Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Erindisbréf

Erindisbréf fyrir skólanefnd Seltjarnarness

Meginhlutverk

Skólanefnd Seltjarnarnesbæjar fer, í umboði bæjarstjórnar, með málefni leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og frístundamiðstöðvar samkvæmt lögum og reglugerðum er þar að lúta* og því sem bæjarstjórn felur henni. Þá skal nefndin fylgja samþykkt um stjórn og fundarsköp Seltjarnarnesbæjar hverju sinni.

Meginhlutverk skólanefndar er sem hér segir:

 • að fara með málefni og fylgjast með starfsemi grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla, frístundamiðstöðvar og dagforeldra eftir því sem lög og reglugerðir ákveða.
 • að sjá til þess að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu.
 • að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla.
 • að fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í sveitarfélaginu og gerð skólanámskrár og gera tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skóla- og frístundastarfi.
 •  að fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu.
 • að sjá til þess að jafnan sé fyrir hendi viðeigandi húsnæði fyrir kennslu og starfsemi frístundamiðstöðvar auk annars aðbúnaðar, þ.m.t. útivistar- og leiksvæði fyrir nemendur,
 •  að hafa eftirlit með að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt og gera tillögur til bæjarstjórnar um úrbætur auk þess sem hún skal vera bæjarstjórn til ráðgjafar og veita umsögn í skólamálum.
 •  að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.
 • að hafa eftirlit með skólatengdri þjónustu á vegum sveitarfélagsins utan skólatíma.
 • að hafa samráð við heilbrigðisþjónustu og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslu í skólum.
 • að fjalla um önnur þau mál sem bæjarstjórn felur nefndinni.

Jafnframt skal skólanefnd stuðla að tengslum og samstarfi tónlistarskóla, leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar auk annarra hagsmunaaðila í skólasamfélaginu.Skólanefnd getur átt frumkvæði að vinnu við mat á skólastarfi, þróunar- og nýbreytnistarfi og símenntun starfsfólks.

Nefndin skal leitast við að ná því grundvallarmarkmiði að tryggja að ákvarðanir hennar og vinna séu fyrst og fremst í þágu allra íbúa sveitarfélagsins og það leggur þær skyldur á herðar fulltrúum í nefndinni að setja ávallt almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur sínum eigin eða einstakra hópa.

Skipan, fundir og starfshættir

Skólanefnd skal skipuð fimm fulltrúum  kosnum af bæjarstjórn Seltjarnarness í upphafi hvers kjörtímabils. Varamenn í skólanefnd skulu jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt. Bæjarstjórn skipar formann skólanefndar en ritari og varaformaður skulu kosnir af nefndinn á fyrsta fundi hennar.

Rétt til setu á fundum skólanefndar á meðan fjallað er um málefni grunnskóla, með málfresli og tillögurétt eiga:

 • skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness,
 • einn fulltrúi grunnskólakennara við Grunnskóla Seltjarnarness,
 • einn fulltrúi foreldra í skólaráði Grunnskóla Seltjarnarness.

Rétt til setu á fundum skólanefndar á meðan fjallað er um málefni leikskóla, með málfrelsi og tillögurétt, eiga:

 • leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness,
 • einn fulltrúi starfsfólks Leikskóla Seltjarnarness,
 • einn fulltrúi foreldraráðs Leikskóla Seltjarnarness.

Rétt til setu á fundum skólanefndar á meðan fjallað er um málefni tónlistarskóla, með málfrelsi og tillögurétt, á:

 • skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Rétt til setu á fundum skólanefndar á meðan fjallað er um málefni frístundamiðstöðvar, með málfrelsi og tillögurétt, á: 

 • forstöðumaður Frístundarmiðstöðvar Seltjarnarness

Sviðsstjóri situr fundi nefndarinnar, með málfrelsi og tillögurétt. Hann ber ábyrgð á eftirfylgni við ákvarðanir og samþykktir nefndarinnar.

Nefndin getur einnig boðið öðrum til fundar varðandi tiltekin mál.

Fulltrúar í nefndinni og aðilar sem sitja fundi nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu. Óheimilt er að greina frá ummælum einstakra fundarmanna á fundum. Sama gildir um atriði sem aðilar fá vitneskju um og leynt skulu fara eðli máls samkvæmt. Þagnarskylda helst þó að látið sé af störfum.

Formaður nefndarinnar, eða varaformaður í forföllum hans, boðar eða lætur boða fundi í nefndinni með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði. Málsgögn skulu varðveitt með tryggilegum hætti þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að þeim. Boða ber til fundar ef þriðjungur eða fleiri aðalmanna í nefndinni æskir þess. Formaður kveður til fundar svo oft sem þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en 8 sinnum á ári. Boðun varamanna skal vera í samræmi við bæjarmálasamþykkt.

Formleg erindi, fyrirspurnir og mál er skólanefnd berast skulu skráð í málaskrá bæjarins áður en þau eru tekin fyrir á fundum. Á sama hátt skal, eftir fund, skrá afgreiðslu mála í málaskrá. Skjalastjóri ber ábyrgð á að skráning og eftirfylgni málsgagna sé í samræmi við reglur Seltjarnarnesbæjar hverju sinni.

Kjörnum fulltrúum í skólanefnd er heimilt að koma saman til svokallaðra „vinnufunda“ án þess að boða þá sem lögum samkvæmt eiga rétt til setu á formlegum skólanefndarfundum. Hins vegar er litið svo á að slíkir fundir séu óformlegir og þar skulu ekki teknar ákvarðanir né haldin um þá opinber gjörðabók, þeir eru m.ö.o. ekki formlegir nefndarfundir.

Nefndin getur enga ályktun gert nema meirihluti nefndarmanna sitji fund. Við atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum máls, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum. Verði atkvæði jöfn með máli og móti, fellur það. Fundarmaður, sem vanhæfur er við úrlausn máls, skal yfirgefa fundarherbergi nefndarinnar við umræðu og afgreiðslu þess, sbr. 3., 4. og 5. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ályktun nefndarinnar, sem hefur í för með sér útgjöld umfram samþykktir bæjarstjórnar, skal ætíð send bæjar­stjóra í sérstöku erindi. Bæjarstjóri leggur ályktunina fyrir bæjarráð til endanlegrar afgreiðslu. Nefndinni er að öðru leyti heimilt að afgreiða, án staðfestingar bæjarstjórnar, mál á verksviði hennar ef lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því og þau víkja ekki frá stefnu bæjarstjórnar í veigamiklum atriðum .

Rita skal fundargerðir nefndarinnar í sérstaka fundargerðabók, sem heimilt er að tölvuskrá. Fundargerð skal lesin upp í lok fundar og nefndarfulltrúar skulu staðfesta samþykki sitt með undirritun.

Fræðslustjóra er heimilt að afgreiða án staðfestingar skólanefndar:

 • leyfi fyrir námsvist utan lögheimilissveitarfélags,
 • leyfi fyrir námsvist nemenda í Grunnskóla Seltjarnarness, sem eiga lögheimili utan Seltjarnarness,
 • leyfi fyrir leikskóladvöl utan lögheimilissveitarfélags / leyfi fyrir þjónustusamningum við einkarekna leikskóla,
 • leyfi fyrir leikskóladvöl í Leikskóla Seltjarnarness fyrir börn sem eiga lögheimili utan Seltjarnarness,
 • leyfi til daggæslu í heimahúsum,
 • beiðnir um langtímaleyfi starfsmanna á fræðslusviði,
 • önnur mál sem skólanefnd felur fræðslustjóra að afgreiða.

Fræðslustjóri kynnir skólanefnd ársfjórðungslega mál sem hann afgreiðir í umboði hennar.

Með vísan til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla skal beina kærum vegna ákvarðana skv. 1. mgr. 47. gr. grunnskólalaga og 1. mgr. 30. gr. leikskólalaga til skólanefndar áður en unnt er að kæra slíka ákvörðun til ráðherra. Ef skólanefnd fær til meðferðar kærumál samkvæmt ákvæðum laga er varða nefndina, gilda um meðferð kærumálsins reglur stjórnsýslulaga. Um sérstakt hæfi nefndarmanna og annarra fulltrúa sem rétt hafa til að sitja fundi nefndarinnar gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar þann 11.12.2013.


* Sérstaklega er hér átt við stjórnsýslulög nr. 37/1993, upplýsingalög nr. 140/2012, sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, lög um leikskóla nr. 90/2008, reglugerðir um leikskóla nr. 225/1995, 365/2001, 642/2002 og 242/2009, lög um grunnskóla nr. 91/2008, lög um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda nr. 87/2008, reglugerðir um grunnskóla nr. 386/1996, 389/1996, 519/1996, 270/2000 og 351/2002, og lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985, sjá nýja reglugerð um frístundaheimili, æskulýðslög nr. 70/2007  ásamt öðrum lögum, reglugerðum og auglýsingum er ótalin eru hér.


Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: