Stjórnsýsla

Jafnlaunastefna Seltjarnarnesbæjar

Jafnlaunastefna Seltjarnarnesbæjar

Almennt

Seltjarnarnesbær hefur launajafnrétti að leiðarljósi við launastefnu sína. Jafnlaunastefna þessi er órjúfanlegur hluti af launastefnu og jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.

Það er stefna Seltjarnarnesbæjar að tryggja að konur og karlar sem starfa hjá sveitarfélaginu hafi jöfn tækifæri í starfi, fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum. Með stefnunni er unnið markvisst gegn kynbundnum launamun, beinni eða óbeinni mismunun á grundvelli kyns og stuðlað að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, með síðari breytingum.

Til að ná markmiðum jafnlaunastefnu þessarar skal Seltjarnarnesbær:

  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum og eftir atvikum öðrum réttarheimildum, sem í gildi eru á hverjum tíma.

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi skv. jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 sbr. einnig 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með síðari breytingum.

  • Tryggja að fyrir hendi séu skráðar og skjalfestar verklagsreglur fyrir jafnlaunakerfi, s.s. um flokkun starfa, hlítingu laga og reglna, samskipti, launagreiningar, skjalavörslu og úttektir.

  • Innleiða og kynna jafnlaunamarkmið og jafnlaunastefnu þessa fyrir öllum starfsmönnum sveitarfélagsins og tryggja aðgengi þeirra að henni.

  • Láta fara fram jafnlaunaúttekt.

  • Tryggja að allar ákvarðanir um laun og kjör séu skjalfestar, rökstuddar og rekjanlegar og í samræmi við jafnlaunastefnu og jafnlaunakerfi.

  • Framkvæma árlega innri úttekt á jafnlaunakerfi og fara yfir með sviðsstjórum Seltjarnarnesbæjar.

  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf með það að markmiði að kanna hvort munur er á launum starfsmanna eftir kyni.

  • Bregðast án ástæðulauss dráttar við óútskýrðum launamun.

  • Kynna helstu niðurstöður launagreiningar fyrir starfsfólki.

Sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs ber ábyrgð á framfylgd jafnlaunastefnu þessarar og innleiðingu og viðhaldi jafnlaunakerfis Seltjarnarnesbæjar.

Samþykkt á 80. fundi bæjarráðs þann 23. maí 2019.

Staðfest á 890. fundi bæjarstjórnar þann 12. júní 2019.Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: