Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Jafnlaunastefna

Jafnlaunastefna Seltjarnarnesbæjar

Jafnlaunastefna Seltjarnarnesbæjar

Gildissvið, tilgangur og markmið

Jafnlaunastefna þessi er órjúfanlegur hluti af starfsmannastefnu og jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar og telst jafnframt vera launastefna þess. Jafnlaunastefna þessi nær til allra starfsmanna sem ráðnir eru í þjónustu sveitarfélagsins. Starfsmaður telst sá sem er í vinnu hjá Seltjarnarnesbæ og vinnur undir stjórn og ábyrgð sveitarfélagsins.

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að tryggja að allir sem starfa hjá sveitarfélaginu hafi jöfn tækifæri í starfi, fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni.

Það er markmið Seltjarnarnesbæjar að enginn óútskýrður launamunur sé til staðar hjá sveitarfélaginu. Markmiðið skal vera mælanlegt og tímasett nánar í framkvæmdaáætlun jafnlaunastefnu.

Með setningu stefnu þessarar og innleiðingu jafnlaunakerfis skv. staðlinum ÍST 85:2012 er það markmið Seltjarnesbæjar endurspeglað að ávallt skuli unnið markvisst gegn kynbundnum launamun, beinni eða óbeinni mismunun á grundvelli kyns og stuðlað að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, með síðari breytingum.

Með jafnlaunakerfi Seltjarnarnesbæjar á að vera tryggt að launaákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér beina eða óbeina mismunun eftir kyni eða öðrum þáttum. Með innleiðingu jafnlaunakerfis er ákveðið verklag við launaákvarðanir fastsett innan Seltjarnarnesbæjar sem á að tryggja jafnrétti, stöðugar umbætur og tímasett viðbrögð sem felast í leiðréttingu kynbundins launamunar, komi hann í ljós.


Skuldbinding Seltjarnarnesbæjar

Til að uppfylla skyldur sínar og ná markmiðum jafnlaunastefnu þessarar skuldbindur Seltjarnarnesbær sig til að:

 • Fylgja og hlíta viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum og eftir atvikum öðrum réttarheimildum, sem í gildi eru á hverjum tíma.
 • Innleiða, skjalfesta og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi skv. jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012, sbr. einnig 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með síðari breytingum.
 • Koma á rýnihópi jafnlaunakerfis og tryggja nauðsynlegar auðlindir til innleiðingar og viðhalds jafnlaunakerfis.
 • Setja fram og rýna skjalfest jafnlaunamarkmið, a.m.k. árlega á fundi rýnihóps jafnlaunakerfis.
 • Tryggja að fyrir hendi séu skráðar og skjalfestar verklagsreglur eða viðmið fyrir jafnlaunakerfi,  m.a. um starfaflokkun, hlítingu laga og reglna, eftirlit með kerfinu, viðbrögð, umbætur, samskipti, launagreiningar, skjalavörslu og úttektir.
 • Tryggja að allar ákvarðanir um laun og kjör séu skjalfestar, rökstuddar og rekjanlegar og í samræmi við jafnlaunastefnu og jafnlaunakerfi.
 • Láta fara fram jafnlaunaúttekt.
 • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf með það að markmiði að kanna hvort munur er á launum starfsmanna eftir kyni og kynna helstu niðurstöður hennar fyrir starfsfólki sveitarfélagsins.
 • Framkvæma árlega innri úttekt á jafnlaunakerfi sem kynna skal fyrir rýnihópi jafnlaunakerfis.
 • Bregðast án ástæðulauss dráttar við ábendingum um frávik eða frábrigði sem fram koma varðandi jafnlaunakerfi og upplýsingum um óútskýrðan launamun með tímasettri úrbótaáætlun.
 • Kynna jafnlaunamarkmið og jafnlaunastefnu þessa fyrir öllum starfsmönnum sveitarfélagsins og tryggja aðgengi allra að henni, m.a. með birtingu á vefsíðu sveitarfélagsins.


Ábyrgð á jafnlaunastefnu og jafnlaunakerfi

Bæjarráð, bæjarstjórn og bæjarstjóri bera ábyrgð á jafnlaunastefnu þessari og eftirfylgni hennar.

Sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs ber ábyrgð á skjalfestingu, innleiðingu, framkvæmd, hlítingu, eftirliti og viðhaldi stefnunnar og jafnlaunakerfi Seltjarnarnesbæjar sem og því að nauðsynlegar auðlindir séu tryggðar til að unnt sé að uppfylla skyldur sveitarfélagsins og markmið skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með síðari breytingum.

 

Uppfærð og samþykkt á fundi rýnihóps jafnlaunakerfis Seltjarnarnesbæjar, dags. 5. nóvember 2019, samþykkt á 90. fundi bæjarráðs þann 21. nóvember 2019 og staðfest á 898. fundi bæjarstjórnar þann 27. nóvember 2019.

 

 
Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: