Stjórnsýsla

Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar

Hlutverk jafnréttisnefndar

Markmiðið með jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar er að tryggja jafnrétti kynjanna og stuðla að kynjasamþættingu í allri starfsemi bæjarfélagsins. Tilmælum er einnig beint til annarra aðila að tryggja jafnrétti. Jafnréttisáætlunin er unnin samkvæmt 12. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Jafnréttisnefnd hefur með höndum jafnréttismál innan bæjarfélagsins, starfar í umboði bæjarstjórnar og er  ráðgefandi fyrir bæjarstjórn í málum er varða jafnrétti kvenna og karla.

Jafnréttisnefnd skal fylgjast með stöðu kynjanna og þróun jafnréttismála í bæjarfélaginu, upplýsa bæjarstjórn, telji hún vanhöld vera á framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar, og eiga frumkvæði að aðgerðum telji hún þess þörf.

Jafnréttisáætlun skal endurskoðuð í upphafi hvers kjörtímabils. Jafnréttisnefnd aflar upplýsinga um stöðu og þróun jafnréttismála í bæjarfélaginu, gerir úttekt á framkvæmd áætlunarinnar og leggur fyrir bæjarstjórn ásamt tillögum að úrbótum og endurskoðaðri áætlun innan árs frá sveitarstjórnarkosningum.

 

Umfang jafnréttisáætlunar og framkvæmd

Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar nær til stjórnsýslu bæjarins og starfsmanna hans.   Áætlunin varðar einnig þjónustu, fræðslu og umönnun sem veitt er á vegum stofnana bæjarins.  Auk þess eru tilmæli í áætluninni sem beint er til fyrirtækja og starfsemi sem er óháð rekstri bæjarins. 

Til þess að framfylgja jafnréttisáætlun og verkefnum á sviði jafnréttismála skal gert ráð fyrir framlagi á fjárhagsáætlun á ári hverju.  Jafnréttisnefnd kallar til ráðgjafar og samstarfs þá starfsmenn sem hún telur nauðsynlegt óháð því á hvaða sviði þeir starfa. Þverfagleg vinna auðveldar samþættingu jafnréttissjónarmiða við aðra meginstarfsemi bæjarfélagsins. Lögð er áhersla á að öll svið og stofnanir bæjarins framfylgi jafnréttisáætluninni með markvissum hætti.

Framkvæmdastjórum  bæjarins og öðrum yfirmönnum ber að vinna samkvæmt markmiðum jafnréttisáætlunarinnar og að stuðla að jafnrétti kynjanna í allri starfsemi á vegum Seltjarnarnesbæjar.

Ábyrgð: Yfirmenn sviða og stofnana.

 

Nefndir og ráð

Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Seltjarnarnesbæjar skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast sbr. 44. og 45. grein sveitarstjórnarlaga.  Nefndir, vinnuhópar og starfshópar sem stofnað er til á vegum bæjarins skulu skipaðir einstaklingum af báðum kynjum.

Ábyrgð: bæjarstjórn, bæjarstjóri og nefndir sem skipa vinnu- og starfshópa.

 

Jafnræði á vinnustöðum

Stjórnendur stofnana skulu gæta þess að jafnrétti endurspeglist í ákvörðunum þeirra við ráðningar og uppsagnir starfsfólks, tilfærslur í störfum og viðfangsefnum þeim er starfsmönnum er ætlað að sinna. Stefnt skal að svipuðu hlutfalli karla og kvenna á vinnustöðum bæjarins. 

Ábyrgð: Starfsmannastjóri og yfirmenn stofnana bæjarins

 

Auglýsingar og ráðningar starfsmanna

Lausar stöður hjá bæjarfélaginu skulu ávallt auglýstar til umsóknar.  Auglýsingar skulu vera aðgengilegar öllum.  Á þeim vinnustöðum þar sem annað kynjanna er ráðandi skal koma fram hvatning til þess kyns sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein að sækja um laus störf.  Við ákvörðun launa og annarra starfskjara skal þess gætt að mismuna ekki eftir kynferði, sbr. 19. gr. laga nr. 10/2008. Starfsmönnum er ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

Ábyrgð: Starfsmannastjóri og aðrir yfirmenn sem ráða starfsfólk til starfa.

 

Kyngreindar upplýsingar.

Yfirmenn stofnana bæjarins skulu greina á milli kynja við öflun upplýsinga um starfsemi hverrar stofnunar eins ítarlega og hægt er til að gefa sem besta innsýn í hvernig viðkomandi þjónusta nýtist í þágu íbúanna. Gildir það bæði um sértæka þjónustu og  almenna þjónustu. Starfsemi sem nýtur styrkja frá bæjarfélaginu skal einnig skila kyngreindum upplýsingum um þátttakendur/notendur svo sem iðkendur íþrótta.   

Kyngreindar upplýsingar skulu nýttar við gerð fjárhagsáætlunar og starfsáætlana. Þær eiga að vera aðgengilegar og birtar líkt og önnur tölfræði í ársskýrslum.

Ábyrgð: yfirmenn sviða og aðrir sem koma að gerð áætlana

 

Samspil atvinnu og fjölskyldulífs   

Stuðla skal að sem bestu samspili atvinnu og fjölskyldulífs meðal íbúa og starfsmanna bæjarfélagsins.

A. Tilboð bæjarins til foreldra og barna um frístundir og skólastarf skulu miða að sem bestu samspili atvinnu- og fjölskyldulífs, með þroska og mótun barnanna í fyrirrúmi.

B. Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.  Til að auðvelda þetta skal starfsfólk eftir því sem við verður komið eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma og/eða breyttum starfshlutföllum. Tekið skal tillit til starfsmanna sem þurfa að taka á sig aukna fjölskylduábyrgð vegna óviðráðanlegra og eða brýnna fjölskylduaðstæðna.

Aðrir vinnuveitendur í bæjarfélaginu eru hvattir til þess að gera slíkt hið sama.

Tekið skal tillit til  kvenna  á meðgöngutíma og foreldra við umönnun ungbarna, sbr. 21. gr. laga nr. 10/2008

Starfsmenn bæjarfélagsins skulu hafa möguleika á sveigjanlegu orlofi eftir því sem við verður komið.

Ábyrgð: stjórnendur vinnustaða bæjarins.

 

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og/eða kynferðisleg áreitni er með öllu óheimil á vinnustöðum bæjarins. Starfsmenn bæjarins og forsvarsmenn íþrótta- og æskulýðsstarfs bera ábyrgð á að þess sé gætt að starfsfólk, nemar, iðkendur og aðrir notendur verði ekki fyrir kynbundu ofbeldi, kynferðislegu áreiti eða kynbundnu áreiti. Til að koma í veg fyrir  ofbeldi og áreiti skal veita fræðslu til yfirmanna á vinnustöðum Seltjarnarnesbæjar og forsvarsmanna  íþrótta- og æskulýðsstarfs sem þeir miðla áfram til starfsmanna. Verði uppvíst um slíka hegðun ber að gera viðkomandi yfirmanni eða trúnaðarmanni viðvart og skal endir bundinn á hana. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni. Endurtekin áreitni/ofbeldi varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi.

Ábyrgð: Mannauðsstjóri, stjórnendur vinnustaða bæjarins og forsvarsfólk íþrótta- og æskulýðsstarfs.

 

Launajafnrétti

Jafnréttislög kveða á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Framkvæma skal launakönnun einu sinni á kjörtímabilinu. Mannauðsstjóri og launadeild framkvæma könnunina.

Ábyrgð: Fjármála- og stjórnsýslusvið

 

Fræðsla og leiðsögn

Fræðsla um jafnréttismál skal vera aðgengileg og leiðir til þess að jafna stöðu karla og kvenna. Öllum starfsmönnum bæjarins skal standa slík fræðsla til boða.  Einnig skulu þeir eiga rétt á ráðgjöf og leiðsögn við einstök mál.

Fréttaflutningur og umfjöllun á vefsíðu bæjarfélagsins tekur mið af jafnréttissjónarmiðum.

Ábyrgð: Jafnréttisnefnd, Menningar- og samskiptasvið.

 

Menntun og uppeldi

Fræðsla um jafnréttismál skal veitt á öllum skólastigum.   Bæði kynin verði búin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. 

Gæta skal kynjasjónarmiða í allri stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.

Í náms- og starfsfræðslu í skólum skal kynna bæði drengjum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- og kvennastörf.

Þess skal sérstaklega aðgætt að kennslu- og námsgögn sé þannig gerð að kynjum sé ekki  mismunað.

Sjálfstyrking verði hluti af námi á öllum skólastigum. 

Í íþrótta- og æskulýðsstarfi bæjarins er kynjum ekki  mismunað.

Ábyrgð: Skólastjórnendur leik- grunn- og tónlistarskóla, forsvarsmenn félagsmiðstöðvar og íþróttafélags

 

Jafnréttisviðurkenning

Jafnréttisnefnd veitir einu sinni á hverju kjörtímabili fyrir hönd bæjarstjórnar Seltjarnarness viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða fyrirtækis í bæjarfélaginu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunarinnar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki.

Ábyrgð: Jafnréttisnefnd

 

Gildistími, endurskoðun og kynning

Áætlunin gildir frá samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness þann 22.06.2016 þar til ný áætlun verður samþykkt í upphafi næsta kjörtímabils (2018)

Jafnréttisáætlunin skal send inn á hvert heimili, fyrirtæki og stofnanir bæjarins og vera aðgengileg á heimasíðu bæjarins.

Ábyrgð: Jafnréttisnefnd, Menningar- og samskiptasvið.

Áætlunina skal endurskoða í upphafi hvers kjörtímabils.

Ábyrgð: Bæjarstjórn

 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 1 Gott aðgengi fatlaðra, forgangur 2

Útlit síðu: