Fundagerðir
Bæjarstjórn
Hér er að finna fundargerðir bæjarstjórnar frá þessu ári, raðað í tímaröð. Fundargerðir annarra ára er raðað eftir ártölum í hægri dálki: "Leitað eftir árum"
Hér er að finna fundargerðir bæjarstjórnar frá þessu ári, raðað í tímaröð. Fundargerðir annarra ára er raðað eftir ártölum í hægri dálki: "Leitað eftir árum"
Miðvikudaginn 15. apríl 2020 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).
Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2019, síðari umræða.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Sturla Jónsson endurskoðandi frá Grant Thornton sem kynnti ársreikning 2019 og endurskoðunarskýrslu 2019.
Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2019. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég senda öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2019 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.
Til máls tóku: GAS, SEJ, KPJ, ÁH, SB, MÖG
Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar Seltirninga og Neslista/Viðreisnar við seinni umræðu ársreiknings Seltjarnarnesbæjar 2019.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista lýsa yfir furðu sinni yfir enn einu árinu þar sem óráðsía og óstjórn hefur ráðið för í fjármálum Seltjarnarnesbæjar. Uppsafnaður halli á rekstri A-hluta bæjarins er nú um 630 milljónir króna á síðustu fimm árum. Öll ár á árabilinu 2015-2019, nema eitt hefur verið verulegur halli á rekstri bæjarins. Á sama tíma hafa stjórnendur bæjarins ítrekað brotið sveitarstjórnarlög með því að auka fjárheimildir umfram fjárhagsáætlun án þess að fá til þess samþykki bæjarstjórnar.
Nú þegar fyrirséð er að vegna ytri aðstæðna muni tekjur lækka og útgjöld aukast margfaldast þær áhyggjur sem íbúar bæjarins hafa af rekstri bæjarsjóðs. Ekkert borð er fyrir báru og fullkomlega ljóst að árið 2020 verður enn eitt árið þar sem verulegur hallarekstur verður á bænum og að skuldir hans muni í kjölfarið aukast. Á meðan nágrannasveitafélög okkar hafa skilað afgangi og búið í haginn fyrir komandi tíð, hafa hér hlaðist upp skuldir vegna fjárfestingaákvarðana og hallareksturs.
Afkoma A-hluta | Afkoma A-hluta mv. útsvarsprósentu Kóp. | |
---|---|---|
2015 | -174.047 | -96.793 |
2016 | 3.648 | 89.014 |
2017 | -99.592 | -3.706 |
2018 | -264.027 | -162.333 |
2019 | -95.493 | 9.293 |
Uppsafnaður halli 2018-2019 | -629.511 | -164.525 |
Fundargerð 98. fundar Bæjarráðs.
Ákvarðanir sem fram komu í fundargerðinni sem er 22 tl. eru staðfestir samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.
Eftirfarandi liður í fundargerð Bæjarráðsfundar nr. 98 var borin upp til staðfestingar.
Liður nr. 3 í fundargerð. Leiðrétting á þjónustugjöldum.
Bæjarstjórn samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka nr. 2 við fjárhagsáætlun 2020 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, kostnað að upphæð kr. 14.100.000,- vegna leiðréttingar á þjónustugjöldum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis. Kostnaður þessi skal greiddur af Bæjarsjóði Seltjarnarness og kostnaðarauka skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.
Til máls tóku: MÖG, SB
Bókun Samfylkingar
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga fagna því að bæjarráð hafi lagt fram tillögur í 22 liðum til að bregðast við áhrifum Covid-19 á bæjarfélagið okkar. Mikilvægt er að unnið verði áfram með útfærslur á tillögunum og að þær verði unnar í breiðri sátt allra flokka, starfsfólks og fagnefnda þannig að tillögurnar verði byggðar á faglegum grunni og komi þannig sem best til móts við bæjarbúa á þessum erfiðu tímum.
Við teljum að sú vinna þurfi að vinnast skipulega og hratt fyrir sig og leggjum við til að allar fagnefndir ásamt þeim stjórnendum sem þeim tengjast fjalli um tillögur bæjarráðs og komi með skilgreindar og kostnaðargreindar aðgerðir sem lagðar verði fyrir bæjarráð sem fyrst og til umfjöllunar á næsta bæjarstjórnarfundi.
Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu er aukin krafa á hröð vinnubrögð í stjórnsýslunni og aukið samráð allra kjörinna fulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins.
Að lokum viljum við aftur hrósa starfsfólki Seltjarnarnesbæjar fyrir sín störf við að halda uppi þjónustu við íbúa Seltjarnarnesbæjar og þökkum við íbúum bæjarins fyrir að virða þau tilmæli sem stjórnvöld hafa gefið út til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 veirunnar.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Samfylking Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Samfylking Seltirninga
Fundargerð 305. fundar Skólanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: KPJ, SEJ, GAS, ÁH, SB
Bókun:
Það eru forkastanleg vinnubrögð að nú 15. apríl, tveimur mánuðum eftir að æskulýðsfulltrúi sveitarfélagsins sagði upp störfum er ekki búið að leggja fram neina áætlun um málefni frístundamiðstöðvar Seltjarnarness. Ekki er búið að auglýsa stöður æskulýðsfulltrúa eða forstöðumanna unglinga- og barnastarfs. Það styttist í sumarstarfið og á sama tíma og bæjarstjórn samþykkir tillögur um að efla skapandi starf og veita öllum námsmönnum á Seltjarnarnesi vinnu þá er búið að skera út skapandi sumarstörf og jafningjafræðslu. Einnig ríkir algjör óvissa um sumstarf grunnskólabarna með tilheyrandi óþægindum fyrir foreldra og börn.
Ef ráðast á í breytingar á frístundamiðstöð Seltjarnarness er mikilvægt að óskað verði eftir ráðgjöf fagfólks í frístundastarfi og tillögur verði lagðar fram sem allra fyrst svo hægt sé að auglýsa eftir fagfólki og endurreisa æskulýðsstarf á Seltjarnarnesi
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Fundargerð 299. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð 139. fundar Veitustofnunar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: GAS, KPJ, ÁH, SB, MÖG
Fundargerð 382. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð Reykjanesfólkvangs.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerðir 485., 486., 487., 488., 489., 490., 491. og 492. stjórnar SSH.
Fundargerðirnar lagðar fram.
Til máls tóku: GAS, ÁH, SEJ
Fundargerð 191. fundar stjórnar SHS.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð 318. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerðir 421., 422., 423., 424. og 425. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðirnar lagðar fram.
Til máls tóku: GAS, BTÁ, KPJ, ÁH
Fundargerð 880. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: ÁH, GAS
Fundi slitið kl. 18:25