdómari útskriftarverkefna í myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorin 2001 og 2004, kenndi námskeið við myndlistardeild Háskólans í Xiamen í Kína og hefur kennt rússneska listasögu við rússneskudeild Háskóla Íslands frá 2009. Áslaug sneri aftur til starfa við Myndlistaskólann í Reykjavík vorið 2012 og hefur verið skólastjóri skólans frá júní 2014.

Áslaug hefur tekið þátt í yfir 20 samsýningum og haldið annað eins af einkasýningum og sýningum í samstarfi við fjölskyldu sína og Ingileifu systur sína. Hún dvaldi í gestavinnustofu í Kína haustið 2006 og í Kjarvalsstofu í París í ársbyrjun 2013. Áslaug hefur fengið samanlagt eins og hálfs árs listamannalaun og hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir verk sín á Vatnslitatvíæringnum í Kaunas árið 2012. Hún gerði skúlptúra fyrir verkið Vits er þörf á Háskólatorgi sem Finnur Arnar vann fyrir Háskóla Íslands og haustið 2014 vann hún verkefni fyrir Listskreytingarsjóð í móttöku göngudeild geðdeildar Landspítalans á Kleppi.

Sigrún

Sigrún lauk BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands í júní 1993. Hún stundaði nám á listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði 2008 -2012 og lauk BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands í júní 2015.

Sigrún hefur starfað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum frá 1993. Fyrstu árin í fræðsludeild garðsins þar sem aðalhlutverk hennar var að fræða og útbúa efni fyrir nemendur í skipulögðu fræðslustarfi, sem og fyrir gesti garðsins. Frá 1997 hefur hún sinnt starfi aðstoðarforstöðumanns garðsins. Samhliða námi við LHí (2012 – 2015) var hún í hlutastarfi en er nú aftur komin í fullt starf.

Á námsárunum hefur Sigrún tekið þátt í nemendasýningum, fyrst á vorsýningum Iðnskólans í Hafnarfirði og síðar sýningum Listaháskóla Íslands, síðast á útskriftarsýningu skólans í Hafnarhúsinu vorið 2015. Þess utan tók hún þátt í samsýningu 3. árs vöruhönnunarnema í Gallerí Tukt á hönnunarmars 2015. Farvegir vatns er fyrsta sýning Sigrúnar að lokinni útskrift.

Skoða veggspjald

_________________________________

Sýningaropnun - Taktur í 100 ár 15. október kl. 17:00


Taktur í 100 árTaktur í 100 ár er sýning sem varpar ljósi á baráttusöngva kvenna síðustu 100 ár. Um hvað fjölluðu baráttusöngvar fyrir um liðlegri öld og hvernig hafa þeir þróast til dagsins í dag.

Leikonan Arndís Hrönn Egilsdóttir fór í hlutverk framtíðarkonunnar og sýndi klæðnað hennar eftir 100 ár, sem Sigurlaug Brynjúfsdóttir nemandi í Való hannaði og útfærði með hjálp kennara og fulltrúa úr félagsstarfi aldraðra.

Kvenréttindabaráttan með augum nokkurra nemanda í Való  kynnt í myndum, texta, ljóðum og bókverkum. Verkefnin voru unnin í samstarfi við sýningarstjóra og kennara.

Sýningarstjóri Sigurlaug Arnardóttir. Sýningin var unnin í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna.

Sýningin var hluti af menningarhátíð Seltjarnarness. Formaður menningarnefndar Kartín Pálsdóttir setti hátíðina. Félagar úr Kammerkór Seltjarnarness sungu nokkur baráttulög. Veitingar í boði. Allir velkomnir.


_________________________________

Sýningaropnun - Dagbjört Drífa Thorlacius 24. september 2015 kl. 17:00


Lífsglíma mannsins hverju sinni markar hann og gerir hann að því 
Gallerí Grótta - Dagbjört Drífa
sem hann er í öllum sínum margbreytileika. Verkin
 á sýningu Dagbjartar Drífu Thorlacius varpa ljósi á samferðamenn hennar í tímans rás. Ekki er um eiginlegar persónur að ræða heldur vinnur listamaðurinn úr samansöfnuðu minni sínu myndir af fólki sem hefur orðið á vegi hennar í gegnum lífið. Í verkin fléttast utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif á okkar daglega líf eins og tilfinningar, náttúra, litir og tíðarandi. 

Hvert verk býr yfir eigin sögu sem myndlistarmaðurinn skráir á tvívíðan flötinn. Sagnabrot koma úr ólíkum áttum líkt og mannverurnar á myndunum en tengjast saman í nýja frásögn með hversdagslegum og ljóðrænum undirtóni. 
Verk Dagbjartar Drífu eru flest unnin á síðastliðnum fjórum árum með olíulitum á striga og pappaspjöld.

Dagbjört Drífa Thorlacius (f. 1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA próf í myndlist árið 2004 og með diplomagráðu í listkennslufræðum frá sama skóla árið 2006. Hún nam ljósmyndun við Københavns Tekniske skole og lauk MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2013. Dagbjört Drífa hefur sýnt víða bæði ein og í samvinnu við aðra, komið að ýmsum listtengdum samstarfsverkefnum við erlenda aðila og staðið að útgáfu bókverka.

Opið mánudaga til fimmtudaga 10-19 og föstudaga 10-17, laugardag 26. og sunnudag 27. september kl. 13-16.

_________________________________

Sýningaropnun - Finnbogi Pétursson 27. ágúst 2015 kl. 17:00

Bæjarmið 2014 - Finnbogi Pétursson
Sýningaropnun listamannsins Finnboga Péturssonar í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17.
Finnbogi Pétursson (f.1959) er Íslendingum að góðu kunnur fyrir hugmyndalist sína, þar sem hann vinnur á mörkum 
ólíkra listforma og fléttar saman skúlptúr, hljóði og arkitektúr svo úr verða margvíðar innsetningar. 
Á sýningunni í Gallerí Gróttu kveður við annan tón en þar sýnir Finnbogi tvívíð verk undir heitinu Sjólag, sem eru eins konar 
stillimyndir af sjávarlandslagi. Með aðstoð tölvustýrðs rita og lögmálum hnitakerfisins dregur Finnbogi upp mynd af yfirborði sjávar út af Eskifirði þar sem munnmælasögur og gömul rit lýstu staðsetningu fengsælla miða. Í íslenskri atvinnusögu voru fá leyndarmál betur varðveitt og staðsetning fiskimiða, en hvert verk býr yfir sögu um slíka leiðarlýsingu.Teikningarnar sjálfar taka svo mið af fyrirframgefinni sjóveðurspá, vindstefnu og ölduhæð
.


Finnbogi lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan við Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Hann hefur sýnt víða um heim og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001.
Opið mán.-fim. 10-19, fös. 10-17, laugardag 29. og sunnudag 30. ágúst kl. 13-17.

Helgina 19. og 20. september kl. 13-16 tekur Finnbogi tekur á móti gestum. Verið velkomin.

_________________________________

Sýningaropnun - Daníel Magnússon 13. maí 2015 kl. 17:00

Gallerí Grótta - Daníel Magnússon - Perpetual YouthPerpetual Youth er yfirskrift sýningar Daníels sem hann tileinkar vini sínum og kollega Birgi Andréssyni 1955-2007.
Verkin eru frá tveimur síðustu árum og tekin að vetri til. Þau eru í tilliti til stemmingarinnar sem liggur utangarðs.
Verkin eru óður til innibirtunnar sem uppistendur af fluorperu ljósi og glóperum en dagsljós er víkjandi. Það er gert til að draga fr
am þá einustu vetrarbirtu sem borgarbúar njóta í híbýlum sínum á vetrarmánuðum.

Val á formum og litum í viðfangi þessara verka eru tekið með tilliti til dramans og þagnarinnar. Þau eru fulltrúar fyrir gæjur og njósn plebeans um vanhelga staði og vísana til Euclidiskrar rúmfræði og leikhússins. Verkin eru upphafning hins hlutlausa og samofna umhverfis til frásagnar um efri sannindi.

Mat Dekenskloppen

Skoða veggspjald

_________________________________

Jósepsdalur, Tryggvi Þórhallsson, Apríl - Grimmastur mánuðaSýningaropnun - Tryggvi Þórhallsson 9. apríl 2015 kl. 17:00

Apríl – Grimmastur mánuða er yfirskrift vatnslitasýningar Tryggva Þórhallssonar (f.1962) sem verður opnuð í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 9. apríl kl. 17:30. Tryggvi tileinkar aprílmánuði verk sín en hann er kunnur fyrir viðkvæm vatnslitaverk þar sem hann leitast við að fanga hin ólíku birtubrigði íslenskrar náttúru. Tryggvi stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984 – 1988 og brautskráðist frá grafíkdeild. Hann er félagi í Íslenskri grafík. 

Sýningin er opin má-fim 10-19 og fö 10-17. 

Aðgangur ókeypis.

Skoða veggspjald

_________________________________

Hönnunarmars 2015 12. mars kl. 17:00  

Gallerí Grótta - HönnunarmarsHadda Fjóla Reykdal & Hlín Reykdal í Gallerí Gróttu
Systurnar Hadda Fjóla Reykdal listmálari og Hlín Reykdal hönnuður vinna báðar út frá hughrifum úr náttúrunni. 
Á sýningu þeirra í Gallerí Gróttu skoða þær hvernig hugmyndir þeirra mætast og mótast og verða að samspili í ólíkum miðlum verkanna.
Hadda Fjóla og Hlín verða með leiðsögn um sýninguna 13. mars kl. 15-17 og 14. og 15. mars kl. 13-15.
Sýningin stendur til 31. mars.

Theresa Himmer-Unglingadeild-Bokasafn-Seltjarnarness_hsSofa Complex - Theresa Himmer
Sofa Complex eða Sófa Kompleksið er ný innsetning ætlað unglingum sem Theresa Himmer arkitekt og myndlistarmaður hefur gert fyrir Bókasafn Seltjarnarness. Í rýminu mætast hönnun, arkitektúr og myndlist. Mikið mótunarferli liggur að baki innsetningu Theresu en um er að ræða stílhreint lestrarrými eða landslag sem miðar að því að mæta ólíkri samskiptaþörf og -hegðan ungmenna. Innsetningin hverfist um sex sætiseiningar sem gefa til kynna röð ólíkra samfunda. Í leikandi landslaginu er hægt að dvelja einn með sjálfum sér, eiga góða stund með félögunum, fara á trúnó, taka sér hvíld frá vini eða hjúfra sig upp að honum. Geómetrísk form innsetningarinnar eru hönnuð fyrir líkama í hvíldarstöðu; sitjandi, hallandi eða liggjandi með fæturna lárét eða lóðrétt. Algjört jafnvægi ríkir í innsetningunni, þar er hvorki miðja né hápunktur sem skapar jafnræði innan hópsins og ýtir undir lýðræðisleg samskipti.
Sófa kompleksið er smíðað úr viði og klætt með sérprentuðu teppi frá hinum virta EGE teppaframleiðenda í Danmörku, sem styrkti verkefnið. Mynstur teppisins gerði Theresa sérstaklega fyrir rýmið. 

Reykjavíkurdætur rappa kl. 18
                         
       Hönnunarmars merki 2015     
  

Allir velkomnir.

Opnunartími:
Formleg opnun fimmtudaginn 12. mars kl. 17

Mánudaga – fimmtudaga 10-19 
Föstudaga 10-17
Helgina 14. og 15. mars 13-17


_________________________________

Safnanótt 2015 – föstudag 6. febrúar kl. 19-24 

Lóa Hlín - HaugurinnNýr og glæsilegur sýningarsalur, Gallerí Grótta, verður opnaður á Safnanótt. 

Fyrsti listamaðurinn til að sýna í salnum er myndlistar- og tónlistarmaðurinn Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir meðlimur í hljómsveitinni FM Belfast. 

Safnanótt stendur frá kl. 19-24 og er lögð áhersla að allir finni þar eitthvað við sitt hæfi, en diskótaktur og diskóljós er undirliggjandi þema næturinnar. 


Menning og listir