Vefþulan er vefþjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá

Stjórnsýsla
Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar 

Aðgerðaráætlun í jafnréttismálum 2019 - 2023

1.      Inngangur

Seltjarnarnesbær leggur áherslu á að unnið sé að jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum sveitarfélagsins og þess samfélags sem þar er fyrir hendi. Seltjarnarnesbær gerir það meðal annars með því að setja sér eftirfarandi jafnréttisáætlun, sbr. 12. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (hér eftir nefnd jafnréttislög), þar sem fram koma verkefni með tilgreindum ábyrgðaraðila og tímaramma. Jafnréttisáætlunin skal vera grundvallar verkfæri innan Seltjarnarnesbæjar til að vinna að jafnri stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og tryggja þeim sem taka þátt í samfélaginu jöfn réttindi óháð stöðu og kyni.

Markmið jafnréttisáætlunar þessarar er að koma á og tryggja jafnrétti og jöfn tækifæri kynjanna og stuðla að kynjasamþættingu í allri starfsemi bæjarfélagsins sem og jafnri þátttöku kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Þá skulu allir einstaklingar eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Tilmælum er einnig beint til annarra aðila í sveitarfélaginu að tryggja jafnrétti.

Jafnréttisáætlunin byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, með síðari breytingum, (hér eftir jafnréttislög), lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018.

Í 1. gr. jafnréttislaga kemur fram að markmiðum laganna skuli m.a. náð með því að:

   a. gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,

    b. vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,

    c. bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu,

    d. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði,

    e. gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,

    f. efla fræðslu um jafnréttismál,

    g. greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni,

    h. efla rannsóknir í kynjafræðum,

    i. vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni,

    j. breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.

2.      Hlutverk Seltjarnarnesbæjar og fjölskyldunefndar

Samkvæmt 12. gr. jafnréttislaga skulu sveitarfélög skipa jafnréttisnefndir sem hafa það hlutverk að vera ráðgefandi og hafa frumkvæði að aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jafnréttisnefndir hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára. Bæjarstjórn hefur falið fjölskyldunefnd verkefni jafnréttisnefndar  og umsjón með gerð jafnréttisáætlunar.

Seltjarnarnesbær hefur sem sveitarfélag þríþætt hlutverk í samfélaginu, sem stjórnvald, sem vinnuveitandi og sem þjónustuveitandi. Jafnréttisáætlun þessi tekur mið af þessu þríþætta hlutverki.

Fjölskyldunefnd hefur með höndum jafnréttismál innan bæjarfélagsins, nefndin starfar í umboði bæjarstjórnar og skal vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn í málum er varða jafnrétti kvenna og karla. Fjölskyldunefnd skal fylgjast með stöðu kynjanna og þróun jafnréttismála í bæjarfélaginu, upplýsa bæjarstjórn, telji hún vanhöld vera á framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar, og eiga frumkvæði að aðgerðum telji hún þess þörf.

Jafnréttisáætlunin skal endurskoðuð í upphafi hvers kjörtímabils. Fjölskyldunefnd aflar upplýsinga um stöðu og þróun jafnréttismála í bæjarfélaginu, gerir úttekt á framkvæmd áætlunarinnar og leggur fyrir bæjarstjórn ásamt tillögum að úrbótum og endurskoðaðri áætlun innan árs frá sveitarstjórnarkosningum.

Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Skipun Fjölskyldunefndar sem falin eru verkefni jafnréttisnefndar. Bæjarstjórn Lokið
Yfirferð og eftir atvikum endurskoðun jafnréttisáætlunar Fjölskyldunefnd Fyrir 1. desember 2019 og 1. desember 2022

3.      Umfang jafnréttisáætlunar og framkvæmd

Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar nær til stjórnsýslu bæjarins, allra starfsmanna, íbúa og annarra þeirra sem koma að samfélaginu. Áætlunin varðar einnig þjónustu, fræðslu og umönnun sem veitt er á vegum stofnana bæjarins. Auk þess eru tilmæli í áætluninni sem beint er til fyrirtækja og starfsemi sem er óháð rekstri bæjarins.

Til þess að framfylgja jafnréttisáætlun og verkefnum á sviði jafnréttismála skal gert ráð fyrir framlagi á fjárhagsáætlun á ári hverju. Fjölskyldunefnd kallar til ráðgjafar og samstarfs þá starfsmenn sem hún telur nauðsynlegt óháð því á hvaða sviði þeir starfa. Þverfagleg vinna auðveldar samþættingu jafnréttissjónarmiða við aðra meginstarfsemi bæjarfélagsins. Lögð er áhersla á að öll svið og stofnanir bæjarins framfylgi jafnréttisáætluninni með markvissum hætti.

Öllum stjórnendum, kjörnum fulltrúum, nefndarmönnum, stofnunum, sviðum og deildum  Seltjarnarnesbæjar ber að vinna samkvæmt jafnréttisáætlun þessari og stuðla að jafnrétti kynjanna í allri starfsemi á vegum Seltjarnarnesbæjar.

 

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Kynning jafnréttisáætlunar fyrir stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins sem og fyrir fyrirtækjum og íbúum í sveitarfélaginu

Bæjarstjórn, fjölskyldunefnd,

yfirmenn sviða og stofnana.

Fyrir 1. febrúar 2020
Kortleggja stöðu kynjanna. Kyngreina gögn og afla upplýsinga um stöðu kynjanna í samfélaginu Fjölskyldunefnd Lokið í mars 2020

4.      Seltjarnarnesbær sem stjórnvald (12., 15., 16. og 17. gr. jafnréttislaga)

4.1.            Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera (15. gr. jafnréttislaga)

Við skipan í nefndir, vinnu- og starfshópa, ráð og stjórnir á vegum Seltjarnarnesbæjar skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa að ræða sbr. 44. og 45. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, með síðari breytingum og 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Sama á við um stjórnir fyrirtækja sem sveitarfélagið er eigandi að.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum sem jafnast, ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs Fyrir 1. febrúar 2020

Taka skal saman upplýsingar um kynjahlutfall í öllum nefndum, hópum og stjórnum á vegum Seltjarnarnesbæjar fyrst eftir að sveitarstjórn kemur saman og svo árlega eftir það.

Kynna skal samantekt á niðurstöðum fyrir bæjarstjóra.

Fjölskyldunefnd Lokið í maí 2020
Leiðrétta skal hlutfall kynja í nefndum, hópum og stjórnum ef á hallar.

Fjölskyldunefnd

Bæjarstjóri

Lokið í maí 2020

4.2.            Kyngreindar upplýsingar – greining á tölfræðiupplýsingum (16. gr. jafnréttislaga)

Við gagnaöflun, greiningu og undirbúning töku ákvarðana skal ávallt greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því. Þá skal ávallt gæta að þörfum, viðhorfum og áhrifum á kynin. Gildir það bæði um sértæka þjónustu og almenna þjónustu.

Starfsemi sem nýtur styrkja frá bæjarfélaginu skal einnig skila kyngreindum upplýsingum um þátttakendur/notendur svo sem iðkendur íþrótta.  

Kyngreindar upplýsingar skulu nýttar við gerð fjárhagsáætlunar og starfsáætlana. Þær eiga að vera aðgengilegar og birtar líkt og önnur tölfræði í ársskýrslum.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Við gagnaöflun, greiningu,  undirbúning og ákvarðanatöku skal kyngreina upplýsingar og birta og tryggja aðgengileika þeirra þar sem það á við. Sviðsstjórar og stjórnendur Viðvarandi
Kalla eftir kyngreindum upplýsingum frá starfsemi sem nýtur fastra styrkja frá sveitarfélaginu Fjölskyldunefnd Fyrir 1. júní ár hvert

4.3.            Kynjasamþætting (17. gr. jafnréttislaga)

Kynjasamþætting er skilgreind í 2. gr. jafnréttislaga sem sú aðgerð „Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“

Kynjasamþættingar skal gætt við alla ákvarðanatöku, stefnumótun og áætlanagerð sem fram fer á vegum Seltjarnarnesbæjar.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Fræðsla eða námskeið fyrir bæjarstjóra, stjórnendur og starfsmenn um jafnréttislögin og kynjasamþættingu Bæjarstjóri Nóv 2019
Gátlisti vegna kynjasamþættingar útbúinn og notaður í stefnumótunarferlum og við áætlanagerð Sviðsstjórar Fyrir lok mars 2020 og viðvarandi
Í erindisbréfum verði texti þar sem vakin er athygli á jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar Formenn nefnda og sviðsstjórar Við endurskoðun erindisbréfa fyrir lok 1. sept 2020
Kynja- og jafnréttissjónarmið séu samtvinnuð við fjárhagsáætlanagerð Sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs Viðvarandi

 

5.      Seltjarnarnesbær sem vinnuveitandi

Hjá sveitarfélaginu er fyrir hendi aðgerðarbundin jafnréttisáætlun þar sem fram kemur hvernig starfsmönnum eru tryggð réttindi skv. 19.-22. gr. jafnréttislaga.

5.1.            Jafnræði á vinnustaðnum (18. gr. jafnréttislaga)

Stjórnendur skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna hjá sveitarfélaginu og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum sem og almennt innan vinnustaðarins.

Stjórnendur skulu gæta þess að jafnrétti endurspeglist í ákvörðunum þeirra við ráðningar, laun, önnur kjör, uppsagnir, tilfærslur í störfum, verkefnum og viðfangsefnum þeim er starfsmönnum er ætlað að sinna. Stefnt skal að svipuðu hlutfalli karla og kvenna á vinnustöðum bæjarins.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Taka saman skýrslu um stöðu kynjanna hjá sveitarfélaginu sem vinnustaðar

Fjölskyldunefnd

 

Fyrir lok mars 2020
Kynna niðurstöðu skýrslu fyrir stjórnendum og ræða úrbætur ef þörf er á

Fjölskyldunefnd

Starfsmannastjóri og yfirmenn stofnana bæjarins

Fyrir lok september 2020

5.2.            Launajafnrétti (19. gr. jafnréttislaga)

Jafnréttislög kveða á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Framkvæma skal launagreiningu einu sinni á kjörtímabilinu. Mannauðsstjóri og launadeild framkvæma könnunina. Við ákvörðun launa og annarra starfskjara skal þess gætt að mismuna ekki eftir kynferði, sbr. 19. gr. laga nr. 10/2008. Starfsmönnum er ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Jafnlaunastefna Bæjarstjórn, bæjarstjóri og sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs. Fyrir 31. desember 2019
Launagreining Bæjarstjóri og mannauðs- og launadeild Fyrir 1. desember 2019 og svo árlega fyrir sama tíma
Jafnlaunavottun Bæjarstjórn, bæjarstjóri og sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs. Fyrir 31. desember 2019 og svo á þriggja ára fresti
Viðhald jafnlaunavottunar Bæjarstjóri, sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs Í nóvember ár hvert fer fram viðhaldsúttekt.
Bregðast við ábendingum um óútskýrðan launamun og leiðrétta án tafar Sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs, mannauðs- og launadeild Viðvarandi

5.3.            Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun (20. gr.)

Lausar stöður hjá bæjarfélaginu skulu ávallt auglýstar til umsóknar og vera aðgengilegar öllum. Starf sem auglýst er skal standa opið jafnt konum sem körlum. Á þeim vinnustöðum þar sem annað kynjanna er ráðandi skal koma fram hvatning til þess kyns sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein að sækja um laus störf. 

Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Laus störf hjá Seltjarnarnesbæ skulu standa opin öllum kynjum

Í starfsauglýsingum eru bæði kynin

hvött til að sækja um starfið

Sviðsstjóri fjárhags- og stjórnsýslusviðs, mannauðs- og launadeild Alltaf þegar laust starf er auglýst
Tryggja skal að starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun sé aðgengileg öllum kynjum Greining á sókn kynjanna í sambærilegum störfum í starfsþjálfun, endurmenntun, og símenntun Mannauðsstjóri Lokið í apríl ár hvert


6.      Samspil atvinnu og fjölskyldulífs (21. gr. jafnréttislaga)

Stuðla skal að sem bestu samspili atvinnu og fjölskyldulífs meðal íbúa og starfsmanna Seltjarnarnesbæjar.

Seltjarnarnesbær leggur áherslu á nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Í starfsmannastefnu Seltjarnarnesbæjar kemur m.a. fram að það er stefna Seltjarnarnesbæjar að vinnustaðurinn sé fjölskylduvænn, að starfsfólk geti að öllu jöfnu sinnt daglegum störfum sínum á dagvinnutíma og að gætt sé samræmis milli starfs- og fjölskylduábyrgðar.

Leitast skal við að gera starfsfólki kleift, eftir því sem verkefni og aðstæður leyfa, að minnka starfshlutfall og/eða vinna á sveigjanlegum vinnutíma, s.s. vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna eða fjölskylduábyrgðar, t.d. vegna umönnunar barna eða veikinda í fjölskyldu starfsmanns. Tekið skal tillit til  kvenna  á meðgöngutíma og foreldra við umönnun ungbarna. Starfsmenn skulu einnig hafa möguleika á sveigjanlegu orlofi eftir því sem við verður komið.

Tryggja skal að unnið sé að framangreindum markmiðum án tillits til kyns starfsmanna.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Kynna starfsmannastefnu Seltjarnarnesbæjar og jafnréttisáætlun fyrir starfsmönnum, stofnunum, atvinnurekendum og íbúum Seltjarnarnesbæjar og birta á heimasíðu bæjarins Fjölskyldunefnd Þegar endanlega staðfest af bæjarstjórn
Tilboð bæjarins til foreldra og barna um frístundir og skólastarf skulu miða að sem bestu samspili atvinnu- og fjölskyldulífs, með þroska og mótun barnanna í fyrirrúmi. Sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs og fræðslusviðs Viðvarandi
Umræða um samspil vinnu við fjölskylduábyrgð í  starfsmannasamtali. Viðkomandi yfirmaður sem tekur starfsmannasamtal Viðvarandi
Aðrir vinnuveitendur í bæjarfélaginu eru hvattir til þess að gera slíkt hið sama.   Viðvarandi

 

7.      Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni (22. gr. jafnréttislaga)

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og/eða kynferðisleg áreitni er með öllu óheimil á vinnustöðum Seltjarnarnesbæjar.

Starfsmenn bæjarins og forsvarsmenn íþrótta- og æskulýðsstarfs bera ábyrgð á að þess sé gætt að starfsfólk, nemar, iðkendur og aðrir notendur verði ekki fyrir kynbundu ofbeldi, kynferðislegu áreiti eða kynbundnu áreiti. Til að koma í veg fyrir  ofbeldi og áreiti skal veita fræðslu til yfirmanna á vinnustöðum Seltjarnarnesbæjar og forsvarsmanna  íþrótta- og æskulýðsstarfs sem þeir miðla áfram til starfsmanna. Verði uppvíst um slíka hegðun ber að gera viðkomandi yfirmanni eða trúnaðarmanni viðvart og skal endir bundinn á hana. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni. Endurtekin áreitni/ofbeldi varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins

Gerð og kynning stefnu og áætlunar í málum er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi.

Fræðsla um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni fyrir stjórnendur og starfsfólk

Fjölskyldunefnd Sviðsstjórar Mannauðsstjóri  

stjórnendur vinnustaða bæjarins og forsvarsfólk íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Viðvarandi
Forvarnar- og viðbragðsáætlun sem tekur á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni sé yfirfarin og eftir atvikum endurskoðuð og sé í stöðugri þróun og endurskoðun

 

Vinna forvarnar- og viðbragðsáætlun.

 

Áætlunin kynnt fyrir öllu starfsfólki og stjórnendum

 

Tekin sé saman skýrsla ár hvert um stöðu málaflokksins hjá sveitarfélaginu

 

 

 

 

 

Fjölskyldunefnd Sviðsstjórar Mannauðsstjóri

Lokið í mars 2020

 

 

 

 

 

 

 

8.      Seltjarnarnesbær sem veitandi þjónustu

Seltjarnarnesbær starfrækir ýmsa þjónustu fyrir bæjarbúa, bæði lögbundna og ólögbundna þjónustu sem mörkuð er með ákvörðunum bæjarstjórnar, s.s. þjónustu við börn, ungmenni og aldraða. Allir skulu eiga jafnan aðgang að þjónustu sveitarfélagsins óháð kyni.

Skipuleggja skal þjónustu Seltjarnarnesbæjar við alla hópa þannig að gætt sé að jafnræðissjónarmiðum og stöðu kynjanna.

Undirliggjandi sjónarmið við ákvarðanatöku um tilhögun þjónustu skulu vera ókynbundin og taka mið af áhrifum ákvarðana á stöðu kynjanna.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Taka saman kyngreinda skýrslu um aðgengi íbúa og þjónustuþega í sveitarfélaginu að tómstundastarfi og lögbundinni og ólögbundinni þjónustu Fjölskyldunefnd Fyrir lok maí 2020
Bregðast við niðurstöðu skýrslu fjölskyldunefndar og jafna eins og mögulegt er aðgengi kynjanna að lögbundinni og ólögbundinni þjónustu innan sveitarfélagsins

Fjölskyldunefnd

Bæjarstjórn

Fyrir lok september 2020
Jafna eins og mögulegt er hlutfall kynjanna í tómstundastarfi innan sveitarfélagsins

Fjölskyldunefnd

Bæjarstjórn

Viðvarandi


9.     
Fræðsla og leiðsögn

Seltjarnarnesbær skal hafa frumkvæði að fræðslu um jafnréttismál og leiðum til þess að jafna stöðu karla og kvenna og tryggja að afurðir fræðslu séu aðgengilegar öllum. Öllum starfsmönnum bæjarins skal standa slík fræðsla til boða. Einnig skulu þeir eiga rétt á ráðgjöf og leiðsögn við einstök mál.

Fréttaflutningur og umfjöllun á vefsíðu bæjarfélagsins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum.

 

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Fræðsla til íbúa um stöðu kynjanna

Fjölskyldunefnd

menningar- og samskiptasvið.

Viðvarandi
Fræðsla til starfsmanna og ráðgjöf varðandi einstök mál

Fjölskyldunefnd

Félagsmálastjóri

Viðvarandi


10.  Menntun, skólastarf og uppeldi (23. gr. og 28. gr. jafnréttislaga)

Gæta skal kynjasamþættingar í allri stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, sem og í öllu íþrótta- og tómstundastarfi innan sveitarfélagsins. Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum Seltjarnarnesbæjar er hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.

Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Sjálfstyrking skal vera hluti af námi á öllum skólastigum. Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skal kynna fyrir kynjunum þau störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- og kvennastörf.

Seltjarnarnesbær skal leitast við að styðja og stuðla að rannsóknum á stöðu kynjanna innan sveitarfélagsins og í íslensku samfélagi, jafnt fræðilegra grunnrannsókna sem og hagnýtra rannsókna. Miðla skal niðurstöðum þeirra og upplýsingum um rannsóknir markvisst innan samfélagsins, skólastarfs og til fjölmiðla.

 

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Fræðsluáætlun vegna jafnréttismála Sviðsstjóri fræðslusviðs Fyrir lok ágúst 2020
Fræðsla um jafnréttismál til nemenda og iðkenda íþrótta sem starfræktar eru innan Seltjarnarnesbæjar Sviðsstjóri fræðslusviðs, skólastjórnendur leik- grunn- og tónlistarskóla, forsvarsmenn félagsmiðstöðva og íþróttafélagsins Gróttu Viðvarandi

 

11.  Jafnréttisviðurkenning

Fjölskyldunefnd veitir einu sinni á hverju kjörtímabili fyrir hönd bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða fyrirtækis í bæjarfélaginu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunarinnar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Viðurkenning fyrir störf í þágu jafnréttismála Fjölskyldunefnd Fyrir maí 2022

 

12.  Gildistími, eftirfylgni, endurskoðun og kynning (12. gr. jafnréttislaga)

Áætlun þessi gildir frá samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness þann 22. janúar 2020 þar til ný áætlun verður samþykkt í upphafi næsta kjörtímabils í síðasta lagi ári eftir kosningar (júní 2023). Með samþykkt áætlunar þessarar fellur úr gildi eldri jafnréttisáætlun sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2016.

Jafnréttisáætlunina skal kynna fyrir íbúum, kjörnum fulltrúum, fyrirtækjum, stofnunum, stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins og vera aðgengileg öllum á heimasíðu bæjarins.

Markmið/Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Að jafnréttisáætlunin skili tilætluðum árangri Taka árlega saman skýrslu yfir aðgerðir skv. áætlun þessari Fjölskyldunefnd Lokið í nóvember ár hvert
Endurskoðun og þróun jafnréttisáætlunar Vinna tillögu að nýrri jafnréttisáætlun á grundvelli reynslu, verkefna og niðurstaðna kannanna. Fjölskyldunefnd Lokið í apríl 2022
Kynning jafnréttisáætlunar Kynning jafnréttisáætlunar fyrir stjórnendum sveitarfélagsins og starfsmönnum, stéttarfélögum, kjörnum fulltrúum og embættismönnum. Fjölskyldunefnd í samráði við bæjarstjóra og sviðsstjóra menningar- og samskiptasviðs. Lokið í nóvember 2019
Birting jafnréttisáætlunar

Opinber birting jafnréttisáætlunar og kynning hennar fyrir íbúum sveitarfélagsins.

 

Fjölskyldunefnd í samráði við bæjarstjóra og sviðsstjóra menningar- og samskiptasviðs. Lokið í nóvember 2019

 Samþykkt í fjölskyldunefnd 21.11.2019 og vísað til bæjarráðs.

Samþykkt í bæjarráði 12. desember 2019

Samþykkt í bæjarstjórn 22. janúar 2020


 

Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: