Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Erindisbréf

Erindisbréf fyrir fjárhags- og launanefnd Seltjarnarness

Meginhlutverk

Fjárhags- og launanefnd Seltjarnarnesbæjar fer með, í umboði bæjarstjórnar, umsjón með fjármálum Seltjarnarnesbæjar samkvæmt lögum og reglugerðum er þar að lúta* og því sem bæjarstjórn felur henni. Þá skal nefndin fylgja samþykkt um stjórn og fundarsköp Seltjarnarnesbæjar eins og hún er hverju sinni.

Meginhlutverk fjárhags- og launanefndar Seltjarnarnesbæjar er að fara með fjármálastjórn bæjarins að því leyti sem þessi mál eru ekki öðrum falin. Hún hefur umsjón með fjárstjórn stjórnsýslu Seltjarnarnesbæjar, undirbýr fjárhagsáætlanir og sér um að ársreikningar séu samdir reglum samkvæmt. Meðal verkefna nefndarinnar er:

 • að starfa með bæjarstjóra,
 • að vera bæjarstjórn til ráðgjafar og veita umsögn um erindi er tengjast fjárhagsáætlun bæjarins,
 • að fylgjast með framkvæmd samþykkta, laga og reglugerða er snerta starfssvið nefndarinnar,
 • að gera tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu þeirra mála er hún fær til meðferðar,
 • að vinna ásamt bæjarstjóra að nauðsynlegum undirbúningi stefnumótunar og markmiðssetningar bæjarstjórnar í samræmi við þá framtíðarsýn er hún hefur á hverjum tíma,
 • að hafa eftirlit með því að samþykkt markmið bæjarstjórnar með starfi fagnefndar nái fram að ganga,
 • að fjalla um fjárhagsáætlun hvers árs og þriggja ára áætlun,
 • að ákveða skiptingu og ráðstöfun fjár sem áætlað er til einstakra málaflokka,
 • gerir tillögur til bæjarstjórnar um gjaldskrár vegna þjónustu bæjarins við íbúa í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni,
 • að gera tillögu til bæjarstjórnar um útgáfu fræðsluefnis og hverskyns aðra kynningu til íbúa Seltjarnarnesbæjar, fyrirtækja og stofnana um þau mál sem falla að verksviði nefndarinnar,
 • að fjalla um önnur þau mál sem bæjarstjórn felur nefndinni.

Fjárhags- og launanefnd gerir tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála. Nefndinni er ekki heimil fullnaðarafgreiðsla mála. Fjárhags- og launanefnd tekur ársreikninga til umfjöllunar áður en þeir eru lagðir fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu.

Nefndin skal leitast við að ná því grundvallarmarkmiði að tryggja að ákvarðanir hennar og vinna skuli fyrst og fremst vera í þágu allra íbúa sveitarfélagsins sem leggur þær skyldur á herðar fulltrúum í nefndinni að setja ávallt almannahagsmuni ofar sérhagsmunum hvort heldur er sínum eigin eða einstakra hópa.

Fundir og starfshættir

Fjárhags- og launanefnd skal skipuð þremur mönnum og þremur til vara kosnum af bæjarstjórn að loknum bæjar­stjórnarkosningum. Auk kjörinna fulltrúa situr bæjarstjóri fundina með málfrelsi og tillögurétt. Bæjarstjórn skipar formann fjárhags- og launanefndar en varaformaður skal kosinn af nefndinni á fyrsta fundi hennar. Framkvæmdastjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs ritar fundargerðir. Aðrir starfsmenn bæjarins sitja fundi fjárhags- og launanefndar eftir því sem málefni gefa tilefni til.

Formaður fjárhags- og launanefndar eða varaformaður í forföllum hans lætur boða fundi í nefndinni með a.m.k. sólarhrings fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði. Boða ber til fundar, ef meirihluti aðalmanna æskir þess. Formaður kveður að jafnaði til fundar einu sinni í mánuði, í samræmi við 3. lið 565. fundar bæjarstjórnar dags. 18.12.2002.

Formleg erindi, fyrirspurnir og mál er fjárhags- og launanefnd berast skulu skráð í málaskrá bæjarins áður en þau eru tekin fyrir á fundum. Á sama hátt skal eftir fund skrá mál er nefndin samþykkir í kjöl­far umræðna að vinna að. Skjalastjóri ber ábyrgð á að skráning og eftirfylgni mála sé í samræmi við reglur Seltjarnarnesbæjar hverju sinni.

Fjárhags- og launanefnd getur enga ályktun gert nema meirihluti nefndarmanna sitji fund. Við atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum máls, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum. Verði atkvæði jöfn með máli og móti, fellur það. Fjárhags- og launanefndarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, t.d. vegna fjölskyldu- eða hagsmunatengsla, skal yfirgefa fundarsal nefndarinnar við umræðu og afgreiðslu þess, sbr. 3., 4. og 5. greinar Stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þeir sem sitja fundi fjárhags- og launanefndar skulu gæta fyllsta trúnaðar um þau einkamál, er rædd kunna að vera á fundum. Þagnarskylda helst, þó að látið sé af störfum.

Samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar þann 11.04. 2007


*Sérstaklega stjórnsýslulögum nr. 37/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996, sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998, ásamt öðrum lögum, reglugerðum og auglýsingum er ótalin eru hér.


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: